Fara í innihald

Saga stjórnleysisstefnu

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
William Godwin

Saga stjórnleysisstefnu er venjulega talin hefjast í uppafi 18. aldar en sumir telja þó að stjórnleysisstefnu–fyrirkomulag hafi verið að finna í forsögulegum menningarsamfélögum (það er þó afar umdeilt). Hugmyndir sem telja má líkar komu fram í fornöld og hafa sumir stjórnleysingjar tileinkað sér Taóisma sem auðuga uppsprettu hugmynda. Einnig er hægt að finna svipaðar hugmyndir meðal heimspekinga Forn-Grikkja, þ.á m. Zenons, upphafsmanns stóuspekinnar. Nokkrir stjórnleysingjar hafa enn fremur dregið hugmyndir sínar úr kristni.

Fyrsti nútímahöfundurinn sem mælti með aflagningu ríkisvalds var William Godwin, en sú skoðun kom fram í Fyrirspurn varðandi pólitískt réttlæti, sem kom út 1793. Stjórnleysi var notað sem móðgandi heiti gegn vinstri vængnum í frönsku byltingunni, en prentarinn Pierre-Joseph Proudhon tók það upp til að lýsa stefnu sinni í ritinu Hvað er einkaeign? árið 1840.

Upphaf nútímahreyfingarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
Pierre Joseph Proudhon

Hreyfingin er yfirleitt talin byrja með öðrum hvorum þeirra Godwin eða Proudhon. Fleiri höfundar sem höfðu afgerandi áhrif á síðari tíma stjórnleysingja, þar á meðal Max Stirner og Josiah Warren skrifuðu á sama tíma, en þeir titluðu sig ekki stjórnleysingja, eins og Proudhon gerði. Samfélagsskipan í Evrópu var í miklu róti á þessum tíma, en þessir höfundar voru að mestu tengdir gamla skipulaginu; sérstaklega var greinilegt að hugmyndir Proudhon og Warren gerðu ráð fyrir samfélagi sjálfstæðra atvinnurekenda. Aðrir, t.a.m. Mikhaíl Bakúnín, voru nátengdari samfélaginu sem var að myndast, þar sem fjöldinn allur af eignalausum verkamönnum flæktist um. Áhrifin sem þetta hafði á hann, ásamt með samskiptum við Proudhon, varð til þess að Bakunin varð leiðandi hugmyndasmiður í verkalýðshreyfingum í nokkrum Evrópulöndum, ásamt t.d. Élisée Reclus.

Byltingar og bótaferli

[breyta | breyta frumkóða]

Proudhon hafði haldið fram gagnsemi hægfara umbóta til þess að koma samfélagshugmyndum sínum í framkvæmd. Bakunin áleit hinsvegar að byltingar væri þörf. Þrátt fyrir þetta tóku þeir báðir þátt í byltingunum í Frakklandi 1848. Proudhon bauð sig fram sem þingfulltrúa; Bakunin þvældist í götubardögum. Það sama ár birtist Kommúnistaávarpið eftir Karl Marx. Í hringiðu mismunandi jafnaðarstefnustrauma sem erfitt var að henda reiður á varð fljótlega hægt að greina þrjá nýja strauma: Samvinnuhyggju í anda Proudhon, samyrkjustefnu Bakunins, og svo sameignarstefnu Marx. Fólk sem tengdist öllum þessum straumum kom að stofnun fyrsta alþjóðasambandsins. Deilum Marx við stjórnleysingjana — fyrst og fremst Bakunin, sem var óbifandi andstæðingur pólitískra hugmynda Marx — lauk með því að stjórnleysingjum var vísað úr sambandinu. Margir rekja andúð þá sem síðan hefur verið sterk milli stjórnleysingja og Marxista til þessa atburða.

Verkalýðshreyfingin í BNA var mun minni og veikari, og hafði lengi mun minna af þróun stjórnleysisstefnu þar í landi að segja. Þar þróuðu menn á borð við Lysander Spooner og Benjamin Tucker hugmyndir Proudhon áfram í aðra átt en Evrópumennirnir og héldu inni atriðum á borð við markaðshyggju og umbótastefnu undir nafni stjórnlausrar einstaklingshyggju og gerðu ráð fyrir samfélagi sjálfstæðra atvinnurekenda líkt og Proudhon og Warren gerðu, meðan ein grunnhugmynd stjórnleysis hefur almennt verið meiri sameign. Aðrir héldu áfram með hugmyndir Proudhon um nýjar gerðir gjaldmiðla.

Í upphafi tuttugustu aldar

[breyta | breyta frumkóða]
Errico Malatesta

Um 1890 og nokkuð fram yfir aldamót myndaðist nokkuð öflug hreyfing innan frönsku verkalýðshreyfingarinnar; þessi hreyfing var nefnd ‚syndikalism‘, sem má nokkurn veginn þýða sem samtakahyggja. Grunnforsendur samtakahyggjunnar voru þær að verkalýðsfélög væru helsta og besta aðferð öreigastéttarinnar til að ná völdum í samfélaginu. Hugmyndir samtakahyggjumanna fóru því að verulegu leyti saman við hugmyndir stjórnleysingja á borð við Bakunin, sem einnig hafði haldið fram mikilvægi verkalýðsfélaga.

Samtakahyggja náði talsverðum árangri, og varð hún ráðandi afl í frönsku verkalýðshreyfingunni um tíma, og á Spáni allt fram til ósigurs C.N.T./F.A.I. í borgarastríði á árunum 1936–1939. Ameríska verkalýðsfélagið Industrial Workers of the World hafði einnig áhrif langt út fyrir það sem meðlimatölur gefa í skyn.

Á svipuðum tíma lögðu aðrir stjórnleysingjar áherslu á mikilvægi annarra en verkamanna í heildarhreyfingunni. Ennfremur lögðu þeir áherslu á vandkvæðin á því að ákvarða eðlileg laun fyrir vinnu, og vildu almennt afnema alla skömmtun á veraldlegum gæðum — vildu s.s. hreina sameignarhyggju. Áberandi talsmenn þeirrar hugmyndar voru m.a. Pjotr Kropotkin og Errico Malatesta. Áhrif þeirra hafa einnig verið mikil, en einkum má benda á Úkraínu, þar sem svarti herinn hafði mikil áhrif frá 1917 til 1921. Einnig höfðu hugmyndir þeirra talsverð ítök á Spáni og hafa verið nokkuð sterkar í rómönsku Ameríku.

Spænska borgarastríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Í borgarastríðinu sem hófst á Spáni árið 1936 voru stjórnleysingjar áberandi, og í norðausturhéruðum Spánar voru stjórnleysingjar ráðandi afl um tíma. Fyrir áhrif þeirra breyttust Katalónía og Aragónía í einskonar sósíalistasvæði um tíma, og samfélagsbreytingar þar urðu mun víðtækari en annars staðar á svæði lýðveldissinna. Efnahagskerfi svæðisins, sem var í molum bæði eftir kreppuna miklu og uppreisn fasista, var tekið yfir af verkamönnum.

Ástandið entist þó ekki lengi. Lýðveldið varð að verjast ásókn fasistahersins, en hafði til þess litla getu. Frakkar og Bretar tóku sig saman um að setja Spán í hafnbann á meðan á stríðinu stæði; því var einskis stuðnings að vænta frá öðrum lýðræðisríkjum heimsins. Sovétríkin sendu þó hergögn og nokkra aðstoð gegn u.þ.b. helmingi gullforða lýðveldisins. Á meðan sendu Hitler og Mussolini heilar hersveitir á vettvang og einræðisstjórnin í Portúgal veitti opinskátt aðstoð yfir landamærin. Misvægið sem þannig myndaðist og almennt álit manna að lýðveldisöflin yrðu að vinna saman gegn fasistum leiddi til þess að yfirstjórn C.N.T. gerði hið ómögulega: Stjórnleysingjar tóku sæti í ríkisstjórn. Í kjölfarið dró úr byltingaranda landsmanna; hersveitir stjórnleysingja, sem margar hverjar höfðu náð góðum árangri, voru felldar inn í almenna herinn og hægt og bítandi færðust völdin á hendur kommúnistaflokknum.

Í byrjun maí 1937 brutust út óeirðir í Barcelona í kjölfar árásar lögreglusveita á símstöð sem framkvæmd var eftir skipun frá kommúnistaflokknum. Leiðtogar C.N.T. hvöttu félagsmenn til að leggja niður vopn sín, sem gerðist að lokum. Eftir þetta var P.O.U.M., flokkur tengdur trotskíistum, bannaður undir því yfirskyni að hann hafi verið njósnahópur fyrir þýska og ítalska fasista. Áhrif stjórnleysingja snardvínuðu eftir þessa atburði.

Kalda stríðið

[breyta | breyta frumkóða]
Noam Chomsky

Stjórnleysisstefna gleymdist að miklu leyti eftir seinni heimsstyrjöld, þar sem heiminum var skipt í áhrifasvæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, og í stjórnmálaumræðu komst ekkert fyrir nema kapítalismi og kommúnismi – sem menn kynntu gjarnan sem baráttu milli frelsis og gerræðis.

Yfirlýstir stjórnleysingjar tóku lítinn þátt í flestum byltingum og uppreisnartilraunum sem áttu sér stað eftir heimsstyrjöldina, en allnokkrar þeirra hafa fallið mjög vel að hugmyndum þeirra; t.a.m. í Ungverjalandi árið 1956 og í París 1968. Á umrótsskeiði sjöunda áratugarins kom þó fram nokkuð af nýstárlegri fræðihugsun, og sérstaklega hófu umhverfis- og jafnréttissinnar að láta kveða að sér; stjórnlaus jafnréttishyggja og stjórnlaus umhverfisstefna koma báðar fram sem sjálfstæðar hugmyndastefnur á þessum tíma. Aukið frjálslyndi í Marxisma hafði einnig þau áhrif að víxlverkun milli stjórnleysisstefnu og Marxista af ýmsu tagi jókst á ný.

Upphaf 21. aldar

[breyta | breyta frumkóða]

Fylgi stjórnleysisstefnu hefur heldur farið vaxandi á síðustu árum, en endurkoma víðtækra and-kapítalistahreyfinga og andstæðinga svonefndrar hnattvæðingar hefur að miklu leyti byggst á hugmyndum hennar. Mótmælafundurinn í Seattle árið 1999 markaði á nokkurn hátt tímamót í hreyfingunni, en Indymedia var m.a. sett á fót skömmu eftir fundinn. Einnig vakti svarta sveitin talsverða athygli þar.

Margir hafa sagt að nýleg tækniþróun hafi gert mun auðveldara að kynna stjórnleysisstefnu fyrir fólki, en sérstaklega má benda á notkun farsíma eða internets til að skipuleggja og koma saman laustengdum hópum sem oft starfa óafvitandi eftir hugmyndum stjórnleysingja. Margir stjórnleysingar tengja einnig hreyfinguna í kringum frjálsan hugbúnað við stefnuna.