Sjálfsbjörg
Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra er hagsmunasamtök hreyfihamlaðra á Íslandi. Út um allt land eru Sjálfsbjargarfélög sem eru aðilar í landssambandinu. Í 3. grein laga þeirra segir að hlutverk þeirra sé m.a.; „að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra, á öllum sviðum þjóðlífsins, með því að hafa áhrif á ríkis- og sveitarstjórnir, hagsmunasamtök og einstaklinga og með því að vekja áhuga almennings á málefnum þeirra með útgáfu og kynningarstarfsemi.“ Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra rekur Hjálpartækjaleigu Sjálfsbjargar.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta Sjálfsbjargarfélagið var stofnað á Siglufirði þann 9. júní 1958 og á sama ári voru stofnuð félög í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og í Árnessýslu. Landssamband Sjálfsbjargar var svo stofnað ári seinna, 4. júní 1959 og sama ár bætast við félög í Bolungarvík og í Vestmannaeyjum. Árið 1960 á Húsavík, 1961 á Suðurnesjum og 1962 á Sauðárkróki.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) var stofnað árið 1961 en Ólöf Ríkarðsdóttir, ritari Sjálfsbjargar hafði frumkvæði að því. Í dag er Sjálfsbjörg aðildarfélag ÖBÍ. Árið 1963 hóf Sjálfsbjörg samstarf við norræn systursamtök í gegnum Nordisk Handikap Förbund. Sama ár gefa aðildarfélögin Sjálfsbjörgu fundarhamar úr fílabeini eftir Ríkarð Jónsson, myndhöggvara. Ríkarður samdi vísubrot sem síðan þá hefur verið einkunnarorð samtakanna „Alltaf beita upp í vindinn, eygja, klífa hæsta tindinn“.
Árið 1970 voru Sjálfsbjargarfélög stofnuð í Stykkishólmi, á Akranesi árið 1970 og árið 1974 í Neskaupstað. Sjálfsbjörg kom að stofnun Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík ásamt ÍSÍ árið 1974. Árið 1976 kom Sjálfsbjörg að stofnun Hjálpartækjabankans sem var seldur Össuri hf. árið 1995. Sjálfsbjörg skipulagði „jafnréttisgöngu“ fatlaðra 1978 í tilefni árs fatlaðra og um 10 þúsund manns mæta á baráttufund til að sýna stuðning við fatlaða.
Árið 1981 var stofnað Sjálfsbjargarfélag í Austur-Húnavatnssýslu, árið 1984 á Höfn í Hornafirði og á Vopnafirði árið 1991. Þá voru félögin innan landssambandsins orðin 16. Árið 1993 tók hópur manna sig saman og stofnaði „Hollvini Sjálfsbjargar“, samtök einstaklinga sem leggur reglulega fram fasta upphæð til styrktar samtökunum. Árið 1996 gerðist Félag heilablóðfallsskaðaðra aðili að Sjálfsbjörg.