Dordrecht

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Upplýsingar
Hérað: Suður-Holland
Flatarmál: 99,45 km²
Mannfjöldi: 118.730 (1. janúar 2014)
Þéttleiki byggðar: 1.194/km²
Vefsíða: www.dordrecht.nl
Lega
Staðsetning Eindhoven í Hollandi

Dordrecht er borg í Hollandi. Hún er með 118 þúsund íbúa og er staðsett í héraðinu Suður-Holland. Dordrecht státar sig af því að vera elsta borgin í Hollandi.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Dordrecht liggur vestarlega í Hollandi, um 40 km fyrir norðan belgísku landamærin. Borgin er við Rínararminn Benede-Merwede og við Oude Maas (Gamla Maas). Auk þess liggur áin Dordtse Kil við vesturjaðar borgarinnar og skipaskurðurinn Kanal Nord við austurjaðar hennar. Næstu borgir eru Rotterdam til norðvesturs (15 km), Breda til suðurs (30 km) og Hertogenbosch til austurs (65 km). Í Dordrecht er stór höfn við Dordtse Kil, þrátt fyrir að vera aðeins steinsnar frá Rotterdam þar sem stærsta höfn Evrópu liggur.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Upprunalegt heiti borgarinnar er Thuredrith, en það merkir vaðið í gegnum ána Thure. Thure er löngu horfin núna. Úr Thure varð Dor með tímanum. Drith varð að –drecht. Ýmsir bæir í Hollandi enda á –drecht. Íbúar borgarinnar nefna hana gjarnan bara Dordt.

Saga Dordrecht[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Dordrecht 1652. Árnar Maas (Maes) og Merwede (Merwe) eru merktar inn á myndina.

Dordrecht kom fyrst við skjöl 1120 í árbókinni Egmondse Annalen. Árið 1220 hafði bærinn stækkað svo að Vilhjálmur I greifi af Holland veitti honum borgarréttindi. Þar með er Dordrecht annar hollenski bærinn til að hljóta þau réttindi, á eftir Geertruidenberg, sem í dag er ekki borg lengur. Því er Dordrecht elsta núverandi borg Hollands. Borgin var mikilvæg verslunarborg, enda með mikilvæga höfn. Verslað var með vín, timbur og korn. 1253 var latínuskóli stofnaður í borginni. Hann er enn til í dag (Johan de Witt gymnasium) og er elsti framhaldsskóli Hollands í dag. Árið 1421 varð Dordrecht illa úti í öðru Elísabetarflóðinu, sem var stormflóð mikið við strendur Norðursjávar. Varnargarðar brustu og fóru 72 þorp á kaf í vatn. Allt að 10 þús manns biðu bana. Flóðið reif mikil landsvæði við Dordrecht sundur, þannig að borgin stóð eftir á eyju. Við flóðið breyttist bakland borgarinnar talsvert. Til dæmis myndaðist fenjasvæðið de Biesbosch, sem í dag er þjóðgarður.

80 ára stríðið[breyta | breyta frumkóða]

Kirkjuþingið í Dordrecht 1618-19

15./16. júlí 1572 hittust fulltrúar flestra borga á Niðurlöndum í Dordrecht til að skipuleggja uppreisnina gegn spænsku yfirstjórninni. Fulltrúarnir hittust í gamla klaustrinu Het Hof. Þar kusu þeir Vilhjálm af Óraníu sem foringja uppreisnarinnar og lýstu yfir sjálfstæði frá Spáni. Þetta breytti uppreisn Hollendinga gegn Spánverjum í sjálfstæðisstríð. Samtímis var gefin út yfirlýsing um stjórnarhætti sem túlka má sem fyrsta mannréttindaskjal Hollands. 1618-19 fór annar mikilvægur fundur fram í Dordrecht. Hann kallast Synode van Dordrecht (kirkjuþingið í Dordrecht) og snerist hann um trúmál. Þar hittust fulltrúar kalvínista og reformeruðu kirkjunnar. Trúarleiðtogum frá Englandi, Skotlandi, Þýskalandi og Sviss var boðið á ráðstefnuna. Engum kaþólikka var hins vegar boðið. Rætt var um ýmsar kenningar mótmælenda en einnig um fyrstu hollensku Biblíuþýðinguna. Önnur trúarráðstefna fór fram í Dordrecht á þessum árum er hollenskir mennonítar funduðu 1632 og bjuggu til nýja trúarjátningu. Mennónítar dreifðust á þessum árum víða um Evrópu og Ameríku.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum 1780-87 var Dordrecht miðstöð lýðveldissinna sem stóðu að því að uppræta landstjóraembættið í landinu, þar sem landið var jú lýðveldi. Þetta endaði með því að landstjórinn Vilhjálmur V af Óraníu –Nassau ættinni flúði land. En tengdabróðir hans, Friðrik Vilhjálmur II Prússakonungur, réðist inn í landið og sat um Dordrecht. Þann 18. september 1787 féll borgin og voru leiðtogar lýðveldisinna handteknir. Í framhaldi minnkaði borgin að vægi fyrir Rotterdam, sem sífellt stækkaði hafnaraðstöðu sína. Þrátt fyrir það var mikilvæg herstöð í Dordrecht allt fram á tíma heimstyrjaldarinnar síðari. Mikil skipasmíði var í höfninni í Dordrecht. Árið 1865 var stærsta orrustuskip sögunnar úr timbri smíðað í borginni. Það var japanska herskipið Kaiyo Maru. Það gekk bæði fyrir gufu og seglum. Skipið var þó bara tvö ár í siglingum áður en það sökk í stormi við Japan. Þann 10. maí 1940 var Dordrecht hertekin af nasistum. Borgin var milli elda milli bandamanna og Þjóðverja veturinn 1944-45 en var loks frelsuð af kanadískri hersveit.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Dordt in Stoom (Gufa í Dordrecht) er þriggja daga hátíð í maí í miðborg Dordrecht. Á hátíðinni snýst allt um gufuvélar en þangað koma gufuskip og gufujárnbrautarlestir. Einnig má finnar gamlar gufuhringekjur, gufubifreiðar og ýmislegt annað. Hátíðin er haldin annað hvert ár, á sléttri ártölu, og er stærsta hátíð Evrópu sem snýst um gufu.

Wantijfestival er tónlistarhátíð sem haldin hefur verið árlega síðan 1995. Hún er haldin í Wantij-garðinum (þaðan er heitið komið) og er popptónlistin viðamest. Einnig má sjá þar útileikhús, dans og ýmsa loftfimleika.

Alþjóðleg brúðuhátíð hefur verið haldin síðan 2006. Það troða upp brúðuleikarar frá ýmsum löndum á mörgum sviðum í borginni.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Dordrecht viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Grote Kerk er með ófullgerða turna
  • Grote Kerk (Stóra kirkja) er aðalkirkjan í miðborginni. Elsti hluti hennar er kórinn (Maríukór), sem reistur var 1285. Kirkjan sjálf var í smíðum tveimur öldum seinna. Hún brann 1457 og skemmdist talsvert við það. 1470 hlaut hún núverandi mynd. Turnarnir voru ókláraðir og stóðu eftir sem stubbar. Við siðaskiptin 1572 voru kaþólikkar reknir úr kirkjunni, sem við það varð eign siðaskiptamanna. Klukkurnar á turninum eru síðari tíma viðbætur, en enn sem komið er eru turnarnir ófullgerðir. Þeir eru 65 metrar á hæð. Í þeim er klukknaspil með 67 klukkum. Ein þeirra vegur 9,8 tonn og er þyngsta kirkjuklukka Hollands.
  • Groothoofdspoort er gamalt borgarhlið og það eina sem enn stendur í borginni. Það var reist á 14. eða 15. öld og var þá í gotneskum stíl. Eftir andlitslyftingu 1618-1640 fékk það núverandi útlit í endurreisnarstíl.
  • Het Hof er gamalt klaustur Ágústínusarreglunnar í Dordrecht. Klaustrið var stofnað 1275 og var byggingasamstæðan reist í kjölfarið, en það var gjöf frá Floris V greifa af Hollandi. Eftir bruna 1512 voru byggingarnar endurgerðar í endurreisnarstíl. Eftir siðaskiptin var klaustrið notað í ýmsum tilgangi. Þar fór fram fundur fulltrúa hollensku Niðurlanda 1572, þar sem þeir lýstu yfir sjálfstæði frá Spáni. Samtímis var Vilhjálmur af Óraníu kosinn landstjóri ríkisins. Skjaldarmerki hinna frjálsu héraða eru enn geymd í glerskápum í salnum mikla í klaustrinu. Í friðarsamningum milli Hollands og Spánar 1648 hittust fulltrúar beggja aðila í klaustrinu. 1835 eignaðist borgin bygginguna og notaði hana sem skóla. Húsin eru notuð fyrir sérstaka viðburði í dag.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Dordrecht“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. september 2011.