Martinus Simson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Martinus Simson (eða M. Simson eða Marthinus Simson) (9. júní 1886 - 15. apríl 1974) var danskur fjölleikalistamaður sem settist að á Ísafirði og starfaði þar sem ljósmyndari, útvarpsvirki, myndhöggvari, heimspekingur og trjáræktandi.

Simson fæddist í Vendilsýslu (Vendsyssel) á Norður-Jótlandi og ólst upp á fátæku sveitaheimili til sautján ára aldurs. Þá fór hann að heiman og gerðist trúður, tannaflraunamaður og hugsanalesari í farandflokki fjölleikamanna. Árið 1913 kom hann til Íslands með sirkus sínum og heillaðist af landinu. 1914 kom hann aftur til landsins, ferðaðist um landið og leitaði sér að stað til að setjast þar að. En þegar hann kom til Ísafjarðar fannst honum hann vera kominn heim og settist þar að og bjó þar alla ævi. Hann fékk land til afnota í Tungudal við Skutulsfjörð sumarið 1925 og reisti sér þar sumarhús (Kornustaði) og hóf að rækta tré og aðrar plöntur sem síðar varð Simsonsgarður. Hann varð brautryðjandi í skógræktarmálum Ísfirðinga og með styrk frá Ísafjarðarkaupstað og Skógrækt ríksins plantaði hann 117 þúsund barrplöntum í Tungudal. (5. apríl 1994 féll snjóflóð í Tungudal og nær öll trén í garði hans brotnuðu eða lögðust á hliðina).

Simson stundaði lengi smíði útvarpstækja og kenndi, m.a. radíótækni um skeið við Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Hann hafði þó ljósmyndaiðn að aðalstarfi, en lagði líka stund á listmálun, teikningu og höggmyndasmíð. En aðaláhugamál hans alla tíð voru andleg vísindi. Simson skrifaði t.d. heimspekirit í tveimur bindum (sem hann byggði að hluta á ritum Martinus Thomsen). Það var ritið: Óður lífsins: leiðin til skilnings á lífinu eða lífsskoðun heilabrotamanns, sem út kom í tveimur bindum (1945-1946). Árið 1965 kom einnig út bók hans: Hugleiðingar um vaxtakerfið og hin skynsama óvita.

Simson var kvæntur Gerdu Simson og áttu þau þrjú börn saman. Þegar hann kom fyrst til Íslands kynntist hann Guðnýju Shödt og eignaðist með henni eitt barn.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.