Tölva
Tölva er rafeindatæki sem notað er við hraðvirka úrvinnslu, geymslu og birtingu mikils magns gagna eftir nákvæmri forskrift forrits. Gagnvart almennum notanda samanstendur tölva af skjá, lyklaborði, mús, hátölurum og kassa sem inniheldur tölvuna sjálfa, ásamt diskadrifum og hugsanlegum fleiri inntaks- og úttaksmöguleikum.
Tölvan er líklega ein áhrifamesta uppfinning 20. aldarinnar og tölvutækni hefur gjörbreytt aðstæðum fólks til vinnu og leiks um allan heim.
IBM tilkynnti árið 2018 að þeir hefðu búið til minnstu tölvu í heimi (1 millimeter á kant, og notar blockchain-tækni), en mánuðum síðar í júní 2018 tilkynnti Háskóli Michigan minnstu tölvu (0.3 millimetrar á kant; tölvan frá IBM 10 sinnum stærri),[1] þar sem grjón er risastórt í samanburði. Sú tölva er með þráðlausu "neti", en þar sem hún er of lítil fyrir loftnet er ljós notað.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Enska orðið computer er dregið af latnesku sögninni computare „ætla“ eða „reikna“. Á 17. öld var tekið að nota orðið yfir „reiknara“, fólk sem fékkst við útreikninga að atvinnu. Þetta starf var við lýði fram undir miðja 20. öld og var þá aðallega unnið af konum. Fyrstu rafrænu tölvurnar sem komu fram á sjónarsviðið voru kallaðar „greiningarvélar“, „sjálfvirkar vélar“, „rafmagnsreiknar“ og síðar „Turingvélar“. Elsta dæmið um notkun orðsins computer yfir rafræna reiknivél er frá 1945. Fyrsta tölvan sem var almennt kölluð computer var ENIAC frá 1946, þótt til séu mörg dæmi um eldri tæki sem með réttu mætti kalla tölvur.
Þegar fyrsta tölvan kom til Íslands árið 1963[2] voru ýmis heiti höfð um hana, eins og „rafreiknir“,[3] „rafeindaheili“, „rafeindareiknir“ og einnig enska tökuorðið „computer“. Vilmundur Jónsson, landlæknir, stakk upp á orðinu „hjarni“ (sem merkir „heili“). Árið 1965 kom Sigurður Nordal prófessor við Háskóla Íslands með nýyrðið „tölva“.[4] Orðið er samrunaorð orðanna „tala“ og „völva“ og fallbeygist eins og „völva“, „slöngva“ eða sérnafnið Röskva.[4][5][6] Þorsteinn Gylfason sagðist hafa verið viðstaddur þegar Sigurður fékk hugmyndina, og að orðið hafi verið orðið alkunnugt á nokkrum vikum og öll hin nýyrðin dáið drottni sínum.
Rétt nefnifallsmynd er „tölva“ en ekki „talva“.[4][5][7][8][5]
Innri gerð tölva
[breyta | breyta frumkóða]Tölva samanstendur af nokkrum einingum eða hlutum sem vinna saman. Venjan er að þeim sé raðað á móðurborð.
Minni
[breyta | breyta frumkóða]Minni tölva er röð af númeruðum einingum sem hver inniheldur tölulegar upplýsingar. Upplýsingarnar geta ýmist verið skipanir sem tölvan framkvæmir eða gögn sem tölvan les eða skrifar.
Stærð, fjöldi og gerð minniseininganna er mjög breytilegur milli tölva og flestar nútíma tölvur nota nokkrar mismunandi gerðir minnis (td. flýtiminni, vinnsluminni og harða diska).
Miðverk
[breyta | breyta frumkóða]Miðverkið samanstendur af stýri-, reikni- og rökverki ásamt inniminni, staflageymslu, skipunarpípu o.fl.. Í dag er miðverkið venjulega haft á einni kísilflögu sem kallast örgjörvi. Örgjörvinn er samsettur úr mörgum smárum og öðrum smáhlutum og sér um að túlka og vinna úr öllum aðgerðum forritanna á tölvunni og venjulega úr öllum ílags- og frálagsbúnaði.
Ílag og frálag (inntak og úttak)
[breyta | breyta frumkóða]Ílags- og frálagsbúnaður (e. input- and outputdevices) er heiti sem er notað bæði þegar verið er að tala um forrit og búnað eins og lyklaborð, skjá, harðadiska og netkort. Til er búnaður sem tekur annað hvort bara við upplýsingum eða sendir bara frá sér (e. input or output-only), en flest tæki gera hvort tveggja, jafnvel prentarar og skjáir. Á öllum venjulegum heimilistölvum er grunnstýringarkerfi eða BIOS (e. Basic Input/Output System ) þetta kerfi er geymt á lítilli flögu sem er á móðurborðinu. Örgjörvinn notar grunnstýringarkerfið þegar tölvan er ræst, það sér um að koma fyrir nauðsynlegum upplýsingum í vinnsluminni tölvunar svo stýrikerfið geti ræst sig. Jafnframt stjórnar grunnstýringarkerfið upplýsingaflæði á milli ílags- og frálagsbúnaðar og kjarna stýrikerfisins.
Tegundir
[breyta | breyta frumkóða]- Borðtölva – liggur á skrifborði í heimili eða á skrifstofu
- Einkatölva – ætluð einum notanda í einu
- Fartölva – ætluð að vera borin
- Ofurtölva – mjög stór og kraftmikil
- Spjaldtölva – flytjanleg tölva með snertiskjá
- Vasatölva – smá tölva sem má setja í vasa
- Örtölva – með örgjörva sem miðverk
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ https://www.cnet.com/news/university-of-michigan-outdoes-ibm-with-worlds-smallest-computer/
- ↑ „Hvenær kom fyrsta tölvan til Íslands?“. Vísindavefurinn.
- ↑ http://tos.sky.is/tos/to/word/isl/4366/ Geymt 27 september 2007 í Wayback Machine Tölvuorðasafnið: Rafreiknir
- ↑ 4,0 4,1 4,2 „Er jafnrétt að nota orðið tölva og talva?“. Vísindavefurinn.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 „Af hverju segja allir „talva" í staðinn fyrir „tölva"?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „Beyging orðsins „tölva"“. á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls
- ↑ „Beyging orðsins „talva"“. á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls
- ↑ „Er ENNÞÁ rangt að nota orðið „talva" í staðinn fyrir „tölva"?“. Vísindavefurinn.