Helgi Guðnason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Helgi Guðnason (d. um 1440) var íslenskur höfðingi og lögmaður á 15. öld og bjó á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð í Skagafirði.

Um föður Helga er ekki vitað en móðir hans ónefnd var systir Árna Ólafssonar biskups hins milda og í bréfi sem dagsett er eftir jól 1419 kemur fram að Árni gefur Helga jörðina Hvalsnes á Rosmhvalanesi. Svo virðist að allmiklar eignir sem Árni biskup hafði náð undir sig hafi runnið til Helga. Einar Bjarnason prófessor í ættfræði taldi að Sólveig, kona Björns Einarssonar Jórsalafara hafi verið afasystir Helga, og því þeir Helgi og Björn Þorleifsson hirðstjóri á Skarði þremenningar að ætt, en það er byggt á líkum en ekki vissum heimildum.

Helgi var lögmaður norðan og vestan 1438 til 1439. Kona Helga var Akra-Kristín, dóttir Þorsteins Ólafssonar lögmanns á Stóru-Ökrum, og bjuggu þau þar. Helgi dó um 1440 og eftir lát hans giftist Kristín Torfa Arasyni hirðstjóra. Börn Helga og Kristínar voru þau Ingveldur, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum, og Þorsteinn, sem talinn er hafa búið á Reyni í Mýrdal.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Teitur Gunnlaugsson
Lögmaður norðan og vestan
(14381439)
Eftirmaður:
Teitur Gunnlaugsson