Fara í innihald

Arnarseturshraun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Arnarseturshraun er hraun á vesturhluta Reykjanesskaga norður af Grindavík og er kennt við einn af gíghólunum sem það er runnið frá og heitir Arnarsetur. Hraunið er með yngstu hraunum á Reykjanesskaga en það kom upp í svokölluðum Reykjaneseldum á árabilinu 1210-1240. Arnarseturshraun og Illahraun við Svartsengi eru talin jafngömul og runnin frá sömu gossprungu og eru því í raun hlutar af sama hrauni. Það er basalt af gerðinni þóleiít. Furðu litlum sögum fer af eldgosinu í annálum og öðrum rituðum heimildum. Gjóskulög gefa vísbendingu um aldur þess. Það er yngra en Miðaldalagið svokallaða, en það féll yfir svæðið árið 1226 samhliða gosi í sjó við Reykjanestá. Arnarseturshraun rann þar af leiðandi á árabilinu 1226-1240. Arnarseturshraun er að mestum hluta komið upp í alllangri gígaröð sem liggur um 500 metra austan Grindavíkurvegar á móts við Stóra Skógfell. Í upphafi gossins hefur gígaröðin verið mun lengri eða a.m.k. um tveir kílómetrar. Um 1 kílómetra norðaustur af aðalgígunum sést hluti af gígaröðinni sem var virk í gosbyrjun. Hún er slitrótt en um 500 metra löng. Virknin þar hefur dvínað fljótlega og gosið dregist saman á um 400 m langa gossprungu. Frá henni er allt meginhraunið runnið en aðrir hlutar gígaraðarinnar hafa færst í kaf. Hraunið er 22 ferkílómetrar að flatarmáli, þykkt og kargakennt.

  • Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, Orkustofnun OS JHD7831. 303 bls. og kortamappa.
  • Jón Jónsson 1983. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn 52: 127-139.
  • Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson 2013. Reykjanesskagi. Í Júlíus Sólnes [ritstj.) Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og Jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan. Bls 379-401.
  • Kristján Sæmundsson, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Magnús Á. Sigurgeirsson og Sigurður Garðar Kristinsson 2010. Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1<:100.000. Íslenskar Orkurannsóknir.