Fara í innihald

Wen Jiabao

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Wen, eiginnafnið er Jiabao.
Wen Jiabao
温家宝
Web Jiabao árið 2009.
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína
Í embætti
16. mars 2003 – 15. mars 2013
ForsetiHu Jintao
ForveriZhu Rongji
EftirmaðurLi Keqiang
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. september 1942 (1942-09-15) (82 ára)
Tianjin, Kína
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Kína
MakiZhang Peili
BörnYunsong, Ruchun
HáskóliJarðfræðiskólinn í Peking
StarfStjórnmálamaður

Wen Jiabao (kínverska: 温家宝, fæddur 15. september 1942 í Tianjin í Aþýðulýðveldinu Kína) er kínverskur stjórnmálamaður og jarðfræðingur að mennt. Hann gegndi stöðu forsætisráðherra og var formaður ríkisráðsins frá 2003 til 2013.

Lífs- og starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Wen Jiabao er fæddur á svæðinu Beijiao í Tianjin-héraði. Á árunum 1960-1965 nam hann við jarðfræðirannsóknir við Jarðfræðistofnunina í Beijing og á árunum 1965-1968 var hann við framhaldsnám við sömu stofnun þar sem hann fékk doktorsgráðu.

Hann gekk í Kínverska kommúnistaflokkinn árið 1965. Í menningarbyltingunni vann hann verkfræðingur í Gansu-héraði, þar sem hann varð 1978 pólitískur forstöðumaður jarðfræðirannsóknarstofnunar héraðsins. Árið 1982 sneri aftur hann til Beijing og varð árið 1983 aðstoðarráðherra jarðfræði og námunýtingar. Wen var síðan skipaður sem forstöðumaður hinnar almennu skrifstofu Kommúnistaflokksins sem sá um daglegan rekstur leiðtoga flokksins. Þar var hann í átta ár. Þrátt fyrir að margir þeir sem voru við völd árið 1989 hafi glatað stöðu sinni þegar óeirðir brutust út á Torgi hins himneska friðar (Tiananmen) virðist Wen Jiabao hafa haldið stöðu sinni í kjölfarið. Ástæður þess eru ókunnar.

Árið 1998 fékk Wen Jiabao það hlutverk á skrifstofu forsætisráðherra að veita landbúnaðar-, umhverfis- og fjármálum forstöðu. Það hlutverk var talið mjög mikilvægt þar sem Alþýðulýðveldið var á leið inn í Heimsviðskiptastofnunina (WTO). Frá 1998 til 2002 varð hann ritari þeirrar nefndar sem hefur yfireftirlit með kínverska hagkerfinu.

Í nóvember 2002 var Wen skipaður í fastanefnd miðstjórnar flokksins, æðstu valdastofnunar Kína. Þar var hann þriðji í röð níu manna. Hann var síðan í mars 2003 skipaður forsætisráðherra undir forsæti Hu Jintao. Hlutverk hans var að fylgja eftir efnahagslegum umbótum í Kína og jafnframt að tryggja að hagvöxtur landsins nái til fleiri þegna landsins, ásamt öðrum félagslegum markmiðum, svo sem almennri heilsugæslu og menntamálum.

Wen Jiabao var endurkjörinn forsætisráðherra 16. mars 2008. Auk áðurnefndra markmiða lagði hann mikla áherslu á efnahagslegan og stjórnmálalegan stöðuleika landsins. Hann var í áberandi hlutverki á erlendri grund að kynna utanríkisstefnu Kína og varð æ sýnilegri á alþjóðavettvangi um leið og efnahagsleg völd í Kína jukust. Í fjölmiðlum var hann mun meira áberandi en Hu Jintao forseti. Í ræðu og riti hefur hann lagt áherslu á aukið lýðræði og frelsi til handa Kínverjum. Sumt af því hefur ekki þótt birtingarhæft í þarlendum ríkisfjölmiðlum.

Wen Jiabao er kvæntur Zhang Peili, skartgripasérfræðingi og fjárfesti, sem sjaldan sést opinberlega með Wen. Þau eiga son, Wen Yunsong, sem er forstjóri kínverska netfyrirtækisins Unihub, og dótturina Wen Ruchun.


Fyrirrennari:
Zhu Rongji
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína
(16. mars 200315. mars 2013)
Eftirmaður:
Li Keqiang