Li Keqiang

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Li, eiginnafnið er Keqiang.
Li Keqiang
李克强
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína
Í embætti
15. mars 2013 – 11. mars 2023
ForsetiXi Jinping
ForveriWen Jiabao
EftirmaðurLi Qiang
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1. júlí 1955(1955-07-01)
Hefei, Anhui, Kína
Látinn27. október 2023 (68 ára) Sjanghæ, Kína
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Kína
MakiCheng Hong
Börn1
HáskóliHáskólinn í Peking
StarfStjórnmálamaður

Li Keqiang (kínverska: 李克强; 1. júlí 1955 – 27. október 2023) var kínverskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína frá 2013 til 2023. Li var hagfræðingur að mennt[1] og var einn af helstu stjórnendum kínverskrar fjárhags-, utanríkis- og öryggisstefnu á ráðherratíð sinni. Hann var jafnframt næstráðandi í fastanefnd stjórnmálanefndar Kommúnistaflokks Kína, sem fer með æðstu völd í landinu. Li var einn af helstu leiðtogum „fimmtu valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins ásamt aðalritaranum og forsetanum Xi Jinping.

Li komst til metorða með starfi sínu í ungliðahreyfingu Kommúnistaflokksins. Frá 1998 til 2004 var Li landstjóri Henan og flokksritari héraðsdeildar flokksins þar. Frá 2004 til 2007 var hann flokksritari í Liaoning, sem var æðsta stjórnmálaembætti héraðsins. Frá 2008 til 2013 var Li aðstoðarforsætisráðherra[2] í ríkisstjórn Wen Jiabao og fór fyrir ráðuneyti sem sneri meðal annars að fjárhagsþróun, verðstýringu, loftslagsbreytingum og þjóðhagfræðistjórn.

Vegna reynslu sinnar úr ungliðahreyfingunni var gjarnan litið á Li sem bandamann fyrrum flokksleiðtogans Hu Jintao. Li varð forsætisráðherra árið 2013 og stóð fyrir forgangsbreytingu kínversku stjórnarinnar úr áherslu á útflutningsþróun í aukna áherslu á neyslu innanlands. Li var einnig einn helsti hvatamaðurinn að „dýpkandi umbótum“ sem tilkynntar voru haustið 2013.

Eftir að Xi Jinping varð forseti Kína var Li Keqiang eini meðlimurinn í flokksráði Kommúnistaflokksins sem ekki var í innsta hring Xi. Li tapaði sæti sínu í fastanefnd stjórnmálanefndar flokksins í október 2022 og var leystur af hólmi sem forsætisráðherra af bandamanni Xi, Li Qiang, í mars næsta ár.[3][4]

Li Keqiang lést úr skyndilegu hjartaáfalli í Sjanghæ þann 27. október 2023, innan við ári eftir að hann lét af embætti forsætisráðherra.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Staðfestu skipun Li Keqiang í embætti forsætisráðherra Kína“. Vísir. 23. október 2013. Sótt 23. október 2018.
  2. „Umbætur mega ekki bíða“. Morgunblaðið. 19. mars 2012. bls. 14.
  3. Atli Ísleifsson (27. október 2023). „Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Kína látinn“. Vísir. Sótt 27. október 2023.
  4. „Náinn bandamaður Xi verður forsætisráðherra“. mbl.is. 11. mars 2023. Sótt 14. mars 2023.
  5. „Fyrrverandi forsætisráðherra Kína látinn“. mbl.is. 27. október 2023. Sótt 27. október 2023.


Fyrirrennari:
Wen Jiabao
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína
(15. mars 201311. mars 2023)
Eftirmaður:
Li Qiang