Fara í innihald

Eldgosin við Sundhnúksgíga 2023–2024

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eldgosin við Sundhnúksgíga er eldgosahrina sem hófst í desember 2023 við Sundhnúksgíga norðan Grindavíkur og austan Svartsengis eftir myndun kvikugangs í nóvember 2023. Nú hafa orðið sex sprungugos á kvikuganginum þar sem hraunrennsli er mest fyrstu klukkustundirnar þegar gýs á langri sprungu en gosin hafa svo dregist saman á fáein gosop sem hafa sum verið virk í margar vikur. Efnasamsetning gosefnis er ólík eftir gosum. [1]

Eldgosahrinan og jarðhræringar í aðdraganda hennar eru á meðal stærstu náttúruhamfara sem gengið hafa yfir á Íslandi. Grindavíkurbær var rýmdur þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember 2023 og þar hefur orðið verulegt eignatjón á fasteignum og innviðum, aðallega vegna sprunguhreyfinga. Hraun frá eldgosunum hefur runnið yfir vegi og lagnir og ráðist hefur verið í gerð mikilla varnargarða til að verja bæði Grindavíkurbæ og Svartsengisvirkjun.

Jarðsaga svæðisins

[breyta | breyta frumkóða]
Eldstöðvarkerfin á Reykjanesskaga. Svartsengiskerfið er merkt númer 2 á kortinu.

Eftir Reykjanesskaga endilöngum liggur rekbelti þar sem jarðskorpuflekar Evrasíu og Norður-Ameríku bæði reka í sundur og nuddast saman. Það rekbelti er í raun framhald Atlantshafshryggsins sem kemur á land við Reykjanes. Landrekinu fylgja jarðskjálftar og eldgos í eldstöðvarkerfum á skaganum en Svartsengiskerfið er eitt þeira. Landslag Reykjanesskaga er mjög mótað af eldvirkninni þar sem þau fjöll og stapar sem rísa á utanverðum skaganum mynduðust við eldgos undir jökli og víðáttumikil hraun þekja stóran hluta hans. Frá lokum ísaldar hefur eldvirkni á Reykjanesskaga gengið í bylgjum þar sem skiptast á gostímabil sem vara í tvær til þrjár aldir og goshlé sem vara í sex til átta aldir. Ef aðeins er horft er til eldstöðvarkerfanna utarlega á skaganum sem kennd eru við Svartsengi og Reykjanes hafa gosskeiðin þó staðið yfir í skemmri tíma og goshléin varað lengur.[2][3]

Síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga lauk eftir Reykjaneselda á fyrri hluta 13. aldar. Þá urðu mörg eldgos bæði á landi og í hafi úti fyrir Reykjanesi. Í þessari goshrinu runnu Arnarseturshraun, Illahraun og Eldvarpahraun frá eldstöðvum í Svartsengiskerfinu. Goshrinunni lauk 1240. Á næstsíðasta gosskeiðinu á svæðinu sem var fyrir um 2000 árum myndaðist Sundhnúksgígaröðin norðaustan við Grindavík og hraun frá eldgosum þar rann þá til sjávar við Grindavík.[2]

Aðdragandi goshrinunnar

[breyta | breyta frumkóða]
Lóðréttar hreyfingar á GPS-stöð Veðurstofu Íslands við Svartsengi frá upphafi 2020 til september 2024.

Eftir 780 ára goshlé á Reykjanesskaga greindust fyrstu óyggjandi merki um að kvika væri á hreyfingu á svæðinu 21. janúar 2020 þegar vart varð við skarpt landris á GPS-mælum Veðurstofu Íslands við fjallið Þorbjörn við Grindavík.[4] 26. janúar lýsti Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra yfir óvissuástandi vegna landrissins og hættu á að eldgos myndi hefjast á Svartsengissvæðinu og 27. janúar var haldinn almennur íbúafundur í Grindavík vegna möguleika á að landrisið myndi leiða til eldgoss.[5][6] Landrisið fjaraði út á næstu vikum en tók aftur kipp í mars og svo aftur í maí 2020.[4] 24. febrúar 2021 hófst svo kraftmikil jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall þar sem stærstu skjálftar náðu yfir 5 stiga styrk. Skjálftahrinan varð vegna myndunar kvikugangs undir Fagradalsfjalli en að kvöldi 19. mars 2021 hófst svo eldgos í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þar sem kvikugangurinn náði til yfirborðs. Það gos stóð í um sex mánuði. Annað eldgos hófst svo út frá sama kvikugangi við Meradali í ágúst 2022 og hið þriðja við Litla-Hrút í júlí 2023. Því gosi lauk í byrjun ágúst 2023 en fljótlega eftir goslok fór að bera á að því að land væri tekið að rísa aftur undir Fagradalsfjalli.[7] Á Svartsengissvæðinu var allt með kyrrum kjörum á meðan þessum atburðum við Fagradalsfjall stóð fyrir utan að kippur varð í landrisi við Svartsengi á milli fyrsta og annars eldgossins í maí 2022.[8]

Þrátt fyrir að Svartsengi og Fagradalsfjall séu iðulega talin sitt hvort eldstöðvarkerfið, eða Fagradalsfjall talið til eldstöðvarkerfis Krýsuvíkur, þá er talið ljóst að allar kvikuhreyfingar, innskot og eldgos á Reykjanesskaga frá 2020 séu hluti af sömu atburðarásinni þar sem kvika hefur safnast fyrir í djúpu kvikuhólfi og leitað þaðan bæði upp í lárétt kvikuinnskot (sillur) á Svartsengissvæðinu á um 4-5 kílómetra dýpi en einnig í lóðrétt innskot undir Fagradalsfjalli á 1-6 kílómetra dýpi sem hafi leitt af sér eldgosin 2021 til 2023. Það rennir stoðum undir þetta að efnasamsetning kvikunnar sem kom upp í Fagradalsfjallseldunum er áþekk þeirri sem komið hefur upp við Sundhnúksgíga og jarðskjálftasneiðmyndir benda einnig til þess að um 10 kílómetra breiða kvikugeymslu sé að finna undir Fagradalsfjalli á 9-12 kílómetra dýpi. Slík geymsla gæti rúmað um 50 rúmkílómetra af kvikubráð.[4][9]

Skjálftahrina og nýtt landris í október 2023

[breyta | breyta frumkóða]

Snemma morguns 25. október 2023 hófst öflug jarðskjálftahrina á svæðinu milli Þorbjarnar og Sundhnúks norðan Grindavíkur. Lýst var yfir óvissustigi almannavarna vegna skjálftahrinunnar.[10] Frá 25. október til 7. nóvember mældust tæplega 20 þúsund jarðskjálftar á þessum slóðum, þar af rúmlega 70 sem náðu 3 að stærð og sjö sem náðu 4 að stærð.[11] Landris hófst svo á nýjan leik við Þorbjörn 26. október. Þetta var í fimmta skiptið sem kvika tók að streyma inn í kvikuhólf á svæðinu en það gerðist þrisvar 2020 og einu sinni 2022. Innstreymið sem hófst í október 2023 mældist þó strax kraftmeira en í fyrri skiptin.[12] Kvikuhólfið var svonefnd silla, þ.e. lárétt kvikuinnskot sem myndast á milli jarðlaga í jarðskorpunni. Í fyrstu viku nóvember 2023 var innstreymi kviku inn í hólfið um 7,5 rúmmetrar á sekúndu sem var um fjórfalt meira en sést hafði í fyrri innskotum við Þorbjörn 2020 og 2022.[13] Sillan var þá talin vera um einn metri á þykkt og sex milljónir rúmmetra að rúmmáli.[14]

2. nóvember var haldinn íbúafundur í Grindavík þar sem kom fram í máli Kristínar Jónsdóttur, eldfjalla- og jarðskjálftafræðings hjá Veðurstofa Íslands, að um væri að ræða kraftmeiri atburð en þá sem áður höfðu sést á Reykjanesskaga. Hún sagði innstreymi kviku í silluna undir Svartsengi geta varað lengi án þess að það kæmi til eldgoss og að ef til þess kæmi þá væri það líklegast á svæði frá norðvestanverðum Þorbirni að Sýlingarfelli.[15] Athyglin beindist mikið að Svartsengisvirkjun og afleiðingum þess ef röskun yrði á starfsemi hennar í eldgosi, en virkjunin sér öllum byggðarlögum á Suðurnesjum fyrir heitu vatni auk þess sem allar tengingar rafmagns og neysluvatns til Grindavíkur fara þar í gegn. Þann 8. nóvember lagði sérstakur innviðahópur almannavarna fram tillögur að varnargörðum á Svartsengissvæðinu til að verja virkjunina og Bláa lónið fyrir mögulega hraunrennsli.[16]

Þrátt fyrir að Bláa lónið væri yfir miðju kvikuinnskotinu hélt starfsemi þar áfram en það sætti nokkurri gagnrýni. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði það óábyrgt að halda starfseminni áfram í ljósi aðstæðna en stjórnendur fyrirtækisins svöruðu því á móti að hættumat almannavarna hefði ekki breyst og því væri engin ástæða til að loka lóninu að svo stöddu. Aðfararnótt 9. nóvember gekk svo kröftug jarðskjálftahrina yfir svæðið með 22 skjálftum yfir 3 á stærð frá miðnætti til kl. 3 um nóttina.[17] Margir gestir á hóteli Bláa lónsins flúðu þá ástandið og um morguninn tilkynntu stjórnendur fyrirtækisins að lóninu yrði lokað í eina viku.[18][19] Þann 9. nóvember sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í viðtali að hann teldi rétt að rýma Grindavíkurbæ þegar í stað, að minnsta kosti að næturlagi.[20] Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, bað Grindvíkinga þó um að halda ró sinni og sagði að nægur fyrirvari yrði til rýmingar ef það liti út fyrir eldgos sem ógnaði byggð í Grindavík.[21]

Kvikuhlaupið 10. nóvember 2023

[breyta | breyta frumkóða]

Að morgni 10. nóvember 2023 um kl. 7:20 hófst skjálftahrina sem afmörkuð var við Sundhnúksgíga austur af Sýlingarfelli. Um morguninn og framan af degi voru skjálftarnir þar flestir smáir en nokkrir náðu þó 3 að stærð, flestir í kringum hádegi, og einn mældist 4,3 að stærð kl. 12:44.[17] Í tilkynningu Veðurstofu kl. 13:00 kom fram að skjálftarnir gætu tengst kvikuhreyfingum á miklu dýpi.[22]

18.-21. desember 2023

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd af gosinu í desember 2023.

Þann 18. desember um kl. 22:17 hófst eldgos við Sundhnúksgíga, austan við Svartsengi og norðan við Grindavík.

Tæpum 5 vikum áður var Grindavík rýmd vegna jarðskjálftahrinu sem hafði staðið frá því í október. Nokkrar skemmdir urðu á bænum og stórar sprungur aflöguðu hús og vegi og slitu lagnir. Talið var að kvikugangur væri undir bænum. Gangurinn teygði sig suðvestur/norðaustur um 15 kílómetra og náði út í sjó og norður yfir Sýlingafell.[23]

Ljóst var að gosið var stærst af þeim atburðum Fagradalsfjallselda frá 2021. Sprungan sem opnaðist var allt að 4 kílómetrar. Hraun vall í norðaustur og eftir sólarhring minnkaði sprungan í afmarkaðri virk svæði eða í tvo gíga. Þann 21. desember sást engin virkni í gígunum.[24] Hraunið breiddi úr sér 3,5 ferkílómetra.

Gosið 14. janúar.

14.-16. janúar 2024

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 14. janúar 2024 rétt fyrir klukkan 8 um morguninn opnaðist ný sprunga nálægt Hagafell,[25] og önnur minni innan varnargarða, alveg upp við byggðina í Grindavík. Hraunrennslið eyðilagði hið minnsta þrjú hús í bænum. Rafmagnslaust og heitavatnslaust varð í bænum. Gosvirkni varði ekki lengi og var engin virkni sjáanleg um klukkan eitt eftir miðnætti 16. janúar.

8.-9. febrúar 2024

[breyta | breyta frumkóða]
Eldgosið 8. febrúar.

Um 30 mínútum eftir smáskjálftavirkni norðaustan við Sýlingarfell kl. 5:30, hófst eldgos á sömu slóðum þann 8. febrúar.

Gosið var á sömu slóðum og gaus 18. desember og var sprungan um 3 km löng, frá Sundhnúk í suðri til austurenda Stóra-Skógfells. Gosstrókarnir náðu um 50-80 m hæð og gosmökkurinn upp í um 3 km hæð. [26]

Eldgosið rauf Grindavíkurveg og hitaveitulögn sem þjónaði Suðurnesjum. Það breyttist tímabundið í lítið sprengigos þar sem það komst í grunnvatn.[27] Líkt og með síðustu gos á sömu slóðum minnkaði kraftur gossins þegar leið á fyrsta dag þess.

Þann 9. febrúar sást engin virkni í eftirstandandi gígum. [28]

16. mars-8. maí 2024

[breyta | breyta frumkóða]

Klukkan 20:23 þann 16. mars hófst gos milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Sprungan var 3,5 kílómetra löng og rann hraun til vesturs og suður til Suðurstrandavegs. Varnargarðar beindu hrauninu frá Grindavík.

Á fimmta degi gossins hafði virknin einangrast í 7-8 gígum. [29] en í lok mars var einungis virkni í tveimur gígum. Hraunið fyllti Melhólsnámu þar sem sótt hafði verið efni í varnargarða. [30] Í byrjun apríl var virkni í einum gíg sem fjaraði út í byrjun maí.

29. maí-22. júní

[breyta | breyta frumkóða]

Eldgos hófst norðaustan við Sýlingarfell þegar 1-2 kílómetra sprunga opnaðist og varð um 3,5 km löng. Gosið var talið það stærsta í hrinunni. Það minnkaði eftir fyrstu tímanna og rennsli hrauns sem rann aðallega suður hægðist. [31] Þann 4. júní minnkaði virknin verulega og virkni fór úr tveimur gígum í einn. [32] Í gosinu eyðilögðust rafmagnsmöstur og fór rafmagn af bænum. Einnig fór hraun yfir Grindavíkurveg og Nesveg. [33]

Þann 22. júní sást engin virkni í gígnum. Dögunum áður hafði vatni verið sprautað á hrauntauma sem brutust yfir varnargarða kílómetra frá Svartsengi.

22. ágúst-5. september

[breyta | breyta frumkóða]

Eldgos hófst 22. ágúst klukkan 21:26. Sprungur teygðu sig í 7 kílómetra fyrstu klukkutímana, þó gaus ekki samtímis á allri þeirri vegalengd. [34] Um 1.300 manns voru í Bláa lóninu þegar gosið hófst og var það rýmt. [35]

Gosið var á svipuðum slóðum og áður en náði þó örlítið norðar, að lokum urðu gígar einungis virkir hjá Stóra-Skógfelli. Hraunrennsli fór aðallega norður. Gosið var metið stærsta í goshrinunni. [36] Flatarmál hraunsins var 15 ferkílómetrar í lok ágúst 2024.[37] Engin virkni sást 5. september. [38]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ólíkt hraun gerir erfiðara að spá fyrir um næstu gos Rúv, 26/9 2024
  2. 2,0 2,1 „Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga – isor.is“. Sótt 19. september 2024.
  3. „Hvað getið þið sagt mér um eldvirkni á Reykjanesskaga?“. Vísindavefurinn. Sótt 19. september 2024.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Volcano-tectonic activity on the Reykjanes Peninsula since 2019: Overview and associated hazards | Reykjanes peninsula“. Icelandic Meteorological office (enska). Sótt 19. september 2024.
  5. „Óvissustig á Reykjanesi“. Morgunblaðið. 27. janúar 2020. bls. 1. Sótt 19. september 2024.
  6. „Vaka til að Grindvíkingar geti sofið“. Fréttablaðið. 28. janúar 2020. Sótt 20. september 2024.
  7. „Líkur hafa aukist á að nýr kvikugangur myndist undir Fagradalsfjalli“. Veðurstofa Íslands. 13. október 2023. Sótt 24. september 2024.
  8. „Þorbjörn rís og staðan gæti þróast í frekari innskotavirkni eða eldgos“. Víkurfréttir. 18. maí 2022. bls. 12. Sótt 20. september 2024.
  9. „Reykjanesgosbeltið vaknað af um 800 ára blundi“. Háskóli Íslands. Sótt 24. september 2024.
  10. Ísleifsson, Atli (25. október 2023). „Lýsa yfir ó­vissu­stigi vegna jarð­hræringa á Reykja­nes­skaga - Vísir“. visir.is. Sótt 27. september 2024.
  11. „Vikulegt jarðskjálftayfirlit | Vikuyfirlit“. Veðurstofa Íslands. Sótt 27. september 2024.
  12. Karlsson, Ari Páll (28. október 2023). „Landris mælist nærri Bláa lóninu - RÚV.is“. RÚV. Sótt 27. september 2024.
  13. „Vísbendingar um aukinn hraða á þenslu“. www.mbl.is. Sótt 27. september 2024.
  14. „Metri að þykkt og sex milljón rúmmetra stór“. www.mbl.is. Sótt 27. september 2024.
  15. „Kröftugri atburður en við höfum áður séð á þessu svæði“. www.vf.is. Sótt 28. september 2024.
  16. Ingvarsdóttir, Ásrún Brynja (8. nóvember 2023). „Varnargarðar við Svartsengi teiknaðir upp - RÚV.is“. RÚV. Sótt 28. september 2024.
  17. 17,0 17,1 Upplýsingar af Skjálfta-Lísu, sóttar 6. október 2024.
  18. „Sækja óttaslegna gesti á hótelið við Bláa lónið“. www.vf.is. 9. nóvember 2024. Sótt 6. október 2024.
  19. „Búið að loka Bláa lóninu – Verður lokað í eina viku“. Heimildin. 9. nóvember 2023. Sótt 6. október 2024.
  20. Rafn Ágúst Ragnarsson (9. nóvember 2023). „Telur að Grind­víkingar ættu að sofa annars staðar en heima hjá sér - Vísir“. visir.is. Sótt 6. október 2024.
  21. Sólrún Dögg Jósefsdóttir (9. nóvember 2023). „„Í­búar í Grinda­vík geta verið ró­legir" - Vísir“. visir.is. Sótt 6. október 2024.
  22. „Jarðhræringar Grindavík : okt - nov 2023 | Jarðhræringar Gríndavík eldri færslur“. Veðurstofa Íslands. Sótt 6. október 2024.
  23. Þróun kvikugangs undir Grindavík Rúv, sótt 20/12 2023
  24. Gosinu við Sundhnúksgíga lokið Vísir, sótt 21/12
  25. Eldgos er hafið Vísir.is, 14/1 2024
  26. Eldgos hafið norðaustan við Sýlingarfell Veðurstofan 8. febrúar, 2024
  27. Ísleifsson, Hólmfríður Gísladóttir,Margrét Björk Jónsdóttir,Lovísa Arnardóttir,Atli (2. ágúst 2024). „Vaktin: Hraunið hefur náð Grinda­víkur­vegi - Vísir“. visir.is. Sótt 8. febrúar 2024.
  28. Engin merki um gosvirkni Vísir, 9/2 2024
  29. Töluverð kvikustrókavirkni enn í gangi Vísir, sótt 21/3 2024
  30. Slokknað í í syðsta og minnsta gígnum... Vísir, 31/3 2024
  31. Greinilega stærsta gosið í þessari hrinu RÚV, sótt 30. maí 2024
  32. Virðist hafa dregið verulega úr krafti gossins Vísir 4. júní, 2024
  33. 6 days to build temporary power link to Grindavík Rúv English, 5. júní, 2024
  34. Hefur gosið á 7 km langri gosrás Rúv, sótt 23/8 2024
  35. [https://www.visir.is/g/20242611291d/um-1.300-manns-i-og-vid-blaa-lonid-thegar-gosid-hofst Um 1.300 manns í og við Bláa lónið þegar gosið hófst] Vísir.is, sótt 24/8 2024
  36. Stærsta gosið til þessa Vísir, 24/8 2024
  37. Jarðhræringar í Grindavík Veðurstofan 26/8 2024
  38. Enga virkni að sjá í gígnum Rúv 5/6 2024