Fara í innihald

Bresk stjórnmál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Westminsterhöll er breska þinghúsið
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands (2024–)

Bresk stjórnmál eiga við opinbera stjórnun Hins sameinaða konungsríkis Bretlands og Norður-Írlands sem er lýðræði rekið innan þingbundinnar konungsstjórnar. Því er konungurinn eða drottningin þjóðhöfðingi og forsætisráðherrann leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Framkvæmdavaldið hefur Breska ríkisstjórnin, fyrir hönd og með leyfi konungsins, auk ríkisstjórna Skotlands og Wales, og framkvæmdavalds Norður-Írlands, sem eru sér. Löggjafarvaldið tilheyrir tveimur deildum Breska þingsins: efri deildinni (eða lávarðadeildinni), og neðri deildinni, auk Skoska þinginu, Velska þinginu og Norðurírska þinginu. Dómsvaldið er aðskilið frá hinum völdunum. Valdmesti réttur landsins er Hæstiréttur Bretlands.

Stjórnmálaflokkakerfið á Bretlandi er fjölflokkakerfi. Frá þriðja áratugnum hafa stærstu og áhrifamestu flokkarnir verið Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn. Fyrir tilkomu Verkamannaflokksins var Frjálslyndi flokkurinn hinn aðalflokkurinn í breskum stjórnmálum. Þó að samsteypustjórn og minnihlutastjórn hafi bæði komið fram á einhverjum tímapunkti hefur atkvæðakerfið tryggt stöðu stóru flokkanna í þingkosningunum, þar sem annar þeirra myndar oftast meirihlutastjórn. Þrátt fyrir þetta hafa áhrif þriðja flokks verið mikilvæg, en Frjálslyndir demókratar hafa oftast gegnt því hlutverki. Verkamannaflokkurinn skipar núverandi ríkisstjórnina.

Eftir skiptingu Írlands fékk Norður-Írland heimastjórn árið 1920. Vegna ókyrrðar var bein stjórn tekin aftur upp árið 1972. Stuðningsmönnum skosku og velsku þjóðarflokkanna, sem sóttu valddreifingu, fjölgaði á áttunda áratugnum, en hún leit ekki dagsins ljós til tíunda áratugarins. Í dag hafa Skotar, Walesbúar og Norður-Írar sín eigin framkvæmdavald og löggjafarvald, en ákveðin skilyrði eru til fyrir Norður-Írland sem er bundið að táka þátt í samvinnu við Írska lýðveldið. Breska ríkisstjórnin sér um mál sem eru ekki á vegum þjóðarþinganna, svo sem utanríkis- og varnarmál.

Deilt er um hvort valddreifing hafi leitt til aukins stuðnings fyrir sjálfstæði þjóðanna. Helsti málsvari sjálfstæðisins í Skotlandi er Skoski þjóðarflokkurinn sem var í minnihlutastjórn árið 2007. Svo vann flokkurinn meirihluta í skosku þingkosningunum árið 2011 og skipar núverandi ríkisstjórn Skotlands. Árið 2014 var atkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands en aðeins 45% þátttakanda greiddu atkvæði fyrir sjálfstæði. Á Norður-Írlandi berst Sinn Féin fyrir sameiningu við Írska lýðveldið, en flokksmeðlimirnir taka ekki upp sætin sem þeir vinna því þeir þyrftu að sverja hollustueið til Bretakonungs.

Stjórnarskrá Bretlands er ekki sameinuð í eitt skjal en er skráð í ýmsum lögum. Þetta kerfi heitir Westminster-kerfið en önnur lönd hafa tekið það upp, sérstaklega lönd sem voru einu sinni undir stjórn Breska heimsveldisins. Bretland sér einnig um nokkur yfirráðasvæði, en þau skiptast í tvo flokka: krúnunýlendur og hjálendur.

Yfirleitt eru kosningar haldnir á fimm ára fresti í Bretlandi. Kosningakerfið sem notað er í þingkosningum nefnist first-past-the-post, en þetta þýðir að sá flokkur sem nær flestum atkvæðum sigrar. Ætlað var að kerfið myndi skila meirihlutastjórn í flestum tilfellum og þannig eru samsteypustjórnir sjaldgæfar. Þetta kerfið er ekki víða að finna í Evrópu.

Sökum kosningakerfisins líkist breska flokkakerfið tvíflokkakerfi, þó að það sé í raun og veru fjölflokkakerfi. Þriðji flokkurinn hlýtur oft töluverðan fjölda atkvæða en sjaldan myndar ríkisstjórn. Undantekning að þessu var í þingkosningunum 2010, þegar enginn flokkur náði hreinum meirihluta. Þetta fyrirbæri er kallað „hengt þing“ í daglegu tali. Þetta var í annað skiptið sem það kom upp frá febrúar 1974, en kosið var aftur seinna á sama ár.

Lagt hefur verið til mörgum sinnum að breyta skuli kosningakerfinu, en þessi áform hafa verið án árangurs. Þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin um málið árið 2011, en breytingunni var hafnað.

Stjórnmálaflokkar

[breyta | breyta frumkóða]

Helstu sjórnmálaflokkarnir eru:

  Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.