Stjórnleysis-samtakahyggja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rauðsvarti fáninn, sem hefur frá upphafi verið tengdur stjórnleysis samtakahyggju.

Stjórnleysis-samtakahyggja (e. anarkó-syndikalismi) er sú grein stjórnleysisstefnunnar sem leggur megináherslu á að verkafólk taki yfir vinnustaði sína og stýri þeim sjálft. Til að ná þessu markmiði leggur samtakahyggjan höfuð áherslu á samstöðu verkafólks, styrk verkalýðsfélaga og nauðsyn beinna aðgerða. Þau taka þátt í verkalýðsfélögum í því skyni að gera úr þeim öfluga byltingarhreyfingu sem myndi síðan mynda grunninn að samfélagsskipulaginu eftir byltingu. Stjórnleysis-samtakahyggjufólk lítur á verkalýðshreyfinguna sem megintæki öreigastéttarinnar og telja að með allsherjarverkfalli hennar megi kollvarpa kapítalismanum sem er eitt megin markmið þeirra.

Verkalýðsfélög með samtakahyggju að leiðarljósi hafa náð allnokkrum árangri meðal annars á Spáni, Frakklandi og Rómönsku-Ameríku. Uppbygging þeirra er nokkuð frábrugðin hefðbundnum verkalýðsfélögum sem skýrist af ofangreindum hugmyndum. Til að mynda gera þau ekki greinarmun eftir starfsgreinum; allir verkamenn á tilteknum vinnustað tilheyra sama verkalýðsfélaginu og taka sameiginlegar ákvarðanir. Ákvarðanir teknar þannig eru ennfremur ekki háðar samþykki neinna yfirmanna; efri lög samtakanna hafa ekki skipanavald yfir þeim neðri. Þannig er samtakahyggja form ráðstjórnar. Hver vinnustaður sendir svo málsvara á fundi fleiri vinnustaða – til dæmis fundi mismunandi hluta einnar verksmiðju, allra fyrirtækja í bæjarfélagi eða allra félaga í sama iðnaði.

Samtakasinnar telja að gagnslaust sé að nota óbeinar aðgerðir, eins og kjör þingfulltrúa eða samningaviðræður einar saman, til að bæta kjör verkamanna; heldur sé nauðsynlegt að beita öllum tiltækum aðferðum, sérstaklega verkföllum og öðrum beinum aðgerðum.