Fara í innihald

Guðmundur dýri Þorvaldsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðmundur Þorvaldsson dýri (d. 1212) var eyfirskur goðorðsmaður og höfðingi á 12. og 13. öld og er þekktastur fyrir deilur sem hann átti í við Önund Þorkelsson, sem lauk með Önundarbrennu.

Guðmundur var sonur Þorvaldar auðga Guðmundssonar (d. 1161) og síðari konu hans, Þuríðar dóttur Guðmundar Þorgeirssonar lögsögumanns. Hann bjó á Bakka í Öxnadal og var auðugur. Á Laugalandi í Eyjafirði bjó Önundur Þorkelsson. Hann átti son sem hét Þorfinnur en Guðmundur átti óskilgetna dóttur sem hét Ingibjörg. Þorfinnur vildi giftast henni en þau voru of skyld til að mega giftast. Guðmundur hafnaði því bónorðinu en þeir feðgar komu þá með hóp manna að Bakka og neyddu Guðmund til að samþykkja ráðahaginn. Biskup lýsti því yfir að börn þeirra skyldu ekki teljast skilgetin. Önundur lét svo nýgiftu hjónin hafa bújörð sína en fór sjálfur að Lönguhlíð í Hörgárdal, rak burtu bóndann sem þar bjó og tók bú hans undir sig þótt hann ætti engan rétt á því.

Margt fleira varð til þess að orsaka óvináttu milli Önundar og Guðmundar, til dæmis gaf maður Guðmundi hesta til að ná sáttum við hann í deilumáli en stal þeim jafnóðum úr haga á Bakka og gaf Önundi. Guðmundur lét sem hann vissi ekki af þessu en menn Önundar hæddu hann og sögðu að hann sæti á friðarstóli í Öxnadal og myndu þeir hlaða vegg fyrir ofan og neðan, tyrfa yfir og kasa þannig metorð Guðmundar. Þeir líktu honum líka við kollótta á sem ullin væri fallin af. Á endanum stóðst Guðmundur ekki mátið lengur, heldur safnaði að sér mönnum, fékk Kolbein Tumason til liðs við sig og fór til Lönguhlíðar 7. maí 1197. Önundur var heima ásamt Þorfinni en hafði töluvert færri menn. Þeir fóru inn í bæinn til að geta betur varist aðkomumönnum. Sagt er að Ögmundur hafi spurt hver réði þar fyrir en Guðmundur hafi svarað:

„Lítil er forystan. Hér er nú komin ær ein kollótt, gengin úr dal ofan og þó af ullin harla mjög, og er ei forystusauðurinn fengilegri en svo, en þó ætlar hún nú að annaðhvort skal verða, að hún skal láta af sér allt reyfið eða ganga með fullu reyfi heim."

Síðan lét hann kveikja í bænum og þegar logaði leyfði hann konum að ganga út og öðrum sem hann vildi gefa grið. Þorfinnur tengdasonur hans sagði að það væri illa að Ingibjörg væri ekki þarna en Guðmundur svaraði að það væri vel að hún væri þar ekki en þó mundi það fyrir engu standa. Þorfinnur hljóp svo út úr eldinum ásamt fleiri mönnum og voru þeir allir felldir en Önundur brann inni. Önundarbrenna þótti níðingsverk en á Alþingi um sumarið kom Jón Loftsson á sættum og dæmdi brennumenn í þungar fésektir sem þó voru ekki greiddar, enda var Jón þá orðinn aldraður og hrumur og dó skömmu síðar.

Guðmundur var síðustu æviárin munkur í Þingeyraklaustri og dó þar 1212. Kona hans var Arndís Pálsdóttir, dóttir Páls Sölvasonar prests í Reykholti og Þorbjargar konu hans og var sonur þeirra Þorvaldur, goðorðsmaður og bóndi á Silfrastöðum. En „sá skapsannmarki lagðist á fyrir Guðmundi, að hann elskaði konur fleiri en þá er hann átti“, eins og segir í Guðmundar sögu dýra, og með öðrum konum átti hann dæturnar Signýju og Ingibjörgu, sem áður er nefnd. Seinni maður Ingibjargar var Hallur Kleppjárnsson, goðorðsmaður á Hrafnagili.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Lögberg-Heimskringla, 5. janúar 1967“.
  • „Sturlunga saga. Google Books“.