Fara í innihald

Þykkvalúra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þykkvalúra
Þykkvalúra
Þykkvalúra
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki Animalia
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Geisluggar Actinopterygii
Ættbálkur: Flatfiskar Pleuronectiformes
Ætt: Flyðruætt Pleuronectidae
Ættkvísl: Microstomus
Tegund:
M. kitt

Tvínefni
Microstomus kitt
Walbaum (1792)
Útbreiðsla þykkvalúru
Útbreiðsla þykkvalúru

Þykkvalúra (fræðiheiti: Microstomus kitt) eða sólkoli er flatfiskur af flyðruætt. Hún á heimkynni sín í grunnum höfum í Norður-Evrópu, þar sem hún lifir á sand- eða leirbotni í um 200 metra dýpi. Þykkvalúran hefur lengi verið í hávegum höfð sem matfiskur þó ekki hafi verið mikið veitt af henni við Íslandsstrendur, hún kemur mest sem aukafli við veiðar á kola enda heldur hún sig á svipuðum slóðum og þeir.

Þykkvalúra eða sólkoli er beinfiskur, nokkuð hár og þykkur. Haus þykkvalúrunnar er lítill og kjafturinn smár og endastæður. Varirnar eru þykkar og tennurnar á skoltum hennar fremur smáar á dökku hliðinni, en stærri á þeirri ljósu. Augu þykkvalúrunnar eru smá og uggar hennar eru svipaðir og annarra flatfiska, bakugginn nær frá styrtlunni og fram á haus, en raufaruggi hennar nær frá rauf og aftur að styrtlu. Eyr- og kviðuggarnir eru frekar smáir og sporðurinn meðal stór. Hreistrið er slétt og smátt, roðið þykkt og slímugt og þess vegna er þykkvalúran mjög hál viðkomu, rákin er greinileg og bein, en þó með boga yfir eyruggann. Stærð þykkvalúrunnar er oftast um 20-40 cm, en stærsta sem veiðst hefur á Íslandi er 63 cm, en hún á að geta náð að minnsta kosti 66 cm lengd og 2 kg. Þykkvalúran er rauðgrá eða rauðbrún á dökku hliðinni með dökkum blettum, en ljós á vinstri hliðinni.[1]

Heimkynni þykkvalúrunnar eru í Norðaustur-Atlantshafi, frá Hvítahafi og suður til Noregs, inn í Skagerak, Kattegat og til Danmerkur. Hún lifir í Norðursjónum og allt í kring um Bretlandseyjar og suður í Biskajaflóa. Hún lifir einnig við Færeyjar, og auðvitað Ísland. Við Ísland er þykkvalúran allt í kringum landið, hún er algengust í hlýja sjónum suðvestan-, sunnan- og suðaustanlands, en lítið er um hana á kaldari slóðum.[1]

Fæða og óvinir

[breyta | breyta frumkóða]

Þykkvalúran er botnfiskur sem lifir mest á malar-, sand- eða leirbotni við 20-250 metra dýpi. Fæða þykkvalúrunnar eru smábotndýr, burstaormar, slöngustjörnur, smákuðungar, skeljar, marflær og ýmsir fleiri hryggleysingjar, auk þess sem hún étur smáþörunga, fiska; sandsíli og loðnu aðallega.[1]

Lífshættir

[breyta | breyta frumkóða]

Þykkvalúran hrygnir á 50-70 metra dýpi við suður- og suðvesturstöndina. Hrygningin hefst í maí og lýkur í ágúst. Eggin eru 1,15-1,45 mm í þvermál og klakið tekur 8 daga miðað við 8-10 °C. Lirfan er um 4,7-5,5 mm við klak. Þegar lirfurnar hafa náð um 15-20 mm leita þær til botns og lifa þar. Vöxtur þykkvalúrunnar fer eftir fæðuframboði, líkt og hjá öðrum fiskum. Hængarnir vaxa hraðar en hrygnurnar en þær taka þó fram úr hængnum með aldrinum, og verða einnig eldri.[1]

Talsvert hefur verið veitt af þykkvalúrunni, en árið 1937 fór afli Íslendinga í 3000 tonn, en hafði verið um og undir 2000 tonnum áður. Heildarafli á Íslandsmiðum árið 1950 var um 2200 tonn og var hann í kringum það (1500-2500) fram til 1965-6, en afli minnkaði þá og var orðinn nánast ekki neinn í kringum 1976-7. En þegar kom að því að kvótakerfið var sett á hófst sókn í þykkvalúruna aftur og hefur hún aukist jafnt og þétt síðan með sveiflum, og er nú komin í um 2500 tonn. Fyrir kvótaárið 2008/2009 er mælt með veiðum uppá 1600 tonn. Þykkvalúran er helst veidd í botntroll og net og mest er flutt út af þykkvalúrunni með gámaflutningi og næstmest er hún fryst í landi.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson, & Ólafur Karvel Pálsson (1998). Sjávarnytjar. Reykjavík: Mál og menning.
  2. Hreiðar Þór Valtýsson. (2008). Main species - Lemmon sole. Sótt 1. maí 2009 frá Icelandic Fisheries[óvirkur tengill]
  Þessi VILLA, stubbur ekki til grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.