Volodimír Selenskij

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Volodimír Selenskij
Володимир Зеленський
Volodymyr Zelensky Official portrait (cropped).jpg
Forseti Úkraínu
Núverandi
Tók við embætti
20. maí 2019
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. janúar 1978 (1978-01-25) (44 ára)
Kryvyj Rih, úkraínska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
ÞjóðerniÚkraínskur
StjórnmálaflokkurÞjónn fólksins
MakiOlena Kijasjko (g. 2003)
Börn2
StarfLeikari, stjórnmálamaður
Undirskrift

Volodimír Oleksandrovitsj Selenskij (f. 25. janúar 1978) er úkraínskur stjórnmálamaður og gamanleikari sem var kjörinn forseti Úkraínu þann 21. apríl árið 2019.[1] Hann tók við embættinu þann 20. maí sama ár.

Selenskij varð þjóðþekktur gamanleikari í Úkraínu fyrir að leika aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum Þjónn fólksins (úkraínska: Слуга народу) frá árinu 2015 til 2019. Í þáttunum lék Selenskij Vasyl Holoborodko, menntaskólakennara sem er óvænt kjörinn forseti Úkraínu eftir að myndband af honum að hallmæla kerfislægri spillingu í landinu fer á flug um netheima.[2][3][4] Í þáttunum var gert grín að gerspilltri stjórnmálastétt Úkraínu með því að stilla henni upp við hlið hins heiðarlega en hrekklausa Holoborodko.

Framleiðendur sjónvarpsþáttanna stofnuðu stjórnmálaflokk undir nafninu Þjónn fólksins árið 2018.[1] Selenskij staðfesti á gamlárskvöld árið 2018 að hann hygðist gefa kost á sér í forsetakosningum Úkraínu árið 2019. Hann hafði þá þegar hlotið mikinn meðbyr í embættið, sérstaklega meðal aðdáenda þáttanna sem töldu að Selinskij myndi líkt og persónan sem hann lék verða tilbreyting frá kerfislægri spillingu í stjórnkerfi landsins.

Selenskij mældist snemma með mikið forskot í skoðanakönnunum. Auk þess að njóta góðs af því að vera talinn utangarðsmaður í úkraínskum stjórnmálum var Selenskij einn fárra frambjóðenda sem gat sótt fylgi um allt landið. Fylgi annarra frambjóðenda var gjarnan mjög bundið ýmist við hinn úkraínskumælandi vesturhluta eða hinn rússneskumælandi suðurhluta. Selenskij talar sjálfur rússnesku að móðurmáli en talar úkraínsku þó einnig reiprennandi.

Í fyrri umferð forsetakosninganna hlaut Selenskij um 30 prósent atkvæða, nærri því tvöfalt meira en sitjandi forseti landsins, Petró Pórósjenkó.[5] Í seinni umferðinni þann 21. apríl vann Selenskij svo stórsigur á móti Pórósjenkó með um 73 prósentum atkvæða.

Eftir að Selenskij tók við embætti kallaði hann til snemmbúinna þingkosninga til þess að styrkja stöðu sína. Í kosningunum, sem haldnar voru þann 21. júlí, vann Þjónn fólksins um 44% atkvæða og næg þingsæti til að mynda meirihluta með hjálp eins flokks í viðbót.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Grínistinn sigraði í Úkraínu“. mbl.is. 2019. Sótt 22. apríl 2019.
  2. Jacobsen, Katherine (13. desember 2016). „How a Fictional President Is Helping Ukrainians Rethink Their Absurd Politics“. Foreign Policy. Sótt 22. apríl 2019.
  3. Kao, Anthony (6. júní 2017). „Ukraine’s 'Servant of the People' is a hidden gem of political comedy“. Cinema Escapist. Sótt 22. apríl 2019.
  4. Kao, Anthony (22. ágúst 2017). „Interview: Vladimir Zelenskiy on playing Ukraine’s president in 'Servant of the People'. Cinema Escapist. Sótt 22. apríl 2019.
  5. „For­skot grín­ist­ans ekk­ert spaug“. mbl.is. 2019. Sótt 22. apríl 2019.
  6. „Flokk­ur grín­ist­ans með 44%“. mbl.is. 2019. Sótt 22. júlí 2019.


Fyrirrennari:
Petró Pórósjenkó
Forseti Úkraínu
(20. maí 2019 – )
Eftirmaður:
Enn í embætti