Spænski rannsóknarrétturinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Spænski rannsóknarrétturinn eftir Francisco Goya frá 1812-19.

Spænski rannsóknarrétturinn var rannsóknarréttur stofnaður á Spáni árið 1478 af Ferdinand og Ísabellu með leyfi frá Sixtusi 4. páfa til að viðhalda kaþólskum rétttrúnaði í ríkjum þeirra. Hann átti sér rætur í ýmsum rannsóknarréttum sem stofnaðir höfðu verið af kirkjunni á miðöldum til að berjast gegn villutrú. Spænski rannsóknarrétturinn var undir beinni stjórn Spánarkonungs. Hann var ekki formlega lagður niður fyrr en árið 1834.

Rétturinn hafði aðeins lögsögu yfir kristnu fólki, en þar sem gyðingum og márum var vísað úr landi 1492 og 1502 náði lögsaga réttarins í reynd yfir alla íbúa Spánar. Tilgangurinn með stofnun rannsóknarréttarins var að styrkja konungshjónin í sessi og bæla niður pólitíska andstöðu. Ferdinand beitti Sixtus páfa þrýstingi með því að hóta að draga hersveitir sínar til baka í stríðinu gegn Tyrkjaveldi. Síðar reyndi Sixtus að banna rannsóknarréttinn en neyddist til að draga það til baka. Rannsóknarrétturinn var undir stjórn konungs en fylgdi kirkjurétti sem settur var af Vatíkaninu.

Á 16. öld fékkst rannsóknarrétturinn aðallega við baráttu gegn villutrú og varð á tímum gagnsiðbótarinnar tæki til að berjast gegn mótmælendum á öllum svæðum undir spænskri stjórn. Refsingar gátu verið allt frá fjársektum til aftöku með brennu. Yfirheyrslur voru nákvæmlega skrásettar og pyntingum var beitt til að knýja fram játningu. Áætlað er að um 2000 manns hafi verið líflátnir í kjölfar dóma rannsóknarréttarins. Rannsóknarrétturinn bar einnig ábyrgð á því að taka saman lista yfir bannaðar bækur og sjá um förgun þeirra. Rannsóknarrétturinn dæmdi fólk einnig fyrir hjátrú, galdra, samkynhneigð og (í upphafi 19. aldar) fyrir aðild að félögum frímúrara.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.