Fara í innihald

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (skammstafað sem BÍN) er safn beygingardæma á rafrænu formi sem er aðgengilegt almenningi á netinu. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi sér um viðhald og miðlun BÍN. Í BÍN eru nú um 350.000 uppflettiorð, og er enn í þróun.

Byrjað var að vinna við gerð BÍN árið 2002 hjá Orðabók Háskólans. BÍN var unnin í nokkrum áföngum og var sá fyrsti styrktur af tungutækniátaki menntamálaráðuneytisins og lauk honum þann 15. mars 2004 með um 173.000 orðum. BÍN var hýst á formi XML-skráa sem afhent voru á geisladiskum til máltækninota.

Beygingardæmin voru fyrst birt á vefsíðu Orðabókar Háskólans árið 2004. Árið 2005 fékkst styrkur úr Tækniþróunarsjóði til að búa til gagnagrunn fyrir BÍN og þá hófst samvinna við Spurl ehf. Ný vefsíða var opnuð árið 2007 þegar Orðabók Háskólans varð hluti af Stofnun Árna Magnússonar og Spurl varð hluti af Já ehf. Frá 11. nóvember 2009 var aðgangur að gögnum úr BÍN opinn á vefsíðu BÍN, með stuðningi Já sem hýsti gagnasafnið til hausts 2019. Árið 2017 fékkst styrkur úr Máltæknisjóði til nýrrar útgáfu af BÍN sem opnuð var 25. september 2019.