Park Chung-hee

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Park Chung-hee

Park Chung-hee (14. nóvember 1917 – 26. október 1979) var suðurkóreskur stjórnmálamaður sem var forseti Suður-Kóreu frá árinu 1963 þar til hann var ráðinn af dögum árið 1979. Hann tók við embætti forseta eftir að hafa í fyrstu ráðið yfir herstjórn landsins eftir valdarán þann 16. maí 1961. Fyrir forsetatíð sína var hann formaður Hæstaráðs þjóðarviðreisnar frá 1961 til 1963 og hafði þar áður verið herforingi í suðurkóreska hernum.

Valdarán Parks batt enda á bráðabirgðaríkisstjórn annars Kóreulýðveldisins og kjör hans til forseta árið 1963 kom á fót þriðja Kóreulýðveldinu. Árið 1972 kom Park á herlögum og umbreytti stjórnarskránni til að gera hana mun gerræðislegri. Þar með var stofnað fjórða Kóreulýðveldið.

Eftir að hafa lifað af margar morðtilraunir, þar af tvær af hálfu Norður-Kóreumanna, var Park ráðinn af dögum þann 26. október 1979 af návini sínum og bandamanni, Kim Jae-gyu, formanni suðurkóresku leyniþjónustunnar.[1] Kim myrti einnig Cha Ji-chul, foringja öryggisþjónustu forsetans. Eftir morðið var hann handtekinn ásamt vitorðsmönnum sínum, pyntaður, sakfelldur og tekinn af lífi á meðan Choi Kyu-hah forsætisráðherra gerðist bráðabirgðaforseti. Hershöfðinginn Chun Doo-hwan var fljótur að ná völdum eftir að öryggismálastjórn hans var falið að rannsaka óvænt morðið á forsetanum. Enn er óvíst hvort morðið var skyndiákvörðun, stundarbrjálæði eða undirbúið með fyrirvara og deilt er um ásetning Kims Jae-gyu.

Hagvöxtur hélt áfram eftir dauða Parks og lýðræði var að endingu komið á. Sumir síðari forsetar voru fyrrverandi andófsmenn sem höfðu verið handteknir í stjórnartíð Parks. Almenningur Suður-Kóreu hefur talið Park besta forseta landsins en hann er þó umdeildur í stjórnmálaumræðu. Aðdáendur hans þakka honum fyrir að viðhalda hagvexti eftir Kóreustríðið sem nútímavæddi Suður-Kóreu en gagnrýnendur líta á hann sem einræðisherra sem kramdi alla andstöðu og lagði of mikla áherslu á efnahaginn og samfélagsstöðugleika á kostnað mannréttinda.

Forsetabókasafn Parks Chung-hee var opnað árið 2012.[2] Þann 25. febrúar árið eftir var dóttir Parks, Park Geun-hye, kjörin fyrsti kvenforseti Suður-Kóreu og gegndi því embætti þar til hún neyddist til að segja af sér í kjölfar hneykslismála árið 2017.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „BBC News' "On this day"". . (BBC News). 26 October 1994. Skoðað 18 February 2013.
  2. http://presidentparkchunghee.org/new_html/html/eng/foundation_3.html
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist