Varalið lögreglunnar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Varalögregla)

Varalið lögreglu eða varalögregla eru sveitir manna sem kallaðir eru til að aðstoða lögreglu í sérstökum tilvikum. Þessar sveitir geta verið hvoru tveggja, vopnaðar eða óvopnaðar og geta samanstaðið af sjálfboðaliðum eða meðlimum í lögreglunni.

Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Í lögreglulögum frá 1940 til 1996 var ríkislögreglustjóra heimilað, með samþykki dómsmálaráðherra, að við sérstakar aðstæður bæta við varalögreglumönnum til að gæta öryggis.

Þessi lög voru notuð nokkrum sinnum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Sem einkenni höfði varaliðslögreglan svartmálaða breska hermannahjálma. Var máluð hvít stjarna framan á hjálmana og stafirnir "VL" fyrir neðan.

Fyrir utan það var lögunum einungis beitt í tvö skipti. Var annað þann 30. mars 1949 þegar mikil átök urðu á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið vegna ákvörðunnar Alþingis um inngöngu Íslands í NATÓ. Þá var varalið lögreglunnar kallað út og voru varaliðarnir með breska hermannahjálma og armbindi, ýmist hvít eða í fánalitunum, sem einkenni. Í þessu varaliði voru einungis félagar í Verði, stúdentafélagi Sjálfstæðisflokksins og Heimdalli, ungliðahreyfingu sama flokks.[1]

Seinna skiptið sem varaliðið var kallað út til að aðstoða lögregluna í Reykjavík, var um mánaðamótin maí-júní 1973 þegar forsetarnir Richard Nixon og Georges Pompidou funduðu á Kjarvalsstöðum. Þetta varaliðið var í dökkbláum samfestingum með dökkbláar bátahúfur sem í var lögreglustjarna.

Eldri varalið[breyta | breyta frumkóða]

Saga varaliðs íslenskrar lögreglu er þó mun eldri. Árið 1855 var stofnuð varalögregla sem átti að aðstoða Reykjavíkurlögregluna þegar bruna bæri að höndum í bænum. Varalið var kallað út til að aðstoða lögregluna við konungskomurnar 1921, 1926 og 1936. Einnig var varalið lögreglunnar kallað út í nóvember 1921 vegna átaka um rússneskan dreng í Suðurgötu 14, sem hér var á vegum Ólafs Friðrikssonar. Í samband við sjómannaverkfall í Reykjavík í júní 1923 var varalið og lögregla notuð til að berja niður verkfallsmenn.[2] 
Sérstök Þingvallalögregla varaliðsmanna var stofnuð í sambandi við Alþingishátíðina 1930. Í þessari lögreglu voru 100 menn, sem áttu að sjá um alla löggæslu á staðnum og aðstoða hátíðargesti.

Aðalheimild[breyta | breyta frumkóða]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Óvinir ríkisins, Guðni Th. Jóhannsson, Mál og menning, 2006, ISBN 9979-3-2808-8 bls. 4
  2. Blöndahlsslagurinn (PDF)