Volodymyr Zelenskyj
Volodymyr Zelenskyj | |
---|---|
Володимир Зеленський | |
Forseti Úkraínu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 20. maí 2019 | |
Forsætisráðherra | Volodymyr Grojsman Oleksíj Hontsjarúk Denys Sjmyhal |
Forveri | Petro Porosjenko |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 25. janúar 1978 Kryvyj Ríh, úkraínska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum |
Þjóðerni | Úkraínskur |
Stjórnmálaflokkur | Þjónn fólksins |
Maki | Olena Kíjasjko (g. 2003) |
Börn | 2 |
Starf | Leikari, stjórnmálamaður |
Verðlaun | Karlsverðlaunin (2022) |
Undirskrift |
Volodymyr Oleksandrovytsj Zelenskyj[1] (úkraínska: Володимир Олександрович Зеленський; rússneska: Владимир Александрович Зеленский, umritað Vladímír Aleksandrovítsj Zelenskíj; f. 25. janúar 1978) er úkraínskur stjórnmálamaður og gamanleikari sem er núverandi forseti Úkraínu. Hann var kjörinn forseti þann 21. apríl árið 2019[2] og tók við embættinu þann 20. maí sama ár.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Volodymyr Zelenskyj er fæddur 25. janúar 1978 í borginni Kryvyj Ríh í miðhluta Úkraínu, sem þá var hluti af Sovétríkjunum. Foreldrar hans voru menntafólk af Gyðingaættum. Afi hans barðist með sovéska hernum í seinni heimsstyrjöldinni og nokkrir ættingjar hans voru drepnir af nasistum í Helförinni.[3] Zelenskyj nam lögfræði en skipti síðan um starfsvettvang og gerðist leikari og grínisti.[4]
Zelenskyj varð þjóðþekktur gamanleikari í Úkraínu fyrir að leika aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum Þjónn fólksins (úkraínska: Слуга народу) frá árinu 2015 til 2019. Í þáttunum lék Zelenskyj Vasyl Holoborodko, menntaskólakennara sem er óvænt kjörinn forseti Úkraínu eftir að myndband af honum að hallmæla kerfislægri spillingu í landinu fer á flug um netheima.[5][6][7] Í þáttunum var gert grín að gerspilltri stjórnmálastétt Úkraínu með því að stilla henni upp við hlið hins heiðarlega en hrekklausa Holoborodko.
Framleiðendur sjónvarpsþáttanna stofnuðu stjórnmálaflokk undir nafninu Þjónn fólksins árið 2018.[2] Zelenskyj staðfesti á gamlárskvöld árið 2018 að hann hygðist gefa kost á sér í forsetakosningum Úkraínu árið 2019. Hann hafði þá þegar hlotið mikinn meðbyr í embættið, sérstaklega meðal aðdáenda þáttanna sem töldu að Zelenskyj myndi líkt og persónan sem hann lék verða tilbreyting frá kerfislægri spillingu í stjórnkerfi landsins.
Zelenskyj mældist snemma með mikið forskot í skoðanakönnunum. Auk þess að njóta góðs af því að vera talinn utangarðsmaður í úkraínskum stjórnmálum var Zelenskyj einn fárra frambjóðenda sem gat sótt fylgi um allt landið. Fylgi annarra frambjóðenda var gjarnan mjög bundið ýmist við hinn úkraínskumælandi vesturhluta eða hinn rússneskumælandi suðurhluta. Zelenskyj talar sjálfur rússnesku að móðurmáli en talar úkraínsku þó einnig reiprennandi.
Í fyrri umferð forsetakosninganna hlaut Zelenskyj um 30 prósent atkvæða, nærri því tvöfalt meira en sitjandi forseti landsins, Petro Porosjenko.[8] Í seinni umferðinni þann 21. apríl vann Zelenskyj svo stórsigur á móti Porosjenko með um 73 prósentum atkvæða.
Eftir að Zelenskyj tók við embætti kallaði hann til snemmbúinna þingkosninga til þess að styrkja stöðu sína. Í kosningunum, sem haldnar voru þann 21. júlí, vann Þjónn fólksins um 44% atkvæða og næg þingsæti til að mynda meirihluta með hjálp eins flokks í viðbót.[9]
Zelenskyj vakti fyrst athygli á alþjóðasenunni vegna símtals milli hans og Donalds Trump Bandaríkjaforseta árið 2019. Fyrir símtalið hafði Trump látið stöðva hernaðarstyrk til Úkraínu og í samtali sínu við Zelenskyj þrýsti hann á Zelenskyj að hefja rannsókn á meintu fjármálamisferli Hunters Biden, sonar Joe Biden, í Úkraínu. Joe Biden var þá álitinn líklegt forsetaefni Demókrataflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna 2020 og því sökuðu andstæðingar Trumps hann um að hafa beitt ríkisfé til að fjárkúga erlendan þjóðarleiðtoga í nafni eigin pólitísku hagsmuna.[10] Atvikið leiddi til þess að Trump var kærður til embættismissis af Bandaríkjaþingi en síðar sýknaður. Zelenskyj neitaði að gagnrýna framkomu Trumps og sagðist ekki vilja blanda sér í stjórnmál annars ríkis.[11]
Í kosningabaráttunni 2019 hafði Zelenskyj boðað sættir við Rússa í yfirstandandi hernaðardeilum þeirra við Úkraínu. Eftir að hann tók við embætti tókst honum hins vegar ekki að bæta samskiptin við Rússland, meðal annars þar sem hann vildi ekki fara að kröfum Vladímírs Pútín Rússlandsforseta um að Úkraína hætti að halla sér að Vesturveldunum í stjórnmálum.[11]
Innrás Rússa 2022–
[breyta | breyta frumkóða]Í febrúar 2022 gerðu Rússar innrás í Úkraínu til að „afvopna og af-nasistavæða“ landið eftir hernaðaruppbyggingu á landamærunum sem hafði staðið yfir í nokkrar vikur. Í sjónvörpuðu ávarpi kvöldið fyrir innrásina biðlaði Zelenskyj til rússnesku þjóðarinnar að stilla til friðar.[12] Zelenskyj fékk úkraínska þingið til að lýsa yfir þrjátíu daga neyðarástandi vegna innrásarinnar.[13]
Zelenskyj hélt sig í höfuðborginni Kænugarði á upphafsdögum innrásarinnar og neitaði að flýja þrátt fyrir að hún hafi verið umsetin rússneskum hermönnum.[4] Snemma í innrásinni er talið að málaliðum Wagner-hópsins hafi verið falið að myrða Zelenskyj.[14] Á meðan Rússar sátu um Kænugarð við upphaf innrásarinnar er talið að um 400 málaliðar hafi verið staðsettir í borginni til að reyna að ráða Zelenskyj af dögum.[15]
Zelenskyj ávarpaði Alþingi Íslands í gegnum myndvarpsútsendingu þann 6. maí 2022 til að þakka stuðning Íslendinga í innrásinni. Hann er fyrsti erlendi þjóðarleiðtoginn sem hefur ávarpað þingsal Alþingis.[16][17]
Kjörtímabili Zelenskyj hefði átt að ljúka árið 2024 en þar sem herlög eru í gildi í Úkraínu vegna innrásarinnar er ekki hægt að halda kosningar. Því er búist við því að Zelenskyj verði áfram í embætti á meðan stríðið stendur yfir.[18]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Eiginkona Volodymyrs Zelenskyj er arkitektinn og handritshöfundurinn Olena Zelenska. Þau eiga saman tvö börn.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Volodymyr Zelenskyj er umritun úr kyrillísku letri samkvæmt Umritunartöflu Árnastofnunar milli úkraínsku og íslensku. Nafn Zelenskyj hefur verið ritað á ýmsa vegu í íslenskri umfjöllun, meðal annars sem Zelenskíj, Selenskíj, Zelenskí eða Selenskí.
- ↑ 2,0 2,1 „Grínistinn sigraði í Úkraínu“. mbl.is. 2019. Sótt 22. apríl 2019.
- ↑ Freyr Gígja Gunnarsson (28. febrúar 2022). „„Rödd Paddingtons" sem tekst á við rússneska björninn“. RÚV. Sótt 1. mars 2022.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Þorvaldur S Helgason (26. febrúar 2022). „Óvinur Pútíns númer eitt“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2022. Sótt 26. febrúar 2022.
- ↑ Jacobsen, Katherine (13. desember 2016). „How a Fictional President Is Helping Ukrainians Rethink Their Absurd Politics“. Foreign Policy. Sótt 22. apríl 2019.
- ↑ Kao, Anthony (6. júní 2017). „Ukraine's 'Servant of the People' is a hidden gem of political comedy“. Cinema Escapist. Sótt 22. apríl 2019.
- ↑ Kao, Anthony (22. ágúst 2017). „Interview: Vladimir Zelenskiy on playing Ukraine's president in 'Servant of the People'“. Cinema Escapist. Sótt 22. apríl 2019.
- ↑ „Forskot grínistans ekkert spaug“. mbl.is. 2019. Sótt 22. apríl 2019.
- ↑ „Flokkur grínistans með 44%“. mbl.is. 2019. Sótt 22. júlí 2019.
- ↑ Kjartan Kjartansson (24. september 2019). „Trump stöðvaði styrk til Úkraínu áður en hann talaði við nýja forsetann“. Vísir. Sótt 18. júlí 2020.
- ↑ 11,0 11,1 Sunna Ósk Logadóttir (28. febrúar 2022). „Sex staðreyndir um Zelenskí“. Kjarninn. Sótt 28. febrúar 2022.
- ↑ „Rússar þurfi að vita sannleikann“. mbl.is. 24. febrúar 2022. Sótt 24. febrúar 2022.
- ↑ Smári Jökull Jónsson (23. febrúar 2022). „Úkraínska þingið samþykkir að lýsa yfir neyðarástandi“. Vísir. Sótt 24. febrúar 2022.
- ↑ „Þrjú misheppnuð morðtilræði á einni viku“. mbl.is. 4. mars 2022. Sótt 3. október 2022.
- ↑ „Fleiri en 400 launmorðingjar á eftir forsetanum“. mbl.is. 28. febrúar 2022. Sótt 14. nóvember 2022.
- ↑ Tryggvi Páll Tryggvason (6. maí 2022). „Skýr skilaboð til umheimsins: „Engin viðskipti við einræðið"“. Vísir. Sótt 6. maí 2022.
- ↑ „Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpar alþingismenn og íslensku þjóðina“. Alþingi. 6. maí 2022. Sótt 6. maí 2022.
- ↑ d'Istria, Thomas (23. maí 2024). „Volodymyr Zelensky, a president with no term end“. Le Monde (enska). Sótt 2. júní 2024.
Fyrirrennari: Petro Porosjenko |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |