Ríkisstjórnir Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs 2009-2013
Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur (einnig þekkt sem Velferðarstjórnin og/eða Vinstri stjórnin) voru stjórnarsamband Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem myndaðist í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi haustið 2008 og hætti störfum eftir Alþingiskosningar 2013. Eftir að Geir Haarde baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 26. janúar 2009 mynduðu flokkarnir minnihlutastjórn sem tók við völdum sex dögum síðar þann 1. febrúar og varði Framsóknarflokkurinn hana vantrausti. Í kjölfar þingkosninganna 25. apríl 2009 fengu flokkarnir meirihluta og mynduðu nýja ríkisstjórn sem tók við völdum 10. maí 2009.
Ríkisstjórnirnar voru þær fyrstu til að hafa jafnt kynjahlutfall og var Jóhanna Sigurðardóttir fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherra heims. Kjörtímabilið einkenndist af hörðum deilumálum og upplausnarástandi í samfélaginu. Ríkisstjórnarinnar biðu mörg brýn verkefni eftir efnahagshrun Íslands og hefur sá tími sem hún sat verið kenndur við endurreisn. Verkefni ríkisstjórnarinnar einkenndust af viðreisn íslensks efnahagslífs og rannsókn á aðdraganda hrunsins, enda var gengi gjaldmiðilsins veikt, verðbólga og atvinnuleysi hátt og mikill samdráttur á fyrstu árunum eftir hrun. Í tíð hennar var sótt um aðild að Evrópusambandinu, rammaáætlun gerð um virkjanakosti og ráðuneyti voru sameinuð.
Stjórnarmyndun
[breyta | breyta frumkóða]Þann 26. janúar 2009 tilkynntu Geir Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, að stjórnarsamstarfi flokkanna væri lokið. Viðræður höfðu þá staðið yfir um nokkurt skeið milli flokkanna um mögulegt framhald ríkisstjórnarinnar sem strandaði á kröfu Samfylkingarinnar um að Jóhanna Sigurðardóttir myndi veita nýrri ríkisstjórn forsæti. Í kjölfar stjórnarslita baðst Geir Haarde lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Hinn sama dag hófust viðræður á milli Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um minnihlutastjórn milli þeirra sem varin yrði vantrausti af Framsóknarflokknum.
Ráðherraskipan
[breyta | breyta frumkóða]Taflan fyrir neðan sýnir þá málaflokka sem ráðherrar í ríkisstjórninni fóru með. Frá og með 1. október 2009 var nafni á Menntamálaráðuneytinu breytt í Mennta- og menningarmálaráðuneytið, einnig var Efnahagsráðuneytinu breytt í Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu breytt í Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti Íslands og Samgönguráðuneytinu breytt í Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Þann 1. september 2012 var Fjármálaráðuneytinu breytt í Fjármála- og efnhagsráðuneytið og Umhverfisráðuneytinu breytt í Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Á kjörtímabilinu var farið í miklar sameiningar ráðuneyta og heyrðu sjávarútvegs-, landbúnaðar-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin undir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið frá og með 1. október 2012. Þann 1. janúar 2011 voru dómsmála- og mannréttindaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sameinuð sem Innanríkisráðuneytið. Þann sama dag voru félags- og tryggingamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið sameinuð sem Velferðarráðuneytið.