Fara í innihald

Stepan Bandera

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stepan Bandera
Степан Бандера́
Fæddur1. janúar 1909
Dáinn15. október 1959 (50 ára)
ÞjóðerniÚkraínskur
MenntunFjöltækniháskólinn í Lvív
FlokkurSamtök úkraínskra þjóðernissinna (OÚN)
MakiJaroslava Bandera
Börn3
Undirskrift

Stepan Andríjovytsj Bandera (úkraínska: Степа́н Андрі́йович Банде́ра; 1. janúar 1909 – 15. október 1959) var úkraínskur fasískur stjórnmálamaður[1][2] sem leiddi öfgahægrisinnaðan hernaðarvæng Samtaka úkraínskra þjóðernissinna (OÚN).

Arfleifð og persóna Stepans Bandera eru afar umdeild í Úkraínu. Sumir Úkraínumenn, aðallega í vesturhluta landsins, líta á hann sem þjóðhetju sem lét lífið fyrir sjálfstæðisbaráttu landsins, en í austurhluta Úkraínu, í Póllandi, Rússlandi og Ísrael er hans fyrst og fremst minnst sem samstarfsmanns nasista, sem fjöldamorðingja og sem stríðsglæpamanns.

Æska og uppvöxtur[breyta | breyta frumkóða]

Bandera fæddist í Galisíu, sem er í dag í vesturhluta Úkraínu en var þá hluti af austurrísk-ungverska keisaradæminu.[3] Hann vildi nema við Tækni- og hagfræðiskólann í Poděbrady, sem var þá í Tékkóslóvakíu, en pólsk yfirvöld neituðu honum um ferðapassa þangað. Bandera hlaut því menntun í landbúnaðarfræði í Lwów (nú Lvív).

Seinni heimsstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

Á námsárum Bandera í Lwów, sem þá var hluti af Póllandi, hóf Bandera þátttöku í pólitísku starfi úkraínskra sjálfstæðissinna. Árið 1934 var forysta Samtaka úkraínskra þjóðernissinna (OÚN) handtekin vegna þátttöku í morðinu á pólska innanríkisráðherranum Bronisław Pieracki. Bandera var dæmdur til dauða en dómurinn var síðan mildaður í lífstíðarfangelsi. Eftir að Þjóðverjar og Sovétmenn gerðu sameiginlega innrás í Pólland í september 1939 misstu pólsk yfirvöld stjórnina og Bandera slapp úr fangelsi. Hann hélt áfram baráttu sinni fyrir sjálfstæði Úkraínu með OÚN.

Þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Sovétríkin þann 22. júní 1941 stóðu Bandera og OÚN fyrir skemmdarverkastarfsemi innan Sovétríkjanna til að aðstoða framrás Þjóðverja. Bandera komst hins vegar upp á kant við þýska hernámsliðið þegar OÚN gaf út yfirlýsingu um endurreisn sjálfstæðis Úkraínu þann 30. júní. Liðsmenn OÚN stóðu fyrir ofbeldishrinu gegn Gyðingum og Pólverjum samhliða yfirlýsingunni.[4][5] Þjóðverjar höfðu ekki hug á því að Úkraína yrði sjálfstætt ríki og því handtóku þeir Bandera þann 6. júlí.[3] Eftir handtökuna var Bandera sendur til dvalar í Sachsenhausen-fangabúðunum og dvaldi þar til september 1944.

Þegar rauði herinn hafði snúið vörn í sókn gegn Þjóðverjum og endurheimt stjórn í austurhluta Úkraínu árið 1944 létu Þjóðverjar sleppa Bandera úr haldi í von um að OÚN gætu hjálpað til við að hindra framsókn Sovétmanna. Bandera var því frjáls sinna ferða í september og kom sér upp höfuðstöðvum í Berlín til að hafa umsjón með þjálfun úkraínskra uppreisnarhermanna sem áttu að heyja skæruhernað á bak við varnarlínur Sovétmanna.[3]

Síðari æviár og dauði[breyta | breyta frumkóða]

Eftir seinni heimsstyrjöldina endurstofnaði Bandera samtök sín, OÚN-B, með aðstoð bresku leyniþjónustunnar MI6.[6] Hann fékk hins vegar ekki að snúa heim til úkraínska sovétlýðveldisins til að halda áfram baráttu gegn sovéskum stjórnvöldum.

Bandera var myrtur í München þann 15. október árið 1959 þegar sovéskur launmorðingi, Bohdan Stasjynskyj, byrlaði honum blásýru.[3] Stasjynskyj gekkst síðar við morðinu á Bandera og á öðrum svipuðum launmorðum. Morðið var skipað af þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, Níkíta Khrústsjov.[7]

Eftirmæli[breyta | breyta frumkóða]

Stytta af Stepan Bandera í Ternopíl í vesturhluta Úkraínu. Minnismerkið var afhjúpað árið 2008 í tilefni af hundrað ára afmæli Bandera næsta ár.

Árið 2010 lét Víktor Júsjtsjenko, þáverandi forseti Úkraínu, sæma Bandera titlinum „hetju Úkraínu“ (Герой України).[3] Eftirmaður Júsjtsjenko, Víktor Janúkovytsj, sem tók við embætti síðar sama ár, lét ógilda veitingu titilsins á þeim grundvelli að Bandera hefði aldrei haft úkraínskan ríkisborgararétt.[8] Veiting heiðurstitilsins var afar umdeild og var harðlega gagnrýnd af Póllandi, Rússlandi, félagasamtökum Gyðinga og af Simon Wiesenthal-miðstöðinni.[9][10][11]

Árið 2018 tók úkraínska þingið til umfjöllunar tillögu um að sæma Bandera aftur titli „hetju Úkraínu“. Tillagan var felld á þingi þegar kosið var um hana í ágúst 2019.[12]

Í stríði Rússlands og Úkraínu og einkum frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu 2022 hafa rússnesk stjórnvöld gjarnan bent á þá hylli sem Bandera nýtur enn meðal sumra úkraínskra þjóðernissinna til stuðnings fullyrðingum sínum um að Úkraínu sé stýrt af nasistum.[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Timothy Snyder (24. febrúar 2010). „A Fascist Hero in Democratic Kiev“ (enska). The New York Review of Books. Sótt 22. apríl 2023.
 2. Grzegorz Rossolinski-Liebe (2014). Stepan Bandera: The Life and Afterlife of a Ukrainian Nationalist – Fascism, Genocide, and Cult (enska). Ibidem Verlag. ISBN 978-3-8382-0686-8. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. febrúar 2015. Sótt 22. apríl 2023.
 3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 «Ukrainians march to honor 105th birthday of Stepan Bandera (1909-1959)», Kyiv Post, 2. janúar 2014 (enska).
 4. Rudling, Per A. (2011). „The OUN, the UPA and the Holocaust: A Study in the Manufacturing of Historical Myths“. The Carl Beck Papers in Russian and East European Studies (2107). doi:10.5195/CBP.2011.164. ISSN 2163-839X.
 5. Himka, John-Paul (2010). „The Organization of Ukrainian Nationalists and the Ukrainian Insurgent Army: Unwelcome Elements of an Identity Project“. Ab Imperio. 2010 (4): 83–101. doi:10.1353/imp.2010.0101. ISSN 2164-9731. S2CID 130590374.
 6. Stephen Dorril (2002). MI6: Inside the Covert World of Her Majesty's Secret Intelligence Service. Simon and Schuster. ISBN 9780743217781.
 7. „Launmorðinginn gaf sig fram“. Vísir. 28. ágúst 1962. bls. 6.
 8. „Higher Administrative Court rules Bandera's Hero of Ukraine title illegal“ (enska). Kyiv Post. 2. ágúst 2011. Sótt 22. apríl 2023.
 9. «Wiesenthal slams Ukraine award to nationalist», Associated Press, 29. janúar 2010, í gegnum boston.com (enska).
 10. „Poland slams Yushchenko honour“ (enska). Euronews.com. 6. febrúar 2010. Sótt 22. mars 2023.
 11. „Russian Jewish Federation denounces Ukraine's decision to award hero title to Bandera“ (enska). Kyiv Post. 25. janúar 2010. Sótt 22. mars 2023.
 12. Проект Постанови про звернення до Президента України щодо присвоєння звання Героя України Бандері Степану Андрійовичу (посмертно). Þing Úkraínu. Sótt 22. apríl 2018.
 13. Kristján Kristjánsson (27. mars 2022). „Telur að Pútín sé heilaþveginn af nýnasistamýtu“. DV. Sótt 22. apríl 2023.