Brandur Jónsson (lögmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Brandur Jónsson (d. 1494) var íslenskur lögmaður á 15. öld og bjó á Hofi á Höfðaströnd og seinast á Mýrum í Dýrafirði.

Ætt Brands er óviss. Björn á Skarðsá segir að Finnbogi Jónsson lögmaður hafi verið bróðir hans og Brandur þá sonur Jóns Maríuskálds. Sé það rétt hefur Jón átt Brand ungur að árum og um 30 ára aldursmunur verið á þeim bræðrum. Brandur kemur fyrst við skjöl 1433 og hefur þá verið að minnsta kosti tvítugur. Fleiri tilgátur um faðerni hans hafa verið settar fram. Brandur varð lögmaður norðan og vestan 1454 og hélt því embætti til 1478. Þá sagði hann af sér en Hrafn Brandsson (eldri) var kjörinn í hans stað.

Kona Brands er óþekkt en á meðal barna þeirra var Páll Brandsson, sýslumaður í Eyjafirði, sem bjó á Möðruvöllum og var giftur Ingibjörgu, dóttur Þorvarðar Loftssonar og Margrétar Vigfúsdóttur á Möðruvöllum. Þau hjónin og synir þeirra tveir dóu öll í plágunni síðari 1494 og synir Gríms Pálssonar sýslumanns, launsonar Páls, erfðu allan auð þeirra samkvæmt Jónsbókarlögum, en Þorvarður Erlendsson lögmaður, sonur Guðríðar systur Ingibjargar, gerði tilkall til erfða og var það í samræmi við réttarbót Hákonar háleggs frá 1313. Var deilt hart um þetta í meira en tvo áratugi og dæmt á ýmsa vegu en málinu lauk með sættum á Alþingi 1515.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Teitur Gunnlaugsson
Lögmaður norðan og vestan
(14541478)
Eftirmaður:
Hrafn Brandsson (eldri)