Fara í innihald

Jósefos Flavíos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jósefos Flavíos, oft nefndur Jósefos sagnaritari, (37 – um 100) var Gyðingur frá Galíleu og þekktur sem helsti sagnfræðingur Gyðinga á fornöld. Hann tók beinan þátt í uppreisn Gyðinga 6470 og var viðstaddur eyðileggingu Jerúsalem og musterisins.

Jósefos var af góðum ættum presta og jafnvel æðstupresta. Í ævisögu sinni rekur hann ættir til Hasmónea, oftar þekktir sem Makkabear, en þeir stofnuðu sjálfstætt ríki í Palestínu á annarri öld fyrir okkar tímatal.

Í upphafi stríðsins var hann tekinn til fanga af rómverska hershöfðingjanum Vespasíanusi sem sendur hafði verið af Neró keisara að berja niður uppreisnina. Hann lýsir því sjálfur í ævisögu sinni hvernig hann stjórnaði aðgerðum í Galíleu gegn Rómverjum en sveik félaga sína og gaf sig á vald Vespasíanusar hershöfðingja um leið og Rómverjar birtust. Þar sem hann var af góðum ættum og háttsettur meðal andstæðinganna hefur hann fengið sæmilega góða umönnun. Hann segist hafa spáð fyrir um það við Vespasíanus að hann yrði næsti keisari enda ættu messíasarspádómar Biblíunnar við hann. Þetta þótti með ólíkindum enda ekkert brottfararsnið á Neró keisara auk þess sem Vespasíanus var ekki af júlíönsku ættinni sem allir keisarar höfðu tilheyrt.

Stuttu seinna framdi Neró sjálfsmorð og Vespasíanus lagði af stað til Rómar að heimta keisaratignina en Títus sonur hans tók við stjórn hersins. Samkvæmt Jósefosi voru þeir feðgar svo ánægðir með að spádómurinn hafði ræst að þeir ættleiddu hann inn í ætt sína, flavíönsku ættina, og nefnist hann Jósefos Flavíos (réttara Títus Flavíus Jósefus) eftir það. Vespasíanus varð keisari árið 69 og ríkti í tíu ár en Títus tók síðan við af honum og ríkti í tvö ár.

Bækur Jósefusar

[breyta | breyta frumkóða]

Bókin um Gyðingastríðin eru skrifuð að beiðni þeirra feðga Vespasíanusar og Títusar og kom væntanlega út stuttu eftir að stríðinu lauk endanlega árið 73. Hún er skrifuð á arameísku, móðurmál Jósefosar, en seinna þýddi hann hana á grísku með aðstoð annarra. Aðeins eru til grískar útgáfur af ritinu. Tuttugu árum seinna skrifaði hann helsta rit sitt, Sögu Gyðinga en þá var Dómitíanus orðinn keisari, bróðir Títusar.

Árið 97 skrifaði hann rit þar sem hann svarar gagnrýni á söguriti sínu. Grikkinn Apíon dró í efa að fornsögur af Gyðingum gætu verið sannar og benti meðal annars á að Heródótos sagnfræðingur sem skrifaði um þjóðir heims á fimmtu öld f.o.t. minnist ekkert á Gyðinga.

Árið 99 skrifaði hann ævisögu sína. Þá er flavíanska ættin fallin frá völdum fyrir nokkru og Trajanus orðinn keisari.

  • „Rit Jósefusar í þýðingu William Whiston“.
  • „Um Flavius Josephus hjá livius.org“.