Stefan Löfven
Stefan Löfven | |
---|---|
Forsætisráðherra Svíþjóðar | |
Í embætti 3. október 2014 – 30. nóvember 2021 | |
Þjóðhöfðingi | Karl 16. Gústaf |
Forveri | Fredrik Reinfeldt |
Eftirmaður | Magdalena Andersson |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 21. júlí 1957 Stokkhólmi, Svíþjóð |
Þjóðerni | Sænskur |
Stjórnmálaflokkur | Jafnaðarmannaflokkurinn |
Maki | Ulla Löfven (2003–)[1] |
Undirskrift |
Kjell Stefan Löfven (f. 21. júlí 1957) er sænskur stjórnmálamaður og fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar. Hann var kosinn formaður Jafnaðarmannaflokksins árið 2012 og forsætisráðherra Svíþjóðar 2014. Frá 2006 til 2012 starfaði hann sem formaður verkalýðsfélags málmiðnaðarmanna[2] og þar áður sem almennur málmiðnaðarmaður.
Löfven tók við af Fredrik Reinfeldt sem forsætisráðherra Svíþjóðar þann 3. október 2014 og fór fyrir minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins og sænska Græningjaflokksins.[3] Eftir sænsku þingkosningarnar árið 2018 kaus sænska þingið að víkja Löfven úr embætti forsætisráðherra[4] en hann sat enn í embætti sem leiðtogi starfsstjórnar á meðan flokkarnir unnu að því að mynda nýja stjórn.[5] Stjórnarkreppa ríkti í heila fjóra mánuði eftir kosningarnar en að endingu féllust Miðflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Vinstriflokkurinn á að styðja áframhaldandi stjórn Jafnaðarmanna og Græningja með Löfven sem forsætisráðherra.[6]
Ríkisstjórn Löfvens sprakk í júní 2021 eftir að þingið samþykkti vantrauststillögu gegn honum. Ástæðan var sú að stjórn hans hugðist aflétta þaki á leiguverði nýbygginga, sem þingmenn töldu svik við „sænsku leiðina“ í húsnæðismálum.[7] Löfven sagði í kjölfarið af sér en lýsti yfir vilja til að mynda nýja ríkisstjórn.[8]
Eftir afsögn Löfvens fékk Ulf Kristersson, formaður Hægriflokksins, umboð til að mynda ríkisstjórn en hafði ekki erindi sem erfiði. Í kjölfarið fékk Löfven aftur stjórnarmyndunarumboð og tókst að semja um nýja stjórn, aðeins níu dögum eftir að hann hafði sagt af sér.[9]
Í ágúst 2021 tilkynnti Löfven að hann hygðist segja af sér sem formaður Jafnaðarmannaflokksins og forsætisráðherra á landsþingi flokksins í nóvember.[10] Magdalena Andersson tók við af Löfven sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins þann 5. nóvember 2021[11] Andersson var kjörin nýr forsætisráðherra Svíþjóðar þann 24. nóvember.[12] en sagði af sér vegna höfnunar þingsins á fjárlagafrumvarpi hennar aðeins sjö klukkustundum síðar.[13] Löfven sat sem forsætisráðherra til 30. nóvember, en þá tók Andersson við sem forsætisráðherra minnihlutastjórnar.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Löfven blev kär i en gift kvinna. Aftonbladet. Sótt 25 mars 2018.
- ↑ „Ordförandens sida“ (sænska). IF Metall. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. október 2014. Sótt 26. janúar 2012.
- ↑ „Sverige har fått en ny Statsminister“. Sótt 8. febrúar 2014.
- ↑ „Löfven vikið úr embætti forsætisráðherra“. Vísir. 25. september 2018. Sótt 29. september 2018.
- ↑ Hans Olsson (25. september 2018). „Löfven leder övergångsregering“ (sænska). DN.SE. Sótt 25. september 2018.
- ↑ „Löfven verður forsætisráðherra“. mbl.is. 18. janúar 2019. Sótt 20. janúar 2019.
- ↑ Ingunn Lára Kristjánsdóttir (21. janúar 2021). „Ríkisstjórn Löfven fallin“. Fréttablaðið. Sótt 21. júní 2021.
- ↑ Atli Ísleifsson (28. júní 2021). „Löfven segir af sér og hyggst reyna að mynda nýja stjórn“. Vísir. Sótt 28. júní 2021.
- ↑ Ingunn Lára Kristjánsdóttir (7. júlí 2021). „Löfven snýr aftur“. Fréttablaðið. Sótt 11. júlí 2021.
- ↑ Kristín Ólafsdóttir (22. ágúst 2021). „Hættir sem forsætisráðherra og formaður“. Vísir. Sótt 22. ágúst 2021.
- ↑ Atli Ísleifsson (5. nóvember 2021). „Andersson tekin við sem formaður af Löfven“. Vísir. Sótt 7. nóvember 2021.
- ↑ Atli Ísleifsson (24. nóvember 2021). „Fyrst kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra í Svíþjóð“. Vísir. Sótt 24. nóvember 2021.
- ↑ Alexander Kristjánsson; Ásgeir Tómasson (24. nóvember 2021). „Andersson biðst lausnar eftir sjö tíma í embætti“. RÚV. Sótt 24. nóvember 2021.
Fyrirrennari: Fredrik Reinfeldt |
|
Eftirmaður: Magdalena Andersson |