Fara í innihald

Villutrú

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Trúvilla)
Galileo Galilei sakfelldur fyrir villutrú

Villutrú, eða trúvilla er hugtak sem notað er um hugmyndir sem eru í andstöðu við eða eru frábrugðnar „réttri trú“. Á íslensku er hugtakið einkum tengt kristinni trú en alþjóðlega eru það einkum abrahamísku trúarbrögðin sem hafa notað þetta hugtak eða önnur náskyld trúarbrögð.

Villutrúarmenn eða trúvillingar telja sjaldan sínar eigin kenningar vera villutrú. Sem dæmi má nefna að kaþólska kirkjan leit á alla mótmælendur sem trúvillinga (og telur enn suma mótmælendasöfnuði vera það) en margir mótmælendur líta á kaþólska trú sem villutrú. Gyðingar töldu kristni í upphafi vera villutrú af verstu gerð og svik við gyðingdóm og öfugt hafa kristnir álitið gyðingdóm vera villutrú.

Í raun flokka trúfélög trúarvillu á tvennan hátt, annars vegar eru önnur trúarbrögð (íslam og kristni t.d.) og hins vegar kenningardeilur innan trúflokksins. Oftast ríkir einskonar „friðsamleg sambúð“ í fyrra tilfellinu en hins vegar eru trúbræður sem falla frá „réttri trú“ og setja fram afbrigðilegar kenningar afar illa séðir og ofsóttir ef við verður komið.

Á seinni tímum, sérlega eftir Vatíkanþingið 19621965 og sameiginlegrar yfirlýsingar um kenninguna um réttlætingu af trú sem Lútherska heimssambandið og Vatíkanið undirrituðu árið 1999 hafa hinar stærri kirkjudeildir notað hugtakið villutrú minna um hverja aðra. Formlega eru þó mótmælendur enn villutrúarmenn í augum kaþólsku kirkjunnar en oftar er þó talað um þær sem aðskildar systurkirkjur.

Villutrú í frumkristni

[breyta | breyta frumkóða]

Páll postuli lagði grunn að trúarkenningum kristindóms með bréfum sínum sem sem safnað hefur verið í Nýja testamentinu. Hann varar þar við falsspámönnum og villukenningum [1] og setur fram ýmsar trúarreglur.

Nokkrir þeirra kirkjufeðra sem snemma snérust gegn villutrú voru Tertullianus, Ireneus frá Lyon, Ignatius frá Antiokkíu og Polykarpos frá Smyrnu. Skrif þeirra urðu grundvöllur þeirrar trúarjátningar sem samþykkt var við kirkjuþingið í Níkeu árið 325.

Áður en kristni varð ríkstrú í Rómaveldi voru oft hörð átök andstæðra kristinna hópa en enginn þeirra hafði vald til að nota á andstæðinga sína. Frá og með 325 urðu kennisetningar kirkjunnar samstæðari og hún fékk þar að auki stuðning keisaravaldsins. Keisarinn hafði hag að gæta í því að halda villutrúarmönnum á mottunni því deilur þeirra sköpuðu óró í ríkinu. Úr þessu skapaðist samspil milli hins veraldlega og kirkjulega valds. Fyrsti kristni villutrúarmaðurinn sem heimildir eru um að hafi verið drepinn vegna skoðana sinna var Priscillianus frá Avila. Hann var tekinn af lífi samkvæmt skipun frá Magnus Maximus keisara árið 385.

Kaþólska kirkjan og villutrú

[breyta | breyta frumkóða]
Heilagur Dóminik (1170 – 1221) úrskurðar heilagan dóm yfir villutrúarmönnum, málverk eftir Pedro Berruguete (1450 - 1504)

Tómas af Aquino skilgreindi villutrú sem „ótrúnaður þeirra manna sem eftir að hafa meðtekið trú á Krist falsa kenninguna“. [2] Samkvæmt reglum kaþólsku kirkjunnar veldur villutrú sjálfkrafa bannlýsingu. Frá sjónarhóli kirkjunnar þýðir það að sá sem ekki óskar eftir að vera hluti af hinni réttur trú kirkjunnar fái ekki heldur að vera það.

Kaþólska kirkjan skapaði á miðöldum sérstakan rannsóknarrétt til að berjast við trúvillinga. Þetta var gert í nánu samstarfi milli kirkjunnar og hins veraldlega arms, eins og það var nefnt. Villutrú var dauðasök í kaþólskum löndum enda litið á hana sem landráð. Kirkjan leit svo á að dauðarefsingin væri í raun miskunnarverk vegna þess að hún gæti bjargað trúvillingunum frá eilífri glötun. Sem villutrúarmenn töldust bæði þeir sem á einhvern hátt afneituðu eða þóttu afneita kenningum kirkjunnar og þeir sem taldir voru göldróttir.

Hugmyndin um að rétt sé að brenna fólk lifandi fyrir galdra á sér uppsprettu hjá Heilögum Ágústínusi (354-430) sem ritaði í pistli 62 í bókinni Guðsríkið: „að heiðingjar, gyðingar og villutrúarmenn muni brenna í eilífum eldi hjá Djöflinum nema kaþólska kirkjan bjargi þeim“. [3] Spænski rannsóknarrétturinn hefur orðið sérlega umtalaður vegna harðneskju í afskiptum sínum af múslimum, gyðingum og mótmælendum auk þeirra sem ákærðir voru fyrir galdra.

Á síðustu áratugum hefur kaþólska kirkjan algjörlega snúið bakinu við sögulegum ofsóknunum á villutrúarmönnum og Jóhannes Páll II páfi bað 1999 opinberlega afsökunar og fyrirgefningar á þeim. Síðasta aftaka eftir dóm í rannsóknarrétti átti sér stað 28. júlí 1826 þegar spánverjinn Cayetano Ripoll var tekinn af lífi. Rannsóknarrétturinn var lagður af 1908 og við tók „Söfnuður til varnar trúnni“ (Congregatio pro Doctrina Fidei).

Eftir annað Vatíkan-þingið 1965 hefur rómversk-kaþólska kirkjan sýnt miklu meira umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum og sérlega gagnvart öðrum kristnum trúardeildum. Kaþólikkar sem skipta um trú eða ganga í söfnuði mótmælenda eru þó enn taldir vera trúvillingar í augum kirkjunnar.

Ákveðnar grundvallarkenningar mótmælenda eru enn álitnar alvarlegar trúarvillur í augum kaþólsku kirkjunnar. Þær kenningar eru:

að Biblían ein sé upphaf og sannleikur trúarinnar, sem hefur verið nefnt „ritningin ein“ („sola scriptura“),
að trúin í sjálfri sér geti leitt til frelsunar, sem hefur verið nefnt „réttlæting af trú“ („sola fide“)
að það sé ekki til heilög vígsluhefð sem veiti innvígðum heilagt vald og heilagan skilning á dýpri innihaldi og kenningum trúarinnar heldur að allir kristnir menn geti skilið trúna og lagt út kenningu hennar.

Mótmælendur og villutrú

[breyta | breyta frumkóða]

Mótmælendakirkjur eru af mörgu tagi og hafa mismunandi skilning á villutrú og samskiptum við „trúvillinga“. Marteinn Lúther var sjálfur harðorður í garð þeirra sem ekki fylgdu trúarsetningum hans, hann sagði meðal annars um gyðinga að það ætti að eyðileggja heimili þeirra, brenna sýnagógurnar og læsa þá sjálfa inni [4]. Samtíðamenn hans, Kalvín og Zwingli, voru enn harðari í garð þeirra sem ekki vildu aðhyllast rétta trú.

Allmennt álíta mótmælendur nokkur helstu atriði kaþólskrar kenningar sem rangan trúarskilning eða villutrú. Þar er sérlega dýrkun á dýrlingum og sögulega ekki síst helgidýrkun á Maríu mey. Einnig álíta þeir skilning kaþólskra á altarissakramentinu vera alranga og sömuleiðis sérstöðu páfans sem eftirmanns Péturs postula.

Við kristnitöku lauk trúfrelsi á Íslandi og öll önnur trú en kristni var dæmd sem villutrú og alvarlegt afbrot. Frá siðaskiptunum um 1550 varð kaþólsk trú (sem oft var nefnd „pápíska“) ólögleg og hélst svo til 1874 þegar ný stjórnarskrá tók gildi á Íslandi.

Fyrsti trúarhópurinn til að leita réttar síns sem sjálfstætt trúfélag voru mormónar árið 1875. Þeir höfðu fyrst reynt trúboð 1851 urðu þá fyrir miklu aðkasti og ofsóknum og var bannað með dómi að prédika opinberlega. En 1857 fengu tveir kaþólskir prestar undanþágu til að dveljast á Íslandi og þjóna frönskum sjómönnum sem voru að veiðum þar.

Kirkjan á Íslandi hélt sig ekki síður frammi en aðrar kirkjur við ofsóknir á hendur þeim sem taldir voru villutrúarmenn og sakaðir voru um galdur. Ekki er með öllu ljóst hversu margir voru líflátnir fyrir galdur í galdrafárinu á Íslandi á 17. öld en í annálum frá 1400 til 1800 þá má finna 24 tilfelli þar sem 21 karlmaður og ein kona voru brennd, einn maður hálshöggvin og annar hengdur [5].

Gyðingdómur

[breyta | breyta frumkóða]
Gyðingar brenndir á báli fyrir villutrú. Úr Nürnberg Weltchronik eftir Hartmann Schedel frá 1493

Rétttrúnaðargyðingar (orþódox) telja allar trúarkenningar sem ekki samrýmast kenningum þeirra sem villutrú. Gyðingasagnfræðingurinn Jósefos Flavíos sem uppi var á 1. öld notar hugtakið villutrú um þrjá söfnuði: sadúkkera, farísea og essena. Villutrú er nefnt minim í gyðingdómi, en það þýðir bókstaflega 'form'/'gerðir' (óeiginlega 'trúarform'/'trúgerðir').

Hugtakið hitsonim einnig notað í Talmud en það þýðir „sá sem heldur sig fyrir utan“ og má einnig þýða sem villutrú. Í kenningum gyðinga er fjöldinn allur af reglum um afstöðu sanntrúaðra gyðingar til villutrúarmanna, hvort sem þeir eru minim' eða hitsonim.[6]

Trúfræðingar beggja aðaltrúardeilda íslam, súnní og shía, telja gagnkvæmt hina kenninguna vera villutrú. Flestir fylgjendur sunni telja súfista vera innan marka réttrar trúar, hins vegar telja vahabítar þá vera örgustu villutrúarmenn.

Í Kóraninum eru gyðingar og kristnir kallaðir fólk bókarinnar (ahl al-kitab) og í langri sögu múslimskra ríkja hafa þeir yfirleitt alltaf haft fullt trúfrelsi [7]. Hins vegar eru þeir múslimar sem skipta um trú (svo nefndir mortad) og gerast kristnir til dæmis taldir réttdræpir samkvæmt sharíalögunum (þó það sé umdeilt meðal múslima).

Söfnuðir sem eiga uppruna í íslam, eins og bahá'íar og Ahmadiyya eru harðlega fordæmdir og ofsóttir þar sem þeir eru skilgreindir sem mortad.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. til dæmis: Rómverjabréfið 16:17-18
  2. Summa Theologica II-II, Q. 11, a. 1 Ensk þýðing á riti Tómas af Aquino í HTML, PDF, TXT og fleiri skjalaformum
  3. Ágústínus, St. Augustin's City of God and Christian Doctrine (Guðsríkið), (ensk þýðing) Wm. B. Eerdmans Publishing Company 2002
  4. Luther, Martin. „On the Jews and Their Lies,“ þýðing Martin H. Bertram, í Franklin Sherman (ritstjóri). Luther's Works. Philadelphia: Fortress Press, 1971, 47:268–72.
  5. Siglaugur Brynleifsson. Galdrar og brennudómar. Reykjavik: Mál og Menning, 1976.
  6. The Limits of Orthodox Theology: Maimonides' Thirteen Principles Reappraised, by Marc B. Shapiro
  7. Similarities between Islam and Christianity Geymt 19 maí 2007 í Wayback Machine, eftir Dr. Zakir Naik, drzakirnaik.com

Heimildir og ítarefni

[breyta | breyta frumkóða]
  • „Hvers vegna hafa Gyðingar verið ofsóttir í gegnum aldirnar?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvers vegna voru hafðar galdrabrennur hér í gamla daga?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað er krossferð?“. Vísindavefurinn.
  • Heilagur hryllingur III: Villutrú á vefnum Vantrú
  • Heilagur hryllingur IX: Endurskírendur á vefnum Vantrú