Vatnsfjarðar-Kristín Björnsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristín Björnsdóttir (um 13741458), oftast nefnd Vatnsfjarðar-Kristín, var íslensk hefðarkona á 14. og 15. öld og einna auðugust Íslendinga á sinni tíð.

Kristín var dóttir Björns Einarssonar Jórsalafara og Solveigar Þorsteinsdóttur konu hans, sem bjuggu í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Sagnir, líklega rangar, segja að hún hafi átt einn bróður, Þorleif, og segja sögur að hann hafi verið hraustmenni en Kristín heilsuveil og lengi rúmliggjandi á unga aldri. Þorleifur drukknaði við Melgraseyri uppkominn og er sagt að þegar lík hans var borið heim í Vatnsfjörð hafi Kristínu brugðið svo við að hún reis úr rekkju, var alheilbrigð upp frá því og náði háum aldri. Kristín tók við öllum auði foreldra sinna eftir lát þeirra. Hún erfði marga tugi jarða víðs vegar um Vestfirði og ýmsar aðrar eignir. Mörgum jarðanna fylgdu hlunnindi af fiskveiði, reka og öðru. Kristín þótti skörungur og rausnarkona mikil.

Kristín var tvígift. Fyrri maður hennar, sem hún giftist 1392, var Jón, bróðir Lofts Guttormssonar ríka. Hann lést í Svarta dauða. Þau bjuggu í Hvammi í Dölum. Þau áttu einn son sem einnig hét Jón og dó á unglingsaldri, og erfði þá Kristín enn mikinn auð eftir hann. Síðan giftist hún Þorleifi Árnasyni sýslumanni sem átti miklar eignir á Norðurlandi, til dæmis höfuðbólin Auðbrekku í Hörgárdal, Glaumbæ í Skagafirði og margar jarðir í Húnaþingi. Hún bjó í Vatnsfirði eftir lát hans en síðustu árin var hún í Æðey. Hún er jafnan kennd við Vatnsfjörð, en átti þó aldrei þá jörð. Solveig móðir hennar gaf Birni syni hennar jörðina 1433.

Synir þeirra Kristínar og Þorleifs voru Einar hirðstjóri, Björn ríki hirðstjóri á Skarði, maður Ólafar ríku Loftsdóttur, og Árni í Glaumbæ, sem giftist Soffíu Loftsdóttur. Dæturnar voru Helga eldri kona Guðmundar Arasonar ríka á Reykhólum, Solveig húsfreyja í Víðidalstungu og á Breiðabólstað, kona Orms Loftssonar, Helga yngri, húsfreyja á Holtastöðum í Langadal, kona Skúla Loftssonar, og Guðný, kona Eiríks slógnefs Loftssonar á Grund í Eyjafirði. Fimm systkinanna giftust börnum Lofts Guttormssonar.