Tungudalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tungudalur

Tungudalur er dalur í Skutulsfirði. Hann er einn fjögurra dala sem ganga inn úr firðinum, hinir eru Engidalur, Dagverðardalur og Seljalandsdalur. Í Tungudal er fjölbreytt aðstaða til útivistar, meðal annars golfvöllur, skíðasvæði, tjaldsvæði, skógur, sumarbústaðabyggð, göngustígar og garðar. Í dalnum er einn munni Vestfjarðaganga og kemur úr göngunum neysluvatn Ísfirðinga og vatn sem virkjað er til rafmagnsframleiðslu.

Jarðfræði og gróðurfar[breyta | breyta frumkóða]

Dalurinn gengur inn úr botni Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi. Eftir dalbotninum endilöngum rennur Tunguá. Norðurhlíð dalsins er að mestu skógi vaxin og ofan hans Seljalandsdalur. Þaðan rennur Buná sem steypist niður bratta hlíðina og myndar Bunárfoss. Buná rennur í Tunguá í botni Tungudals. Sunnanmegin dalsins er fjallið Hnífar og handan þess Dagverðardalur. Upp af dalnum liggur Botnsheiði. Í Tungudal er mikil veðursæld og ber gróður í dalnum þess vitni.

Fram dalinn, sunnanmegin í hlíðum Hnífa, liggur þjóðvegurinn upp að Vestfjarðagöngum sem vígð voru árið 1996.

Skógrækt[breyta | breyta frumkóða]

Göngustígur í skógi að vetri.
Í efri skóginum í Tungudal, desember 2020.

Tunguskógur hefur um árabil verið helsta starfsvæði Skógræktarfélag Ísfirðinga frá 1950. Þar var náttúrulegur birkiskógur fyrir og gott berjaland.[1] Gróðursetning hófst í Tunguskógi árið 1950. Mest var plantað innan Bunár árin 1955–1965, en svo út með hlíðinni ofan sumarhúsabyggðarinnar. Grýtt og bratt er í hlíðinni að hluta og var erfitt til ræktunar. Gróðurinn hefur hins vegar náð góðum þroska í hlíðum dalsins og er nú meðal mestu skóga Vestfjarða. Sitkagreni og hvítsitkagreni hefur vaxið vel, en einnig eru teigar með stafafuru, rússalerki og rauðgreni í skóginum. Grisjun skógarins hófst um 1980 og hefur verið haldið áfram síðan.[2] Um skógræktina liggja stígar og þar hefur verið komið fyrir bekkjum og borðum í skógarrjóðrum.

Utar í hlíðinni, utan sumarhúsabyggðar og ofan Kolfinnustaða er nú myndarlegur skógur, mest furu- en einnig sitkagreni, og þar hafa Ísafirðingar getað sótt jólatré til heimila sinna.[3] Um árabil hafa torgré einnig verið sótt í Tunguskóg, meðal annars fyrir nágrannasveitarfélög Ísafjarðar.[4]

Árið 1993 fékk Skógræktarfélagið heimild til að hefja skógrækt austan megin í dalnum, ofan þá nýs vegar að jarðgangamunnanum fyrir botni dalsins, í hlíðum Hnífa. Þar hefur félagið gróðursett birki og furu, harðgerðar plöntum sem þrífast þar. Allmyndarlegur skógur hefur vaxið þar og kallast Síðuskógur.

Gerda og Martinus Simson. Brjóstmyndir Martinusar standa nú í Simsongarði.

Martinus Simson og Simsongarður[breyta | breyta frumkóða]

Gamall uppdráttur að Simsongarði.
Uppdráttur Martinusar að garðinum við Kornustaði

Danski ljósmyndarinn og fjölleikalistamaðurinn Martinus Simson (9. júní 1886–15. apríl 1974) settist að á Ísafirði 1914. Árið 1925 fengu hann og kona hans Gerda lóð í Tungudal og reistu þar sumarhús, Kornustaði, þar sem nú heitir Simsongarður. Þau komu sér vel fyrir í Tungudal. Garðinn útbjuggu þau með höggmyndum Simsons, tjörnum með gosbrunnum og gullfiskum, manngerðum helli, sundlaug og fjölbreyttum gróðri. Árið 1994 féll snjóflóð í Tungudal sem olli miklum skemmdum. Brotnuðu þá flest trén í garðinum. Strax var hafist handa við endurgerð garðsins og með tímanum mun hann væntanlega ná aftur fyrri glæsileika.

Eftir lát Simsons ánafnaði hann Skógræktarfélagi Ísafjarðar garðinum. Hefur hann síðan verið í umsjá félagsins.[5]

Áfangastaður að sumri[breyta | breyta frumkóða]

Sumarbyggð[breyta | breyta frumkóða]

Tungudalur hefur lengi verið útivistarsvæði Ísfirðinga. Fyrir miðja öldina höfðu margir Ísfirðingar reist sér sumarhús í Tunguskógi, kjarrivaxinni vesturhlíð dalsins. Skrúðgarðar blóma og trjáa voru við flest húsin. Þar var skjólsælt á sumrum og dalurinn því helsti skemmti- og hvíldarstaður bæjarbúa um helgar og í fríum á vori og sumri.[1] Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1949, Norður-Ísafjarðarsýsla, er þess getið að meðal efstu sumarhúsanna, hátt í hlíðinni, sé Birkihlíð sem var skólasel Gagnfræðiskólans á Ísafirði. Neðst er svo hús Simsonar, Kornustaðir.

Sumarið 1937 fóru fleiri sumarhús að rísa, þar á meðal syðst í byggðinni, áfast Birkihlíðarlóðinni, hús Jónasar Tómassonar bóksala, Grenihlíð. Sumarhúsabyggðin var lífleg á sumrum enda fluttu þeir borgarar sem áttu heima á Eyrinni fjölskyldur sínar „inn í Skóg“ sumarlangt, frá júní fram í september. Þar var skjól fyrir aukinni umferð bíla og ryki þéttbýlisins. Þetta voru forréttindi þeirra sem gátu. Flutningum var þannig háttað að allt hafurtask til sumardvalarinnar var flutt á vorin á vorubíl inn í Tungudal og aftur með sama hætti til baka að hausti. Þess á milli sáu heimilisfeður um aðdrætti en þeir ferðuðust til og frá vinnu á Eyrinni á reiðhjólum allt sumarið.[6]

Uppbygging eftir snjóflóð[breyta | breyta frumkóða]

Eftir snjóflóð sem féll ofan af Seljalandsdal og ruddi niður hátt í 40 bústöðum 1994 hófst fljótlega endurbygging margra bústaðanna. Þó svo gömlu húsin hafi verið heillandi og tímanna tákn voru mörg þeirra orðin léleg. Vetrartvöl á svæðinu er óheimil sökum hættu á snjóflóðum en margir heimsækja þó húsin allt árið um kring og nota jafnvel sem skíðaskála.[6]

Lautarferð 1925[breyta | breyta frumkóða]

Seint í ágúst 1925 bar góða gesti að garði á Ísafirði. Það voru 89 Grænlendingar frá Ammassalik. Hópurinn var á leið til Ittoqqortoormiit við Scorebysund en þar ætluðu Danir að stofna nýlendu og tryggja þannig yfirráð sín á svæðinu og koma þannig í veg fyrir landnám Norðmanna. Flestir farþega danska heimskautafarsins Gustav Holm stigu á land á Ísafirði þá einhvejir dveldu um borð meðan á heimsókninni stóð. Gestunum var vel tekið en megintilgangur stoppsins á Ísafirði var að taka vistir og vígja prestinn í hópnum. Meðal þess sem fundið var uppá að gera með grænlensku gestunum var að fara í lautarferð inn í Tunguskóg. Þangað var þeim ekið á vörubílspalli sem útbúinn hafði verið með bekkjum.[7]

Golf[breyta | breyta frumkóða]

Golfvöllur Golfklúbbs Ísafjarðar er í dalnum. Framkvæmdir við völlinn hófust árið 1985[8]. Við Tungudalsvöll er klúbbhús sem var flutt á svæðið frá Hnífsdal og tekið í notkun árið 1999. Fyrra klúbbús sem stóð á sama stað eyðilagðist í snjóflóðinu 1994.

Tjaldsvæði[breyta | breyta frumkóða]

Tjaldsvæði er í um 900 m fjarlægð frá Skutulsfjarðarbraut. Bunárfoss liggur í gegnum svæðið og skiptir því í tvo hluta, annar hlutinn er ætlaður húsbílum, hjólhýsum og tjaldvögnum og hinn hlutinn er ætlaður tjöldum. Á svæðinu eru tvö þjónustuhús[9].

Útivist að vetri[breyta | breyta frumkóða]

Skátaskálinn Valhöll[breyta | breyta frumkóða]

Skátafélagið Einherjar (nú Einherjar-Valkyrjan) á Ísafirði (stofnað 1928) fór í sína fyrstu útilegu sumarið 1928 í Tungudal. Ári síðar reisti félagið skátaskálann Valhöll á sama stað, ofarlega í dalnum þar sem Tunguá rennur um nokkuð djúpt gljúfur. Nokkrir Ísfirðingar sem ekki vildu láta nafns síns getið gáfu fé til húsbyggingarinnar. Skátaforinginn Gunnar Andrew risti nöfn þeirra á trébút og kom fyrir milli þilja í byggingunni. Húsið stendur enn, rétt neðan við núverandi skíðasvæði en er í einkaeigu.[10]

Frá upphafi var Valhöll helstu heimkynni ísfirskra skíðamanna. Á sumardaginn fyrsta 1932 stóð skátafélagið fyrir skíðagöngukeppni við Valhöll í Tungudal og upp frá því voru skíðakeppnir fastur liður í starfi félagsins. Uppúr því fór hópur skátanna að ræða um stofnun skíðafélags.

Skíðagöngubrautir sitthvoru megin við Tunguá í Tungudal, í mars 2020.

Skíðaganga[breyta | breyta frumkóða]

Þó svo skíðaiðkun og keppni hafi verið stunduð í Tungudal lengi var var það ekki fyrr en á seinni árum sem skapast hefur sú hefð að leggja skíðagöngubrautir í Tungudal þegar snjór er nægur. Við það stækkar yfirráðasvæði skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar til muna. Dalurinn er flatur og eru brautirnar því hentugar fyrir byrjendur, auk þess sem þær eru nær byggð en skíðagöngusvæðið á Seljalandsdal.

Skíðabraut í Tungudal
Séð frá skíðalyftu yfir Tungudal að vetri.
Útsýnið úr Miðfellslyftu skíðasvæðisins í Tungudal.

Alpagreinar[breyta | breyta frumkóða]

Þrjár skíðalyftur og skíðaskáli eru innarlega í dalnum við þjóðveginn um Vestfjarðagöng. Ein liggur eftir botni dalsins meðfram Tunguá. Sú hentar byrjendum vel enda lítið brött. Skammt frá toppi þeirrar lyftu gengur Sandfellslyftan úr dalsbotninum upp á Sandfell á Seljalandsdal. Efst í dalsbotninum er svo þriðja lyftan, Miðfellslyfta, tekin í notkun í mars 2001.[11]

Uppbygging skíðasvæðis innarlega í Tungudal hófst seint á 10. áratug 20. aldarinnar en áður höfðu skíðalyftur og aðstaða til skíðaiðkunar verið á Seljalandsdal. Snjóflóð féll á Seljalandsdal 1994.

Snjóflóð[breyta | breyta frumkóða]

Á þriðjudagsmorgni eftir páska, þann 5. apríl 1994, féll snjóflóð úr Seljalandsdal yfir skíðasvæðið og niður yfir sumarhúsasvæði í Tungudal. Einn maður fórst í flóðinu en þremur var bjargað. Flóðið eyðilagði skíðalyftur og skíðaskála á Seljalandsdal, 40 sumarbústaði í Tungudal og skemmdi skógrækt töluvert. Flóðið var um 4–500 metra breidd og 2–3 metrar að þykkt.[12][13]

Vestfjarðagöng[breyta | breyta frumkóða]

Munni Vestfjarðaganga í Tungudal.

Einn þriggja munna Vestfjarðaganga er í Tungudal. Göngin eru þríarma jarðgöng undir Botnsheiði og Breiðadalsheiði milli Skutulsfjarðar, Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Með tilkomu vegganganna færðist þjóðvegurinn (60) úr Dagverðardal í Tungudal. Göngin tengja saman byggð á Ísafirði, Suðureyri og Flateyri og voru vígð 14. september 1996. Þau eru 9.120 m og voru lengstu jarðgöng á Íslandi þar til Héðinsfjarðargöng voru opnuð. Tungudalsleggur (sem liggur frá Skutulsfirði) er um 2.000 m langur, Breiðadalsleggur (sem liggur frá Önundarfirði) er um 4.000 m og Botnsdalsleggur (sem liggur frá Súgandafirði) er um 3.000 m.

Við jarðgangagreftrunina opnaðist stór vatnsæð í leggnum til Önundarfjarðar og rann vatnið til Tungudals. Þetta tafði framkvæmdina lítið en vatnið er nú nýtt til raforkuframleiðslu og neyslu.

Tungudalsvirkjun[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2007 var vatnsaflsvirkjun í Tungudal opnuð. Virkjunin er með 700 kW að afli og framleiðir árlega 5 GWh af rafmagni. Í virkjunina er veitt 700 l/s af afrennslisvatni úr Vestfjarðagöngum og vatn úr Tunguá. Vatnið kemur úr fossi sem opnaðist við gerð jarðganganna árið 1993. Í fyrstu var talið að vatnsmagnið kynni að minnka þegar frá liði og þess vegna var það ekki fyrr en laust eftir aldamótin, þegar sýnt þótti að stöðugleiki væri kominn á rennslið, að skriður komst á málið. Verklegar framkvæmdir hófust sumarið 2005 en orkuframleiðsla í janúar 2006. Framkvæmdum lauk sumarið 2007.

Vatnasvið Tungudalsvirkjunar er óvenjulegt að því leyti að það samanstendur af nýju afrennsli Vestfjarðaganga auk grunnrennslis úr Tunguá án þess að uppistöðulón hafi verið útbúið. Jarðgöngin í heild sinni ná til vatnasviða þriggja fjarða, Skutulsfjarðar, Önundarfjarðar og Súgandafjarðar, auk Syðridals í Bolungarvík. Stærð afrennslissvæðisins til ganganna hefur ekki verið skilgreint eða rannsakað nákvæmlega. Tveir þriðju hlutar Vestfjarðaganga eða um sex kílómetrar af níu halla að Tungudalsmunnanum.[14]

Tvær virkjanir með sama vatnasvið hafa með tilkomu ganganna misst hluta af grunnrennsli sínu, í Reiðhjallavirkjun í Bolungarvík og rafstöð að Fossum í Engidal í Skutulsfirði.

Vatnsveita Ísafjarðar nýtir einnig vatn úr jarðgöngunum [14].

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Jóhann Hjaltason (1949). Árbók Ferðafélags Íslands 1949. Ferðafélag Íslands. bls. 55.
  2. „Vestfirðir“. skogargatt. Skógræktarfélag Íslands. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. janúar 2021. Sótt 4. janúar 2021.
  3. Bjarnason, Björgvin (9. desember 2020). „Skógræktarfélag Ísafjarðar selur Ísfirsk jólatré“. Bæjarins Besta. Sótt 4. apríl 2021.
  4. Gísli Eiríksson (Desember 2020). „JÓLATRÉ BOLVÍKINGA SÓTT TIL ÍSAFJARÐAR“. Bæjarins besta. Sótt Apríl 2021.
  5. „Tunguskógur“. skogargatt. Skógræktarfélag Íslands. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. janúar 2021. Sótt 4. janúar 2021.
  6. 6,0 6,1 Gunnlaugur Jónasson (2020). Var það nokkuð fleira?. bls. 127.
  7. „Skutull - 35. Tölublað (31.08.1925) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 2. apríl 2021.
  8. Golfsamband Íslands, Tungudalsvöllur – skemmtilegur völlur í frábæru umhverfi
  9. Vestfirðir. „Tjaldsvæðið Tungudal“. Vestfirðir, Náttúra Íslands, ferðaupplýsingar, menning, afþreying, gisting, viðburðir. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. október 2020. Sótt 27. desember 2020.
  10. Skátafélagið Einherjar 20 ára – afmælisrit. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. desember 2020.
  11. „Ný skíðalyfta í notkun í Tungudal“. www.mbl.is. Sótt 4. janúar 2021.
  12. „Morgunblaðið - 76. tölublað (06.04.1994) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. desember 2020.
  13. Starfsmenn snjóflóðavarna Veðurstofu Íslands (mars 2003). „Snjóflóð á Ísafirði og í Hnífsdal“ (PDF). Veðurstofa Íslands. Sótt desember 2020.
  14. 14,0 14,1 Orkubú Vestfjarða

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]