Fara í innihald

Ningxia

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ningsia)
Landakort sem sýnir legu Ningxia sjálfstjórnarhéraðs í norðvesturhluta Kína.
Kort af legu Ningxia sjálfstjórnarhéraðs í Kína.

Ningxia (eða Ningsia) (kínverska: 宁夏; rómönskun: Níngxià) er landlukt sjálfstjórnarhérað í norðvesturhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Það var gert að sjálfstæðu svæði fyrir Hui-þjóðina árið 1958, sem telja um þriðjung íbúa Ningxia. Stærstur hluti héraðsins er eyðimörk með vindborin setlög (fokset), en á hinni víðáttumiklu sléttu í norðri hefur Gulafljóts verið nýtt til áveitna fyrir landbúnað í aldaraðir. Kínamúrinn markar norðausturmörk þess. Héraðið er dreifbýlt og fremur fátækt, þar sem flestir stunda beit og ræktun landsins, einkum hveiti og hrísgrjónabúskap byggðan á flóknu kerfi fornra og nýrra áveituskurða. Íbúafjöldi árið 2020 um 7.2 milljónir. Höfuðborgin Yinchuan er staðsett í norðri vestur af Gulafljóti. Opinbert heiti héraðsins er: Sjálfstjórnarhéraðið Ningxia Hui.

Landfræðileg afmörkun

[breyta | breyta frumkóða]

Ningxia er í norðvesturhluta Kína. Stærstur hluti þess er strjálbýl eyðimörk með vindborin setlög (fokset), en á hinni víðáttumiklu sléttu í norðri hefur Gulafljóts verið nýtt til áveitna fyrir landbúnað í aldaraðir.

Landlukt héraðið afmarkast til austurs að hluta af Shaanxi héraði; til austurs, suðurs og vesturs af Gansu héraði; og í norðri af sjálfstjórnarsvæðinu Innri Mongólíu. Kínamúr liggur með norðausturmörkum þess.

Héraðið nær yfir 66.400 ferkílómetrar svæði.

Landssvæðið sunnan Gulafljóts var fellt inn í Qin veldið á 3. öld f.Kr. en þá voru múrar reistir um allt svæðið. Mikilir áveituskurðir voru síðan gerðir á sléttunum við Gulafljót á valdatíma Qin veldisins (221–207 f.Kr.), Hanveldisins (206 f.Kr. – 220 e.Kr.) og Tangveldisins (618–907).

Núverandi Ningxia var næstum öll innan hins forna Xia-veldisins á 11.-13. öld, sem stofnað var af Tangut þjóðinni. Hún náði verulegum árangri í bókmenntum, myndlist, tónlist og arkitektúr, og fundu upp hið forna Tangut ritkerfi. Xia-veldið var þekkt í Kína sem Xi („vestur“) Xia. Eftir landvinninga Djengis Khan var svæðið kallað Ningxia („Hið friðsama Xia“).

Með hnignandi völdum mongóla og tóku tyrkneskumælandi múslimar að flytja sig um set til vesturs. Ningxia varð þá í auknum mæli undir íslömskum áhrifum. Afkomendur landnema múslima héldu aðgreiningu frá kínversku samfélagi. Um miðja 19. öld flæktist Ningxia inn í almenna uppreisn múslima í norðvestur Kína og togstreita milli Han kínverja og Hui múslima hélst langt fram á 20. öld. Eftir 1911 komst svæðið undir stjórn múslimskra stríðsherra. Það var átakasvæði allt tímabilið milli fyrri heimsstyrjaldar og síðari.

Ningxia hérað var síðan innlimað í Gansu hérað árið 1954 en aftur skilið frá því 1958. Það var þá endurreist sem sjálfstætt svæði fyrir múslima af Hui þjóðflokknum, eitt af 56 opinberlega viðurkenndum þjóðernum Kína.

Samkvæmt manntaæli Kína sem framkvæmt var árið 2020 eru íbúar héraðsins 7.202.654.

Han-Kínverjar eru í meirihluta íbúa Ningxiaen, en meir en þriðjungur eru múslimar af Hui þjóðflokknum. Aðrir minnihlutahópar er Manchu, Tíbetar og Mongólar. Flest allir talar mandarín kínversku, en sumir tala tíbetsku og mongólsku. Ríkjandi trúarbrögð eru íslam og búddismi.

Ningxia hefur verið talið eitt af vanþróuðustu og fátækustu svæðum Kína. Lengi framan af treystu íbúar á beit dýra og sjálfsþurftarbúskap.

Héraðið er dreifbýlt, þar sem flestir stunda beit og ræktun landsins. Á háléttum er aðallega hveiti og hrísgrjónabúskapur sem byggður er á flóknu kerfi fornra og nýrra áveituskurða. Þetta kerfi (1397 kílómetrar) hefur verið byggt upp í um 2000 ár eða frá tímum Qin-veldisins. Það hefur gert aukna ræktun mögulega og bætt afrakstur landbúnaðar með umfangsmiklum landgræðslu- og áveituverkefnum á harðgerum svæðum.

Nokkuð er um ræktun hafþyrnaberja (goji) sem notuð eru í hefðbundinni kínverskri læknisfræði. Einnig er ræktun sykurrófa, melóna, apríkósa og annarra ávexta.

Víngerð sem hófst á níunda áratug síðustu aldar hefur orðið efnahagslega mikilvæg héraðinu. Þar voru árið 2017 um 40.000 hektarar af vínekrum sem gáfu af sér fjórðung allrar vín framleiðslu Kína.

Á blönduðu landbúnaðar- og beitarsvæðum er alið hágæða fjallsauðfé (argali- Ovis ammon), ættað frá austurhluta Mongólíu. Ull þess þykir mjúk, hvít og gljáandi.

Í hinum dreifðu borgum sinna íbúar handverki. Frá árinu 1949 hefur stækkandi hópur atvinnu af námuvinnslu og framleiðslu. Jarðefnaauðlindir héraðsins eru einkum kol. Ningxia er nú einn helsti grunnur kolanámu og varmaorkuframleiðslu í Norður-Kína. Einnig er að finna í héraðinu jarðolíu, jarðgas, gifs, kvarsandstein, barít, kísil og kalkstein.


  • Ensk vefsíða Encyclopaedia Britannica um Ningxia. Inniheldur ýmsar upplýsingar um héraðið t.d. sögu, landslag, skipulag og markverða staði.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]