Mölturiddarar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Mölturiddara

Mölturiddarar (ítalska: Sovrano Militare Ordine Ospedaliero di San Giovanni di Gerusalemme di Rodi e di Malta eða „fullvalda regla spítalariddara heilags Jóhannesar af Jerúsalem, Ródos og Möltu“) eru kaþólsk riddararegla, sú elsta sem enn starfar. Reglan er með höfuðstöðvar í Róm sem njóta úrlendisréttar. Yfir 100 lönd viðurkenna regluna sem fullvalda gagnvart alþjóðarétti.

Reglan er afsprengi Jóhannesarriddara, bræðrareglu sem var stofnuð af kaupmönnum frá hertogadæminu Amalfi á Ítalíu í Jerúsalem árið 1050 til að reka sjúkrahús fyrir fátæka og veika pílagríma. Eftir að krossfarar lögðu borgina undir sig árið 1099 var bræðralagið gert að riddarareglu. Eftir fall krossfararíkjanna í Landinu helga hélt reglan áfram starfsemi á eyjunni Ródos frá 1310 til 1523 og síðan Möltu frá 1530 til 1798. Her Napoléons lagði eyjuna undir sig og síðar náðu Bretar henni á sitt vald. Reglan var leyst upp. Samkvæmt Amiens-samningnum 1802 áttu Bretar að hleypa riddurunum aftur til eyjarinnar en höfnuðu því þegar til kom. Leifar reglunnar komu víða við á Ítalíu áður en hún settist endanlega að í Róm 1834 þar sem hún fékk stöðu erlends ríkis 1869.

Í dag eru félagar í reglunni um 13.000 talsins, auk 80.000 fastra sjálfboðaliða og 42.000 starfsmanna, þar á meðal lækna og hjúkrunarfólk sem starfar í 120 löndum. Reglan rekur alþjóðlegu hjálparstofnunina Malteser International.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]