Eldgosið við Fagradalsfjall 2021
Eldgos við Fagradalsfjall hófst þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti.[1] Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir). Eldgosið var flokkað sem dyngjugos en slík gos eru fátíð. Kvikan var frumstæð og kom úr 17-20 kílómetra dýpi.[2] Tegund hraunsins er helluhraun og apalhraun. Fleiri gígar opnuðust á upphafsvikum gossins en þegar á leið einangraðist virknin við einn gíg. Hundruð þúsunda skoðuðu gosið. Eldgosið jók virkni sína eftir því sem á leið sem er óvanalegt.[3] Nýr fasi hófst í gosinu snemma í júlí 2021 þegar órói lækkaði eða hætti skyndilega og hófst svo að nýju hægt og bítandi. Hraunið flæddi upp úr gígnum í reglubundnum takti með pásum í nokkra mánuði þar til það hætti.[4]
Nær 800 ár voru síðan gaus síðast á Reykjanesskaga þegar Reykjaneseldar geisuðu.[5] Og 6000 ár eru síðan gaus í Fagradalsfjalli. Þá rann Beinavörðuhraun.
Frá 18. september hætti hraunflæði frá gígnum. Gosið stóð í um hálft ár og er 4. lengsta gosið á 20. og 21. öld.[6] Settar voru upp vefmyndavélar af helstu miðlum og gat fólk fylgst með gosinu allan sólarhringinn.
Þróun[breyta | breyta frumkóða]
Sprunga var metin í byrjun um 200 metrar á lengd þegar þyrla Landhelgisgæslunnar náði fyrstu myndum en síðar 500 metrar. Þann 20. mars mat svo Páll Einarsson sprunguna sem 200 metrar en ofmat var á stærð hennar. Syðri endi tungunnar var nokkra km frá Suðurstrandarvegi. Hrauntungur runnu í suðsuðvestur og vestur í Geldingadali. Geldingadalir eru lokaðir og hraunstreymið varð að fylla dalinn til að komast áleiðis. Upphafi gossins er líkt við Fimmvörðuhálsgosið.[7] Krísuvíkurvegi og Fagradalsvegi var lokað. Degi fyrir gosið var búið að loka Suðurstrandarvegi vegna skemmda sem urðu á veginum í kjölfar jarðskjálftahrinunnar.[8] Mengunarviðvörun var send til Árnessýslu þar sem vindáttin liggur í austur frá gosstaðnum, í átt að Hveragerði.[9]
Nokkurn fjölda fólks dreif að og voru sumir vanbúnir, í slæmu skyggni[10] og þurftu björgunarsveitir að bjarga týndu og hröktu fólki. Sumir fóru fullnálægt gígnum en tilmæli voru um. Þann 21. mars var brekka upp að gígnum lokuð. En Almannavarnir og löggæsla bentu á að hrunið gæti úr gígnum og nýjar sprungur gætu opnast.[11] Varað var við að hættulegt gas gæti safnast saman í lægðum í stilltu veðri.
Fólk gekk frá Svartsengi þar sem Suðurstrandarvegur var lokaður vegna viðgerða sökum skjálftanna. En ákveðið var að stika leið frá Suðurstrandarvegi þar sem það var öruggara og styttra.[12]
- 21. mars: Hraunið var metið 0,15 ferkílómetrar (Magnús Tumi Guðmundsson).[13]
- 22. mars: Almannavarnir lokuðu svæðinu við eldgosið vegna gasmengunar.
- 24. mars: Tveir aðalgígar gjósa og eru samvaxnir. Hraunið fyllir nánast dalinn. Ferðamenn flykkjast á staðinn.
- 26. mars: Allt að tíu milljónir króna framlag var ákveðið af ríkinu til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða gosstöðvarnar.[14]
- 27. mars: Lokað var eftir hádegi vegna versnandi veðurs. Fylgst var með ferðamönnum með tilliti til sóttkvíarbrota.[15]
- 28. mars: Hraunið þekur Geldingadalina. Vegagerðin býr til bílastæði þar sem gönguleiðin við Suðurstrandarveg byrjar.[16]
- 31. mars: Flúormengun mælist í regnvatni við eldstöðvarnar.[17] Ákveðið var að hafa opið frá 6-18 og rýma kl. 22 á svæðinu um páskana.[18] Þekja hraunsins var um 0,3 ferkílómetrar.
- 2. apríl: Vart varð við fyrstu gjósku gossins eða ljósleitan vikur. Nornahár fannst einnig.
- 5. apríl: Nýjar sprungur opnuðust, 100-200 metrar að lengd, hálfum kílómetra norðaustan við gígana sem fyrir voru. Hraunelfur tók að renna niður í Meradali. Yfir 500 manns voru á gosstöðvunum og var svæðið rýmt. Virkni gíganna í Geldingadölum minnkaði og var talið að nýju sprungurnar væru hluti af sama kvikuinnskoti.[19]
- 7. apríl: Ný sprunga, um 150 metra löng, opnast á milli hinna tveggja og rennur hraun í Geldingadali.[20]
- 8. apríl: Flatarmál hrauns er 0,62 ferkílómetrar samkvæmt Jarðvísindastofnun og hefur hraunflæði aukist með nýjum gígum.
- 10. apríl: Fjórða sprungan opnaðist milli tveggja nýjustu. Svæði var afmarkað sem hættusvæði á gosstöðvunum þar sem líklegast er að sprungur opnist.[21]
- 13. apríl: Enn fleiri sprungur eða gígar opnast og rennur hraunið í suðurátt frá þeim.[22]
- 16. apríl: Hraun tekur að renna austur úr Geldingadölum[23] Um fjórðungur landsmanna gerði sér ferð að gosinu, um 90 þúsund manns.[24]
- 19. apríl: Nyrsti gígurinn sem var öflugur rétt eftir páska er kulnaður.[25] Hraunið þekur alls tæpa 0,9 ferkílómetra.
- 27. apríl: Flatarmál hrauns er 1,13 ferkílómetrar. Virkni mest í syðsta gígnum þar sem strókarnir ná allt að 50 metrum. Virkni í elstu samliggjandi gígunum nær engin.
- 4. maí: Virknin í þessum eina gíg gengur með hléum og er kröftug inn á milli. Hraun hefur þeyst meira en 200 metra í loft. Rignt hefur gjósku og eru hættur á hraunbombum. Hættusvæði var endurskilgreint.
- 10. maí: Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Hæstu strókar hafa náð um 460 metra sem er hærra en Empire State-byggingin.
- 11 maí: Hraunrennsli er tvöfalt öflugra en það hefur alla jafnan verið. Flatarmál er 1,8 ferkílómetrar (á við Elliðavatn) og hefur hraun fyllt Syðri-Meradal ( þó kallaður Nafnlausi dalurinn af sumum) suðaustur af gígnum.
- 14. maí: Hafist var handa að reisa varnargarða norður af Nátthaga til að hindra flæði hrauns niður dal í átt að Suðurstrandarvegi.
- 22. maí: Hraunið fór yfir eystri varnargarðanna og tók að flæða niður að Nátthaga.
- 1. júní: Hrauntungur ógna útsýnishólnum sem er nálægt gígnum og vestari varnargarðinum.
- 4. júní: Hraunrennsli lokar fyrir Gónhól og vestari varnargarðar rofna. Stærð hraunsins er nær 3 ferkílómetrar.
- 10. júní: Virkni gossins hefur breyst. Í stað reglulegra gosstróka fossar stöðugt úr gígnum.
- 13. júní: Hrauntaumur rennur frá Geldingadölum og niður í Nátthaga og rýfur þar með gönguleið A.
- 18. júní: Hraun fyllir Nátthaga og nálgast haft suðvestan við hann. Hraunið nálgast Suðurstrandarveg. Ákveðið er að byggja ekki varnargarða til að vernda veginn.[26]
- 26. júní: Varnargarður er byggður við suðvesturenda Nátthaga. Bandarískur ferðamaður týndist við gosstöðvarnar og sást síðast norður af Stóra Hrúti. Hann fannst meira en sólarhring seinna og hafði slasast og týnst. Gönguleið C meðfram Langahrygg er orðin aðalleiðin til að sjá gíginn.
- 7. júlí: Í byrjun júlí minnkaði virkni í gígnum og tók hann löng hlé. 7. júlí hafði verið hlé í nær 2 sólarhringa en loks sást í glóð í gígnum þó kvika ylli ekki upp úr honum.[27]
- 23. júlí: Gosið hefur runnið í Meradali síðustu 3 vikur. Hraunflæði hefur minnkað og telur Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur að gosið sé að fjara út á næstu vikum eða 2 mánuðum.[28] Hraunið þekur 4 ferkílómetra.
- 16. ágúst: Nýr gígur opnast tímabundið við hliðina á aðalgígnum.[29]
- 5. september: Rýkur úr gígnum en sést ekki í kviku. Gosið er í næstlengsta hléi frá upphafi.[30]
- 11. september: Gosið heldur áfram en gosrás gígsins hafði verið stífluð. Hraun flæðir utan í gígnum eða í göngum.
- 15. september: Hraun tekur að flæða niður í Nátthaga úr mismunandi áttum úr hrauntjörn í Geldingadölum þar sem er yfirflæði. Svæðið á gönguleið A var rýmt og lokað tímabundið.[31] Eldgosið er 6 mánaða og er gígurinn orðinn 334 metra hár.
- 14. október: Ekki hefur gosið í rúman mánuð eða frá 18. september. Rýkur þó úr gígnum. Flatarmál hrauns er tæpir 5 ferkílómetrar.
- 18. desember: Gosinu er formlega lokið, 3 mánuðum eftir síðasta hraunflæði. Enn er þó vart við þenslu og kvikusöfnun neðanjarðar.[32]
Eldgos við Meradali 2022[breyta | breyta frumkóða]
Tæpu ári eftir að gosinu í Fagradalsfjalli lauk opnaðist sprunga við norðanverða Meradali við hraunjaðar gossins 2021.
Myndagallerí[breyta | breyta frumkóða]
30. mars
17. maí. Mynd frá föruneyti Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Varnargarðarnir vestri. Lítil spýja hefur komist yfir. Stóri-Hrútur í bakgrunni og þyrlur þar efst.
Hrauntjörn í Geldingadölum 12. september 2021
Loftmyndir frá NASA.
Tenglar[breyta | breyta frumkóða]
- „Hversu stórt var gosið í Geldingadölum?“ á Vísindavefnum
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ Bjarni Rúnarsson (19. mars 2021). „Eldgos hafið við Fagradalsfjall“. RÚV. Sótt 19. mars 2021.
- ↑ Sunna Kristín Hilmarsdóttir (23. mars 2021). „Frumstæðasta kvika sem komið hefur upp í 7000 ár“. Vísir. Sótt 23. mars 2021.
- ↑ Freyr Gígja Gunnarsson (11. maí 2021). „„Öðruvísi gos en við erum vön að sjá"“. RÚV. Sótt 11. maí 2021.
- ↑ Ingunn Lára Kristjánsdóttir (5. júlí 2021). „Nýr fasi hafinn í gosinu“. www.frettabladid.is . Afrit af upprunalegu geymt þann 29. desember 2021. Sótt 28. desember 2021.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (20. mars 2021). „Síðasta gostímabil á Reykjanesskaga varði í nær 300 ár“. RÚV. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ „Fjórða lengsta eldgos 20. og 21. aldar“. mbl.is. 16. október 2021. Sótt 22. október 2021.
- ↑ Róbert Jóhannsson (20. mars 2021). „Páll segir gosið ræfilslegt“ . RÚV. Sótt 18. ágúst 2022.
- ↑ „Suðurstrandarvegi lokað í kvöld og nótt“ . Vegagerðin. 18. mars 2021. Sótt 18. ágúst 2022.
- ↑ Freyr Gígja Gunnarsson (20. mars 2021). „Sögulegt gos á Reykjanesskaga - þetta gerðist í kvöld“ . RÚV. Sótt 18. ágúst 2022.
- ↑ Elín Margrét Böðvarsdóttir (21. mars 2021). „Á göngu í níu klukkustundir án þess að komast að gosinu: „Strákurinn minn var orðinn virkilega hræddur og var að örmagnast"“. Vísir. Sótt 21. mars 2021.
- ↑ Bjarni Rúnarsson (21. mars 2021). „Loka svæðinu næst gossprungunni“. RÚV. Sótt 21. mars 2021.
- ↑ Valgerður Árnadóttir; Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir (22. mars 2021). „Stika gönguleið að gosinu í dag“. RÚV. Sótt 22. mars 2021.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (21. mars 2021). „Telur hraunið þekja um 0,15 ferkílómetra“. RÚV. Sótt 22. mars 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (2021). „Tíu milljónum varið til að bæta aðstöðu við gosið“. RÚV. Sótt 26. mars 2021.
- ↑ Brynjólfur Þór Guðmundsson (27. mars 2021). „Loka kl. 13 og fylgjast með erlendum ferðamönnum“. RÚV. Sótt 27. mars 2021.
- ↑ Brynjólfur Þór Bjarnason (28. mars 2021). „Hraunið búið að fylla dalsbotninn“. RÚV. Sótt 28. mars 2021.
- ↑ Sunna Valgerðardóttir (31. mars 2021). „Töluverð flúormengun í regnvatni við gosstöðvarnar“. RÚV. Sótt 31. mars.
- ↑ Hildur Margrét Jóhanssdóttir (31. mars 2021). „Gossvæðið opið 6-18 og rýmt kl 22“. RÚV.
- ↑ Hildur Margrét Jóhannssdóttir (5. apríl 2021). „Ný sprunga opnaðist – Rýma gossvæðið“. RÚV. Sótt 5. apríl 2021.
- ↑ „Tvöfalt meiri kvika vellur upp“. mbl.is. 7. apríl 2021. Sótt 7. apríl 2021.
- ↑ Róbert Jóhannsson (10. apríl 2021). „Ný sprunga opnaðist í Geldingadölum í nótt“. RÚV. Sótt 10. apríl 2021.
- ↑ Ingvar Þór Björnsson (13. apríl). „Telja fjóra nýja gíga hafa opnast“. RÚV. Sótt 13. apríl 2021.
- ↑ Bjarni Rúnarsson (2021). „Hraun tekið að renna úr Geldingadölum í austur“. RÚV. Sótt 16. apríl.
- ↑ Magnús Geir Eyjólfsson (16. apríl 2021). „Áhuginn á eldgosinu ekkert að minnka“. RÚV. Sótt 16. apríl 2021.
- ↑ Bjarni Rúnarsson (19. apríl 2021). „Hætt að gjósa úr nyrsta gígnum“. RÚV. Sótt 19. apríl 2021.
- ↑ Kristín Sigurðardóttir (18. júní 2021). „Ekki reynt að stöðva hraunrennsli yfir Suðurstrandarveg“. RÚV. Sótt 18. júní 2021.
- ↑ Andri Yrkill Valsson; Höskuldur Kári Schram (8. júlí 2021). „Sveiflur í gosvirkni en stöðugt hraunflæði úr gígnum“. RÚV. Sótt 8. júlí 2021.
- ↑ Andri Magnús Eysteinsson (23. ágúst 2021). „Framboð kviku að minnka og líklegt að gosið fjari út“. RÚV. Sótt 23. júlí 2021.
- ↑ Kristín Sigurðardóttir (17. ágúst 2021). „Nýr gígur á Fagradalsfjalli“. RÚV. Sótt 17. ágúst 2021.
- ↑ Sunna Valgerðardóttir (5. september). „Eldgosið að taka sér lengsta frí frá upphafi“. RÚV. Sótt september 2021.
- ↑ Atli Ísleifsson; Birgir Olgeirsson (september 2021). „Rýma svæðið eftir að hraunstraumur fór óvænt að renna hratt í Nátthaga“. Vísir. Sótt september 2021.
- ↑ Bjarni Rúnarsson (18. desember 2021). „Gosinu lokið en áfram kvikusöfnun við Fagradalsfjall“. RÚV. Sótt 18. desember 2021.
Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]
Tenglar[breyta | breyta frumkóða]
- Vedur.is - Eldgosið í Fagradalsfjalli ólíkt fyrri gosum í heiminum
- Jarðvísindastofnun - Eldgos í Geldingadölum Geymt 2021-04-07 í Wayback Machine
- Staðsetning á korti
- Views Of The World - Where the lava flows: Volcano update from Iceland