Fara í innihald

Þorvarður Loftsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorvarður Loftsson ríki (um 1410 - 1446) var íslenskur höfðingi á 15. öld og er þekktastur fyrir að hafa verið einn leiðtogi þeirra sem fóru að Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi og drekktu honum 1433.

Þorvarður var sonur Lofts ríka Guttormssonar og Ingibjargar Pálsdóttur konu hans og var albróðir Ólafar ríku. Hann erfði mikinn auð eftir föður sinn. Hann bjó á Möðruvöllum í Eyjafirði en átti bú víðar á landinu, til dæmis á Eiðum, Hlíðarenda og Strönd í Selvogi.

Litlar og ótryggar heimildir eru um aðdraganda atburðanna en sagnir herma að biskup hafi látið handtaka Þorvarð og annan höfðingja, Teit ríka Gunnlaugsson í Bjarnanesi í Hornafirði sumarið 1432 og flytja þá í Skálholt. Þar voru þeir að sögn hafðir í myrkrastofu og látnir berja fisk og vinna ýmis verk sem þeim þótti lítil virðing að. Sagan segir að Þorvarður hafi sloppið úr varðhaldinu haustið 1432 en Teitur ekki fyrr en um vorið.

Þeir söfnuðu svo liði ásamt Árna Einarssyni Dalskeggi, höfðingja úr Eyjafirði, fóru í Skálholt 20. júlí 1433, drógu biskup út úr kirkjunni, drápu sveina hans sem í náðist, settu Jón í poka og drekktu honum í Brúará. Þess hefur verið getið til að þessir atburðir hafi í rauninni verið þáttur í baráttu enskra og þýskra kaupmanna um Íslandsverslunina og jafnvel orðið að undirlagi Jóns Vilhjálmssonar Craxton Hólabiskups, en hann og Loftur faðir Þorvarðar, sem þá var látinn, höfðu verið miklir bandamenn.

Sagan segir einnig að Margrét Vigfúsdóttir, sem varð kona Þorvarðar, hafi sloppið naumlega þegar sveinar Jóns Gerrekssonar drápu Ívar bróður hennar á Kirkjubóli á Miðnesi, flúið norður í land og heitið því að giftast þeim sem hefndi bróður hennar. Sú saga er að vísu nokkuð þjóðsagnakennd og þau Margrét og Þorvarður giftust ekki fyrr en þremur árum síðar, 14. október 1436. Margrét (f. um 1406, d. 1486) var dóttir Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra og Guðríðar Ingimundardóttur (um 1374 - d. eftir 1436) sem var af auðugum norskum höfðingjaættum.

Þorvarður varð ekki gamall og Margrét bjó lengi ekkja á Möðruvöllum. Þau áttu þrjár dætur: Ingibjörgu konu Páls Brandssonar sýslumanns á Möðruvöllum, en þau og synir þeirra dóu öll í plágunni síðari 1494; Guðríði, konu Erlendar Erlendssonar sýslumanns á Hlíðarenda og móður Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra; og Ragnhildi, sem giftist Hákarla-Bjarna Marteinssyni á Ketilsstöðum á Völlum og síðar á Eiðum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Brúðkaupið mikla á Möðruvöllum 1465. Sunnudagsblað Tímans, 1. okt. 1967“.