Fara í innihald

Hústaka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alþjóðamerki hústökufólks

Hústaka er verknaður sem felst í að flytja í yfirgefið eða autt húsnæði, oftast íbúðarhúsnæði sem hústökufólkið hvorki á, leigir né hefur heimild til að nota. Hústaka er algengari í borgum en sveitum og sérstaklega algeng þegar borgir, borgarhverfi eða einstök hús eru í niðurníðslu. Hústaka skiptist yfirleitt annarsvegar í innbrot utangarðs- og heimilislaus fólks[1] og hinsvegar ýmiskonar mótmæli.[2]

Hústak sem mótmæli

[breyta | breyta frumkóða]

Hústaka er oftast samfélags- eða stjórnmálaleg aðgerð til að mótmæla því að eigendur húsnæðis láta þau standa tóm og drabbast niður til að knýja á um að fá að rífa þau og byggja ný. Oft er þetta aðferð eigenda viðkomandi húsnæðis eftir að yfirvöld hafa synjað ósk um að fá að rífa viðkomandi hús. Oft er einnig verið að mótmæla ýmsum öðrum fyrirhugaðri notkun svæðis þar sem yfirgefin hús standa og á að rífa. Hústaka tengist einnig hugmyndinni um sameignarrekstur í stað séreignar, þar sem hústökufólk ræður sínum ráðum sjálft án utanaðkomandi aðila og rekur viðkomandi eign eða svæði án þess þó að vera skráðir eigendur hennar og án þáttöku löglega skráðs eigenda.

Þekktar hústökur

[breyta | breyta frumkóða]
Hlið Kristjaníu á Kristjánshöfn

Ein þekktasta hústaka er Fríríkið Kristjanía í Kaupmannahöfn þar sem árið 1971 hópur fólks íbúar frá Kristjánshöfn brutust inn á afgirt svæði þar sem stóðu yfirgefnar herbúðir (Baadsmandsstræde Kaserne). Ástæðan var sú að óánægðir foreldrar óskuðu eftir leikvelli fyrir börn sín og tóku málið í eigin hendur. Fljótlega fluttu þó hippar og ýmsir heimilislausir einstaklingar inn og settust að í tómum byggingunum. Árum saman reyndu yfirvöld með hálfum huga að fjarlægja íbúana, en það hefur enn ekki tekist, að hluta til vegna almenns stuðnings dönsku þjóðarinnar við fríríkið.

Hústökur á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]
  • 5. apríl 2008 braust hústökufólk inn í húsnæðið á Klapparstíg í Reykjarvík sem áður hafði hýst skemmtistaðinn Sirkus og hélt þar tónleika og boðaði frekari aðgerðir. Í yfirlýsingu hópsins sagði orðrétt: „Í ljósi aðgerðaleysis yfirvalda gagnvart vísvitandi vanrækslu auðmagnsins á húsnæði í eigu þess er nauðsynlegt að við tökum málin í eigin hendur. [...] Ef hús standa ónotuð og í niðurníðslu hafa eigendur þeirra fyrirgert eignar- og afnotarétti sínum af þeim og það er skylda okkar og réttur að grípa inn í og nýtahúsin.“[3]
  • 9. apríl 2009 flutti hústökufólk inn í hús við Vatnsstíg 4 í Reykjavík. Orðrétt var haft eftir Arnari Þórissyni, einum úr hópi hústökufólksins um hví þau tækju húsið yfir: „Við erum að byggja upp nýtt samfélag, okkar eigið samfélag, og þetta hús verður notað undir listsköpun og róttæka starfsemi af ýmsu tagi,“ Húsið hafði staðið autt um nokkurt skeið og byrjaði fólkið á því að þrífa það og gera byggilegt.[4] Að ósk eiganda hússins gaf lögreglan hústökufólkinu frest til klukkan 4 þann 14. apríl en fólkið neitaði að yfirgefa húsið. Ástæðan sem eigandinn gaf upp var að ýmsar slysahættur væru í húsinu og hann sægi ekki neinn mun á þessu fólki og utangarðmönnum sem honum hafði verið gert skilt að halda frá húsinu. Fólk sem studdi hústökuna safnaðist saman þennan dag bæði á götunni fyrir utan og inni í húsinu og hugðist veita lögreglunni mótstöðu en lögreglan sagði aftur á móti að það hefði verið misskilningur að hún hefði ætlað grípa til aðgerða strax ef ekki yrði við ósk þeirra um að yfirgefa húsið.[5] Dagin eftir, 15. apríl, réðst svo 40 manna sveit lögreglumanna inn í húsið og handtóku 22. Kom til nokkura átaka þar sem hústökufólkið varðist með því að henda út húsgögnum og öðru lauslegu yfir lögregluna. Auk þess hafði hústökufólkið neglt fyrir stigaopið upp á efrihæð hússins og þurfti lögreglan að beita keðjusög til að komast upp.[6]
  • 9. febrúar 2010 lagði hópur myndlistarnema við Listaháskóla Íslands undir sig autt hús að Lindargötu 49 sem var í eigu Eimskipafélags Íslands en hústökufólkið hélt að væri í eigu Reykjavíkurborgar. Vildi fólkið með þessari aðgerð vekja athygli á því aðstöðuleysi sem hústökufólkinu fannst að listamenn byggju við og nýta húsnæðið fyrir myndlistarsýningar. En þegar hústökufólkið uppgötvuðu misskilning sinn um hver ætti húsið höfðu þau samband við eigendurnar sem lýstu því yfir að þeir hygðust ekkert gera í málinu. Var lengi rekið listagallerí í þessu húsi sem almennt gekk undir nafninu Gula húsið eða þar til eigendurnir tilkynntu að nú ætti að rífa húsið til að byggja á lóðinni en þá hafði gallerírekstrinum verið hætt og eingöngu héldu til þar útigangsfólk.[7]
  • 2. apríl 2010 tók hópur fólks húsið að Vesturgötu 51 í Reykjavík en þá hafði utangarðsfólk hafist við í húsinu og húsið í niðurníðslu. Lýsti hústökufólkið því yfir að það ætlaði að breyta húsinu í félagsrými, reka starfsemi gegn auðvaldinu og elda saman sem dæmi.
  • Einnig voru mótmælin árið 1972 við fyrirhugað niðurrif húsanna á Bernhöftstorfunni í miðborg Reykjarvíkur mótmælti í líkingu við hústöku en þar tók sig til hópur fólks og málaði húsin til að sýna fram á hversu mikil prýði væri að þeim ef þau væru gerð upp í stað þess að vera rifin. Á það var að lokum fallist og Torfusamtökin sem stofnuð höfðu verið árið áður til að mótmæla fyrirhuguðu niðurrifi stóðu að uppbyggingu húsanna.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Fólk götunar: Ástand en ekki lífsstíll“. Morgunblaðið. Sótt 8. nóvember 2014.
  2. „FÓnotuð hús tekin traustataki: Hústökur í pólitísku skyni eru ný aðferð á Íslandi“. Morgunblaðið. Sótt 8. nóvember 2014.
  3. „Telja sér skylt að nýta húsin“. Fréttablaðið. Sótt 8. nóvember 2014.
  4. „Hústökufólk á Vatnsstíg: Félagsmiðstöð í auðu húsi“. Fréttablaðið. Sótt 8. nóvember 2014.
  5. „Hústökufólki á Vatnsstíg veittur frestur en lögregla lét ekki sjá sig: Lýstu yfir sigri gegn lögreglu“. Fréttablaðið. Sótt 8. nóvember 2014.
  6. „Þurftu keðjusög til að brjóta sér leið upp stigann“. Morgunblaðið. Sótt 8. nóvember 2014.
  7. „Lögðu undir sig hús Eimskipafélagsins fyrir misskilning“. Morgunblaðið. Sótt 8. nóvember 2014.
  Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.