Teitur Gunnlaugsson
Teitur Gunnlaugsson ríki (d. eftir 1467) var íslenskur höfðingi og lögmaður á 15. öld. Hann var stórauðugur, átti eignir í Skagafirði og Hornafirði, og bjó lengst af í Bjarnanesi í Nesjum við Hornafjörð. Ætt hans er óþekkt, en líklega var hann Skagfirðingur í föðurætt en Hornfirðingur í móðurætt.
Sagnir sem voru skráðar meira en hálfri annari öld síðar segja að Teitur hafi verið annar helsti andstæðingur Jóns Gerrekssonar biskups. Hann hafi verið handtekinn og hafður í haldi í Skálholti ásamt Þorvarði Loftssyni. Þorvarður slapp þó um haustið en Teitur sat í varðhaldi veturinn 1432–1433, fram til páska. Sagan segir að hann hafi komist undan þegar veisla var haldin í Skálholti og þeir sem áttu að gæta Teits urðu drukknir og týndu lyklunum en þjónustustúlka á staðnum fann þá og opnaði fyrir Teiti, svo að hann komst undan. Í Árbókum Espólíns segir að hann hafi tekið stúlkuna með sér austur í Hornafjörð, gefið henni tuttugu hundraða jörð og gift hana ríkum manni.
Um sumarið 1433 fóru þeir Teitur, Þorvarður og Árni Einarsson Dalskeggur að biskupi, drekktu honum í Brúará en drápu sveina hans. Er sagt að Teitur og menn hans hafi sundriðið Hvítá við Þengilseyri og hafi það aldrei verið gert fyrr. Sama sumar var Teitur kosinn lögmaður á Alþingi og kann það að hafa átt sinn þátt í því að engin eftirmál urðu vegna biskupsdrápsins. Teitur var tvívegis lögmaður norðan og vestan, 1433–1437 og 1444–1453 og lögmaður sunnan og austan 1441–1450, og því um allt land 1444–1450. Þessi ártöl eru þó óviss því ekki er vitað með vissu hverjir gengdu lögmannsembættunum á 15. öld.
Teitur er einn þeirra sem nefndir eru í hyllingarbréfi Eiríks konungs af Pommern 1431 og taldi hann Eirík eina löglega konunginn þaðan í frá, því þótt Eiríkur væri settur af 1440 vildi Teitur aldrei hylla annan konung að Eiríki lifandi, hvorki Kristófer af Bæjaralandi né Kristján 1., fyrr en 1459, þegar hann var leystur frá eið sínum með alþingisdómi, en þá var Eiríkur látinn. Hann virðist hafa verið mjög valdamikill og í miklum metum, þar sem hann komst upp með að neita að hylla konungana.
Kona Teits er óþekkt. Eina barn þeirra sem vitað er til að hafi átt erfingja var Kristín, kona Þorleifs Árnasonar bónda í Glaumbæ í Skagafirði, sem var sonarsonur Vatnsfjarðar-Kristínar og dóttursonur Lofts Guttormssonar ríka. Þeirra sonur var Teitur Þorleifsson lögmaður, sem erfði Bjarnaneseignir eftir afa sinn og spunnust um þær miklar deilur á 16. öld. Óskilgetinn sonur Teits Gunnlaugssonar var Gunnlaugur Teitsson lögréttumaður. Engin ætt er þekkt frá Kristínu en þorri Íslendinga er kominn af Gunnlaugi.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Fyrirrennari: Hrafn Guðmundsson |
|
Eftirmaður: Helgi Guðnason | |||
Fyrirrennari: Helgi Guðnason |
|
Eftirmaður: Brandur Jónsson | |||
Fyrirrennari: Ásgeir Pétursson |
|
Eftirmaður: Oddur Ásmundsson |