Sun Myung Moon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sun Myung Moon
문선명
Sun Myung Moon árið 2010 í Las Vegas.
Fæddur6. janúar 1920
Dáinn3. september 2012 (92 ára)
ÞjóðerniSuður-kóreskur
MenntunWaseda-háskóli
Þekktur fyrirAð stofna og leiða Sameiningarkirkjuna
MakiChoi Sun-kil (g. 1945; sk. 1957)
Hak Ja Han (g. 1960)
Börn16

Sun Myung Moon (6. janúar 1920 – 3. september 2012) var suður-kóreskur trúarleiðtogi sem var jafnframt þekktur fyrir viðskiptaumsvif sín og stuðning sinn við ýmsa pólitíska málstaði. Moon var stofnandi og andlegur leiðtogi Sameiningarkirkjunnar, kristins söfnuðar sem gekk út á þá trúarkenningu að Moon sjálfur væri nýr Messías sem hefði verið falið að ljúka hjálpræðisverkinu sem Jesú mistókst að vinna fyrir 2000 árum. Fylgismenn Moons eru gjarnan kallaðir „Moonistar“ (e. Moonies).

Með framlögum fylgjenda sinna gerði Moon Sameiningarkirkjuna að viðskiptalegu stórveldi og varð sjálfur vellauðugur. Hann kom sér jafnframt í samband við marga valdsmenn og þjóðarleiðtoga á borð við Richard Nixon, George H. W. Bush, Míkhaíl Gorbatsjov og Kim Il-sung. Söfnuður Moons hefur ætíð verið umdeildur og gagnrýnendur hans líta jafnan á hann sem sértrúarsöfnuð sem heilaþvær og féflettir meðlimi sína. Moon sjálfur var um skeið fangelsaður fyrir skattsvik á níunda áratugnum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Sun Myung Moon fæddist árið 1920 í núverandi Norður-Kóreu, sem þá var undir stjórn Japana, inn í fátæka bændafjölskyldu.[1] Foreldrar hans tilheyrðu öldungakirkjunni og Moon sótti ungur samkomur hvítasunnumanna.[2]

Moon hélt því fram að á páskadagsmorgun 1936, þegar hann var sextán ára, hafi Jesús Kristur birst honum í sýn og falið honum að fullkomna hjálpræðisverk Messíasar, sem Jesú hefði mistekist að vinna fyrir 2000 árum. Að sögn Moons glímdi hann síðan næstu níu árin við Satan, sem á að hafa reynt að freista hans eða vekja hjá honum efasemdir um guðlega forsjón sína.[3]

Kenningar Moons gengu út á að tveir spámenn hefðu komið á undan honum en báðum hefði þeim mistekist það verk sitt að stofna Guðs ríki á jörðu. Sá fyrsti hefði verið Adam en honum hefði mistekist verkið þar sem hann lét Evu ginna sig til samræðis eftir að hún hafði haft kynferðismök við Satan og hafi hún þannig spillt honum. Næsti hefði verið Jesús en honum hefði mistekist hlutverk sitt vegna þess að Gyðingar drápu hann áður en hann gat eignast börn. Það hafi alltaf verið ætlun Guðs að Jesús skyldi kvænast og stofna hina fullkomnu fjölskyldu en þetta hafi farið forgörðum vegna krossfestingar hans.[4] Eftir andlát Jesú hafi djöfullinn getað leikið lausum hala á jörðinni. Hafi hann tekið sér bólfestu í Karli Marx og miðlað satanískum boðskap til mannkynsins í gegnum marxískar kennisetningar.[5]

Á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar hélt Moon í nám til Tókýó og útskrifaðist þar úr rafmagnsverkfræði við Waseda-háskóla. Moon sneri aftur til Kóreu eftir styrjöldina en lenti þar í ágreiningi við leiðtoga öldungakirkjunnar og var í kjölfarið vikið úr söfnuðinum. Hann ákvað að halda sjálfur til norðurhluta landsins til að boða trúna á eigin forsendum. Á meðan Moon var þar staddur braust Kóreustríðið út og kommúnistastjórn Norður-Kóreu lét handtaka hann fyrir trúboðsstörf hans.[1]

Moon var haldið í fangabúðum kommúnista í þrjú ár og sætti þar illri meðferð. Moon líkti reynslu sinni í fangabúðunum við píslargöngu Krists og sagði að með þjáningum sínum þar hefði hann frelsað mannkynið undan syndum sínum. Þegar herlið Sameinuðu þjóðanna gerði gagnsókn gegn kommúnistum var Moon frelsaður úr fangabúðunum, að eigin sögn á síðustu stundu.[1]

Forysta Moons í Sameiningarkirkjunni[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1954 stofnaði Moon formlega söfnuð í kringum trúarkenningar sínar sem hlaut nafnið Sameiningarkirkjan. Þremur árum síðar gaf hann út helsta trúarrit hreyfingarinnar, Hið guðdómlega lögmál, sem fylgjendur Moons líta á sem ígildi þriðja testaments Biblíunnar. Í kennisetningum kirkjunnar er kennt að allir sem afneita fagnaðarerindi Moons og Messíasar verði dæmdir til vistar í helvíti. Kristnir menn sem afneita Moon eru settir í hlutverk faríseanna og fræðimannanna sem ofsóttu Jesú.[3]

Moon stýrir fjöldabrúðkaupi árið 2010.

Söfnuður Moons varð einkum þekktur fyrir að standa fyrir fjöldabrúðkaupum þar sem meðlimir Sameiningarkirkjunnar eru gefnir saman. Fyrsta brúðkaup safnaðarins af þessu tagi var haldið árið 1961 og gengu þá 33 pör í það heilaga. Kirkjan hefur í seinni tíð gefið brúðhjón saman í tugþúsundatali í senn, gjarnan á leikvöngum eða öðrum fjöldasamkomustöðum. Árið 1999 gaf söfnuðurinn saman rúmlega 40 þúsund brúðhjón í fjöldabrúðkaupi og taldi það þá vera stærsta fjöldabrúðkaup sögunnar.[6] Í mörgum tilfellum höfðu brúðhjónin aldrei hist fyrir giftingarathöfnina, heldur hafði söfnuðurinn undir handleiðslu Moons parað meðlimi Sameiningarkirkjunnar saman.[6][7]

Í seinni tíð hélt Moon því fram að í sýnum hans hefði hann átt í samskiptum við menn á borð við Konfúsíus, Búdda og Múhameð og að hann hefði bjargað sálum Hitlers og Stalíns.[1]

Viðskiptaveldi Moons[breyta | breyta frumkóða]

Í Hinu guðdómlega lögmáli kenndi Moon jafnframt um „lögmál endurgjaldsins,“ sem gekk út á að greiða fyrir syndir sínar og forfeðra sinna með stöðugri vinnu. Í framkvæmd varð þetta til þess að margir fylgjendur Moons afhentu söfnuði hans allar bankainnistæður sínar og yfirgáfu fjölskyldur sínar.[2] Stjórn söfnuðarins á einkalífum og fjárhagi fylgjenda sinna og ágangur hans á nýja fylgjendur leiddi til þess að víða hefur verið litið á hann sem sértrúarsöfnuð.[8][9]

Með vinnu og fjárframlögum fylgjenda sinna reisti Moon mikið viðskiptaveldi og varð sjálfur vellauðugur. Á ferli sínum varð Moon hluthafi í fjölmörgum fyrirtækjum í fjölda landa. Meðal annars eignaðist söfnuðurinn vopnaverksmiðju í Suður-Kóreu og fyrirtæki sem framleiddi og flutti út Ginseng-te.[2] Á síðustu æviárum Moons var talið að til væru rúmlega 1.000 samtök sem ynnu beint eða óbeint að því að afla fjár fyrir Moon og söfnuð hans. Þar á meðal voru keðja apóteka, þakflísagerð, títaníumbræðsla, verksmiðjur, hótel og golfvöllur. Fyrirtæki tengd söfnuðinum urðu jafnframt frá árinu 1980 virk í fiskiðnaði Bandaríkjanna og margir af vinsælustu sushi-stöðum Chicago urðu háð þeim um fisk.[2] Moon lifði í miklum lystisemdum á þessum mikla auði og innan safnaðarins þótti það til marks um að hann nyti velþóknunar Guðs. Moon flutti til Bandaríkjanna árið 1972 og keypti sér þar herragarð og tvær lystisnekkjur.[4]

Pólitísk umsvif[breyta | breyta frumkóða]

Boðskapur Moons var einnig pólitískur í eðli sínu og söfnuður hans lét sig stjórnmál miklu varða. Moon var ötull andkommúnisti, sem féll vel í kramið hjá forseta Suður-Kóreu, einræðisherranum Park Chung-hee.[5] Söfnuðurinn hafði því velvild stjórnvalda í heimalandinu og gat beitt áhrifum sínum í alþjóðlegri baráttu gegn kommúnisma, sem Moon áleit versta óvin mannkynsins. Moon beitti fjármunum og fylgismönnum sínum til að koma sér í sambönd við ýmsa þjóðarleiðtoga og aðra áhrifamenn. Meðal annars varð Moon náinn vinur Richards Nixon Bandaríkjaforseta og áleit hann samherja sinn í baráttu gegn kommúnismanum. Þegar stjórn Nixons lék á reiðiskjálfi vegna Watergate-hneykslisins kom Moon honum til varnar og sendi stuðningsmenn sína til að sviðsetja samstöðumótmæli með forsetanum í Washington.[1]

Árið 1975 leiddi rannsókn bandarískra lögregluyfirvalda í ljós að söfnuður Moons hafði sent um 300 „huggulegar ungar stúlkur“ til þess að gerast sjálfboðaliðar í bandarískri stjórnsýslu og að sumar þeirra höfðu verið ráðnar í starfslið Bandaríkjaþings. Árið 2004 komu pólitískir bandamenn Moons því í kring að sérstök athöfn var haldin í einni af byggingum Bandaríkjaþings með viðveru tólf bandarískra þingmanna. Í athöfninni lagði einn þingmaðurinn ríkulega skreyttar kórónur á höfuð Moons og eiginkonu hans og krýndi Moon formlega „friðarkonunginn.“[1]

Moon stofnaði dagblaðið The Washington Times á níunda áratugnum og það varð brátt eitt af málgögnum Repúblikanaflokksins og íhaldsmanna í bandarískum stjórnmálum.[1] Í seinni tíð hafa margir stjórnmálaleiðtogar ávarpað samkomur Moonista eða veitt þeim liðsinni að öðru leyti í skiptum fyrir fjárhagslegan og pólitískan stuðning söfnuðarins. Meðal þeirra má nefna George H. W. Bush, George W. Bush, Donald Trump og Shinzō Abe.[10]

Þrátt fyrir andkommúnisma sinn vingaðist Moon í seinni tíð við Kim Il-sung, leiðtoga Norður-Kóreu, og fékk leyfi hans til að byggja upp iðnað í ríki hans.[1]

Fangavist fyrir skattsvik[breyta | breyta frumkóða]

Moon var sakfelldur fyrir skattsvik í Bandaríkjunum árið 1982 og dæmdur til átján mánaða fangelsisvistar.[11]

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Sun Myung Moon og eiginkona hans, Hak Ja Han.

Moon lést þann 3. september árið 2012 úr lungnabólgu, þá níutíu og tveggja ára að aldri.[12] Einingarkirkjan lýsti yfir þrettán daga sorgartímabili þar til Moon yrði jarðsettur.[13]

Fjölskylduhagir[breyta | breyta frumkóða]

Sun Myung Moon var tvíkvæntur. Hann kvæntist fyrri konu sinni, Choi Sun-kil, árið 1945 en yfirgaf hana vanfæra í Seúl þegar hann hélt norður til predikunarstarfa.[2]

Moon kvæntist seinni konu sinni, Hak Ja Han, árið 1960. Moon eignaðist alls þrettán börn með konum sínum. Einn sonur hans, Heung Jin Nim, lést í umferðarslysi árið 1984 og Moon lýsti því yfir að hann færi þaðan af með mál sín í himnaríki. Heung væri hinn himneski Kristur en Moon hinn jarðneski. Hin tólf börn Moons sagði hann að endurspegluðu tólf ættkvíslir Ísraels.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 Ásgeir Ingvarsson (23. maí 2010). „Hinn dularfulli hr. Moon“. SunnudagsMogginn. bls. 30-31.
 2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Gunnar Björnsson (1. desember 1976). „Máni frá Kóreu“. Kirkjuritið. bls. 296-300.
 3. 3,0 3,1 3,2 Guðmundur Karl Brynjarsson (1. september 1996). „Hver er ... séra Moon?“. Bjarmi. bls. 16-17.
 4. 4,0 4,1 Guðlaugur Bergmundsson (27. apríl 1979). „Máninn hátt á himni skín“. Helgarpósturinn. bls. 1-2.
 5. 5,0 5,1 „Nýr Messías frá S-Kóreu?“. Þjóðviljinn. 22. ágúst 1976. bls. 3; 18.
 6. 6,0 6,1 „Stærsta fjöldabrúðkaup sögunnar“. mbl.is. 2. september 1999. Sótt 5. ágúst 2022.
 7. Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir (16. júlí 2022). „Pauline var í sértrúarsöfnuði og send til Íslands að giftast bláókunnugum manni – ,,Ég bað guð um að senda mér tákn". DV. Sótt 5. ágúst 2022.
 8. „Eru sértrúarsöfnuðir hættulegir?“. Vísir. 22. nóvember 1980. bls. 6.
 9. „Hver er Moon og hvernig starfar söfnuður hans?“. Heimilistíminn. 10. ágúst 1978. bls. 4-6.
 10. „Morðinginn taldi Abe tengjast moonistum“. Fréttablaðið. 11. júlí 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. mars 2022. Sótt 2. ágúst 2022.
 11. „Moon sleppt úr fangelsi“. DV. 21. ágúst 1985. bls. 6.
 12. „Sun Myung Moon látinn“. RÚV. 2. september 2012. Sótt 2. ágúst 2022.
 13. „Sun Myung Moon er látinn“. Vísir. 3. september 2012. Sótt 2. ágúst 2022.