Fara í innihald

Karl prins af Astúríu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Don Carlos. Málverk eftir Alonzo Sánchez Coello.

Karl prins af Astúríu (8. júlí 154524. júlí 1568) eða Don Carlos af Spáni var elsti sonur Filippusar 2. Spánarkonungs og fyrstu konu hans, Maríu Manúelu af Portúgal. Hann var líkamlega fatlaður og átti einnig við geðræna erfiðleika að stríða.

Foreldrar Karls voru náskyld, systkinabörn báðum megin, svo að hann átti aðeins tvo langafa og tvær langömmur og aðeins sex langa- langafa og ömmur á meðan flestir eiga 16 forfeður í þeim lið. Talið er að þessi mikla skyldleikaræktun, sem viðgekkst öldum saman meðal Habsborgara og þó einkum spænsku og portúgölsku konungsfjölskyldnanna, hafi verið orsök þeirrar fötlunar sem hann átti við að stríða en hann var vanskapaður bæði í andliti og á vöxt. Móðir hans dó skömmu eftir fæðingu hans, tæplega átján ára að aldri, og Karl óx upp við eftirlæti föður síns en fór að sýna merki um geðtruflanir á unglingsárum. Hann var hins vegar ágætlega greindur og áhugasamur um utanríkismál.

Árið 1559 var samið um trúlofun Karls og jafnöldru hans Elísabetar af Valois, elstu dóttur Hinriks 3. Frakkakonungs, en svo fór að hún giftist Filippusi föður hans í staðinn árið 1560. Ekkert bendir til þess að ástarsamband hafi verið milli Karls og Elísabetar en þau urðu góðir vinir og sýndu hvort öðru umhyggju. Ýmsar aðrar hugsanlegar brúðir voru til athugunar fyrir hinn unga prins, þar á meðal María Skotadrottning, Margrét af Valois, yngri systir Elísabetar og síðar drottning Frakklands, og Anna af Austurríki, sem seinna varð fjórða kona Filippusar 2.

Árið 1562 datt Karl niður stiga og meiddist illa á höfði. Borað var gat á höfuðkúpuna til að létta af þrýstingi á heilann og tókst að bjarga lífi prinsins en eftir aðgerðina versnaði skap hans og geðheilsa til muna og varð meðal annars mjög andsnúinn föður sínum. Svo fór að í janúar 1568 lét Filippus handtaka son sinn og setja hann í einangrun. Karl prins lést sex mánuðum síðar og var því haldið fram að Filippus hefði látið eitra fyrir hann en talið er líklegast að hann hafi verið haldinn átröskun og hafi svelt sig í hel. Elísabet stjúpmóðir hans dó af barnsförum nokkrum mánuðum síðar.

Sagan um Karl prins, Elísabetu af Valois og Filippus 2. hefur orðið kveikja að ýmsum bókmennta- og tónverkum og er þekktast þeirra óperan Don Carlos eftir Giuseppe Verdi.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]