Venesúelska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Venesúelska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
Íþróttasamband(Spænska: Federación Venezolana de Fútbol) (Knattspyrnusamband Venesúela)
ÁlfusambandCONMEBOL
ÞjálfariFernando Batista
FyrirliðiTomás Rincón
LeikvangurEstadio Olímpico de la UCV & Estadio Metropolitano de Mérida
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
57 (20. júlí 2023)
25 (nóvember 2019)
129 (nóvember 1998)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
1-3 gegn Panama, (12. feb., 1938).
Stærsti sigur
7-0 á móti Púertó Ríkó (16. jan. 1959).
Mesta tap
0-11 gegn Argentína (10. ágúst 1975).

Venesúelska karlalandsliðið í knattspyrnu er fulltrúi Venesúela í knattspyrnu og er stjórnað af knattspyrnusambandi lands síns. Liðið hefur viðurnefnið La Vinotinto eða þeir vínrauðu. Öfugt við það sem tíðkast annars staðar í Suður-Ameríku er knattspyrna ekki vinsælasta íþróttin í Venesúela heldur hafnabolti. Fyrir vikið hefur landsliðið staðið grannþjóðunum talsvert að baki og t.a.m. aldrei komist í úrslitakeppni HM í knattspyrnu, eitt landa álfunnar.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Venesúela sækir að marki Sovétmanna á Ólympíuleikunum 1980.

Venesúela skráði sig fyrst til þátttöku í forkeppni HM í Englandi 1966 en tapaði öllum leikjum. Í kjölfarið tók liðið þátt í sinni fyrstu Suður-Ameríkukeppni, í Úrúgvæ 1967. Þar vannst 3:0 sigur á Bólivíu og hafnaði Venesúela í fimmta sæti af sex liðum í þessari frumraun sinni. Hér reyndist þó á ferðinni fölsk dögun, því í næstu tólf keppnum, frá 1975 til og með 2004, mistókst liðinu að vinna einn einasta leik í fjörutíu tilraunum.

Á þessu árabili komst landliðið þó í sína fyrstu úrslitakeppni. Venesúela hafði hafnað í fjórða sæti forkeppninnar fyrir Ólympíuleikana í Moskvu 1980. Eftir að Argentínumenn drógu sig í hlé kom sæti þeirra í úrslitunum í hlut Venesúela. Þar steinlá liðið í fyrsta leik fyrir heimamönnum og tapaði þvínæst naumlega fyrir Kúbumönnum en lauk keppni með sigri á liði Sambíu.

Rétt úr kútnum og keppt á heimavelli[breyta | breyta frumkóða]

Í forkeppni HM í Japan og Suður-Kóreu 2002 náði Venesúela betri árangri en nokkru sinni fyrr og setti ýmis met. Í fyrsta sinn tókst liðinu að vinna meira en einn leik í röð, vinna útileik og lenda ofar en í botnsætinu. Alls vann liðið fimm leiki og gerð eitt jafntefli í viðureignunum átján og hafnaði í níunda sæti af tíu, með lakari markatölu en Perú í áttunda sætinu. Þessi óvænta velgengni blés Venesúelabúum kapp í kinn fyrir Suður-Ameríkukeppnina 2007, þeirri fyrstu sem haldin var í landinu.

Venesúela stóð sig aftur með prýði í forkeppni HM 2006 og endaði í áttunda sæti af tíu með átján stig. Á heimavelli í Suður-Ameríkukeppninni árið eftir byrjaði liðið með látum. Eftir jafntefli gegn Bólivíu í fyrsta leik fylgdi sugur á Perú og jafntefli gegn Úrúgvæ. Venesúela var í fyrsta sinn komið í fjórðungsúrslit og það sem sigurvegari síns riðils. Þar tók ævintýrið þó skjótan endi því Úrúgvæ sló heimaliðið úr keppni með 4:1 sigri. Stuðningsmenn Venesúela voru nú orðnir góðu vanir og síðar á árinu hrökklaðist landsliðsþjálfarinn Richard Páez úr starfi.

Leikið til undanúrslita[breyta | breyta frumkóða]

Vonir stóðu til þess að Venesúela kæmist í fyrsta sinn í úrslitakeppni HM í Suður-Afríku 2010. Liðið stóð sig með ágætum og var með 21 stig þegar tvær umferðir voru eftir. Ósigur á heimavelli gegn Paragvæ reyndst dýrkeyptur og þótt Venesúela tækist að næla í sitt fyrsta jafntefli gegn Brasilíu í lokaleiknum og það á útivelli, var liðið tveimur stigum frá því að komast í umspil um sæti í úrslitunum.

Suður-Ameríkukeppnin 2011 fór fram í Argentínu. Venesúela komst upp úr riðlakeppninni með sigri og tveimur jafnteflum, öðru þeirra gegn Brasilíumönnum. Í fjórðungsúrslitum var Sílemönnum rutt úr vegi og Venesúela var í fyrsta og eina skiptið í sögunni komið í undanúrslitin. Þar tók við markalaust jafntefli við Paragvæ, sem gerði þar með sitt fimmta jafntefli í keppninni í röð. Paragvæska liðið reyndist sterkara í vítaspyrnukeppninni og fór í úrslitin. Venesúela steinlá hins vegar í bronsleiknum gegn Perú, 4:1.

Aftur í sama farið[breyta | breyta frumkóða]

Venesúela vann fágætan sigur á Argentínu í forkeppni HM í Brasilíu 2014 en blandaði sé ekki af alvöru í keppnina um að komast áfram. Í forkeppnum tveggja næstu keppna, HM 2018 og HM 2022 mátti liðið svo sætta sig við botnsætið í Suður-Ameríkukeppninni á ný eftir nokkurt hlé.

Í Suður-Ameríkukeppnunum 2015 til 2021 féll lið Venesúela tvívegis úr leik í riðlakeppninni en komst í tvígang í fjórðungsúrslit, þar sem það tapaði í bæði skiptin fyrir Argentínu. Þrátt fyrir þennan rýra árangur í alþjóðakeppni tókst Venesúela að ná hæstu stöðu sinni á heimslista FIFA í nóvember 2019, 25. sæti. Það mun vera hæsta staða landsliðs í sögunni sem aldrei hefur komist í úrslitakeppni HM.