Li Keqiang
- Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Li, eiginnafnið er Keqiang.
Li Keqiang 李克强 | |
---|---|
![]() | |
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína | |
Í embætti 15. mars 2013 – 11. mars 2023 | |
Forseti | Xi Jinping |
Forveri | Wen Jiabao |
Eftirmaður | Li Qiang |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 1. júlí 1955 Hefei, Anhui, Kína |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Kína |
Maki | Cheng Hong |
Börn | 1 |
Háskóli | Háskólinn í Peking |
Starf | Stjórnmálamaður |
Li Keqiang (kínverska: 李克强; f. 1. júlí 1955) er kínverskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína. Li er hagfræðingur að mennt[1] og var einn af helstu stjórnendum kínverskrar fjárhags-, utanríkis- og öryggisstefnu á ráðherratíð sinni. Hann var jafnframt næstráðandi í fastanefnd stjórnmálanefndar Kommúnistaflokks Kína, sem fer með æðstu völd í landinu. Li var einn af helstu leiðtogum „fimmtu valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins ásamt aðalritaranum og forsetanum Xi Jinping.
Li komst til metorða með starfi sínu í ungliðahreyfingu Kommúnistaflokksins. Frá 1998 til 2004 var Li landstjóri Henan og flokksritari héraðsdeildar flokksins þar. Frá 2004 til 2007 var hann flokksritari í Liaoning, sem var æðsta stjórnmálaembætti héraðsins. Frá 2008 til 2013 var Li aðstoðarforsætisráðherra[2] í ríkisstjórn Wen Jiabao og fór fyrir ráðuneyti sem sneri meðal annars að fjárhagsþróun, verðstýringu, loftslagsbreytingum og þjóðhagfræðistjórn.
Vegna reynslu sinnar úr ungliðahreyfingunni er gjarnan litið á Li sem bandamann fyrrum flokksleiðtogans Hu Jintao. Li varð forsætisráðherra árið 2013 og hefur staðið fyrir forgangsbreytingu kínversku stjórnarinnar úr áherslu á útflutningsþróun í aukna áherslu á neyslu innanlands. Li hefur einnig verið einn helsti hvatamaðurinn að „dýpkandi umbótum“ sem tilkynntar voru haustið 2013.
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ „Staðfestu skipun Li Keqiang í embætti forsætisráðherra Kína“. Vísir. 23. október 2013. Sótt 23. október 2018.
- ↑ „Umbætur mega ekki bíða“. Morgunblaðið. 19. mars 2012. Sótt 23. október 2018.
Fyrirrennari: Wen Jiabao |
|
Eftirmaður: Li Qiang |