Fara í innihald

Mitt Romney

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mitt Romney
Öldungadeildarþingmaður fyrir Utah
Núverandi
Tók við embætti
3. janúar 2019
ForveriOrrin Hatch
Fylkisstjóri Massachusetts
Í embætti
2. janúar 2003 – 4. janúar 2007
VararíkisstjóriKerry Healey
ForveriJane Swift (starfandi)
EftirmaðurDeval Patrick
Persónulegar upplýsingar
Fæddur12. mars 1947 (1947-03-12) (77 ára)
Detroit, Michigan, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiAnn Davies (g. 1969)
TrúarbrögðMormónatrú
Börn5
HáskóliStanford-háskóli
Brigham Young-háskóli
Harvard-háskóli
Undirskrift

Willard Mitt Romney (f. 12. mars 1947) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Detroit í Michiganfylki. Hann gegndi áður starfi ríkisstjóra Massachusettsfylkis. Hann sóttist eftir tilnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2008 en hætti kosningabaráttu sinni 7. febrúar 2008 eftir að hafa tapað baráttunni um tilnefningu repúblikanaflokksins fyrir John McCain. Hann var forsetaframbjóðandi repúblikanaflokksins í kosningabaráttunni 2012, gegn sitjandi forseta Barack Obama, en tapaði fyrir honum.[1][2]

Æska og menntun

[breyta | breyta frumkóða]

Mitt Romney fæddist í Detroit þann 12. mars 1947. Hann er sonur George Romney fyrrum ríkisstjóra Michigan og Lenore Romney. Hann giftist konu sinni, Ann Romney árið 1969 og saman eiga þau fimm börn. Romney útskrifaðist með BA gráðu í Ensku frá Brigham Young Háskóla árið 1971, hann úskrifaðist svo með heiðri með sameinaða meistara gráðu í lögfræði og -viðskiptum frá Harvard háskóla árið 1975. Romney er mormónatrúar og er meðlimur kirkjunnar Church of Jesus Christ of Latter-day Saints.[3][4]

Viðskiptaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Mitt Romney hefur víðtæka reynslu úr viðskiptaheiminum. Hann byrjaði sama ár og hann útskrifaðist úr Harvard sem ráðgjafi hjá Boston Consulting Group. Frá árinu 1977 hefur hann gegnt ýmsum störfum fyrir Bain & Company og systur fyrirtæki þess Bain Capital, þar á meða sem forstjóri þeirra beggja. Romney náði þjóðarathygli í Bandaríkjunum þegar hann tók við sem stjórnandi vetrarólympíuleikanna í Salt Lake, þar nýtti hann sér viðskiptaþekkingu sína í bland við pólitíska hæfni. Romney og hans fólk hélt því síðar fram að sökum þeirrar viðskiptareynslu sem hann hefði, þá væri hann rétti maðurinn til að leiða Bandaríkin út úr kreppuástandi.[5][6]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Romney var kosinn ríkisstjóri Massachusetts-ríkis árið 2003. Á kjörtímabili hans sem ríkisstjóri Massachusetts náði hann að ná tökum á gríðarlegum ríkishalla sem var um þrír milljarðar Bandaríkjadala. Hann gerði einnig gríðarlegar breytingar á heilbrigðiskerfi Massachusetts í anda þess sem að Barack Obama er að innleiða á landsvísu í dag. Eftir að Romney hafði setið eitt kjörtímabil sem ríkisstjóri hafnaði hann því að halda áfram sem ríkisstjóri en fór þess í stað að huga frekar að framboði sínu til forseta Bandaríkjanna. Árið 2008 fór hann fram í forkosningum repúblikana en laut í lægra haldi fyrir John McCain, þingmanni frá Arizona-fylki. Romney var þó óþreyttur við að vekja á sér athygli og hélt möguleikum opnum fyrir áframhaldandi baráttu sinni að útnefningu Repúblikana sem Forsetaefni þeirra.

Forsetakosningarnar 2012

[breyta | breyta frumkóða]

Það var svo í júní árið 2011 sem að Romney tilkynnti um þátttöku sína í forkosningum repúblikana fyrir forsetakosningar árið 2012. Í þetta sinn þótti Romney strax vera frekar sigurstranglegur frambjóðandi. Romney var óþreyttur við að gagnrýna stefnu Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Hann tileinkaði sér stefnu Repúblikanaflokksins í skattamálum, efnahag og stríðinu gegn hryðjuverkum. Gagnrýnendur Romney voru því duglegir við að ásaka hann um að breyta sífellt um skoðanir og vera ósamkvæmur sjálfum sér í skoðunum. Romney hafði verið tvísaga í ýmsum málefnum svo sem fóstureyðingum, sem hann er einlægur andstæðingur við og einnig á endurbótum á heilbrigðiskerfinu. Hann hefur gagnrýnt þær breytingar sem að Obama hefur innleitt jafnvel þó að hann hafi sjálfur sett á samskonar breytingar í Massachusetts-ríki sem ríkisstjóri þess fylkis.

Þegar stutt var eftir af forkosningum repúblikana var Romney svo gott sem búinn að tryggja sér útnefningu þeirra. Romney hóf því strax mikla sókn að Obama í júlí árið 2012 og hófst mikil orrahríð þeirra á milli. Herferð Obama setti á stað mikla rægingarherferð gegn Romney þar sem ásakanir um það að Romney hafi verið við stjórnvölin hjá fyrirtæki sínu Bain Capital til ársins 2001 en ekki til 1999 eins og Romney hafði ávallt haldið fram. Á sama tími fóru að birtast fréttir um ýmsar hreyfingar hjá Bain Capital þar sem fyrirtækið var að fjárfesta í fyrirtækjum sem höfðu haft það að leiðarljósi að flytja út störf bandarískra fyrirtækja. Herferð Obama gegn Romney ásamt þessum fréttum um athafnir Bain Capital voru mikið högg á kosningabaráttu Romney. En Romney var þó snöggur til og svaraði fyrir sig að bragði þar sem hann ásakaði Obama um að hafa meiri hag af því að þóknast þeim sem studdu hann fjárhagslega heldur en að vinna fyrir almenning í Bandaríkjunum. Þetta var þó aðeins byrjunin af gríðarlegri baráttu þeirra á milli.

Snemma ágústmánaðar tilkynnti Romney svo um varaforsetaefni sitt. Fyrir valinu varð fulltrúadeildarþingmaður að nafni Paul Ryan frá Wisconsin-ríki. Ryan, sem er íhaldsmaður, var þá formaður fjárlaganefndar. Strax í framhaldinu af tilnefningu Ryan, þar sem vangaveltur um varaforsetaefni endaði, fór fjölmiðlaathyglin að snúast meira um Ryan frekar en Romney.

Mitt Romney varð endanlega útnefndur sem forsetaframbjóðandi repúblikana 28. ágúst árið 2012 þar sem hann fékk 2061 atkvæði kjörbærra manna og kvenna á landsfundi Repúblikanaflokksins sem haldinn var í Tampa, Flórída. Það var nærri tvöfalt meira en til þurfti eða 1144 atkvæði. Á meðan landsfundinum stóð fengu þeir Romney og Ryan mikin stuðning frá samflokksmönnum sínum þar sem meðal annars John McCain, fyrrum andstæðingi Romney, hafði þau orð upp að engum manni væri eins vel treystandi eins og Romney. Romney komst í fyrirsagnir helstu dagblaðanna eftir fyrstu kappræðurnar milli hans og Obama snemma í október. Þar hélt hann uppi sterkum málflutningi og fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í þeim og fékk því mikið fylgi með sér. Næstu tvær kappræður fóru þó ekki eins vel fyrir Romney þar sem Obama kallaði hann út fyrir að vera lygara eða fara frjálslega með sannleikann. Mitt Romney tapaði svo kosningabaráttunni fyrir Barack Obama og viðurkenndi ósigur sinn opinberlega þann 7. nóvember 2012.[7][8][9]

Seta á öldungadeild Bandaríkjaþings

[breyta | breyta frumkóða]

Romney var kjörinn á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Utah í þingkosningum árið 2018. Hann tók sæti á þinginu í byrjun árs 2019. Sem þingmaður hefur Romney verið meðal helstu gagnrýnenda Donalds Trump Bandaríkjaforseta innan Repúblikanaflokksins. Romney greiddi atkvæði með því að Trump yrði sviptur embætti eftir að Trump var kærður til embættismissis árið 2020 og var eini þingmaður Repúblikana sem greiddi atkvæði á þann veg.[10] Eftir að Trump tapaði endurkjöri fyrir Joe Biden í forsetakosningunum 2020 var Romney meðal fárra Repúblikana sem viðurkenndu sigur Bidens og drógu ásakanir Trumps um kosningasvindl í efa.[11] Romney var einn af sjö öldungadeildarþingmönnum Repúblikana sem kusu með því að sakfella Trump þegar hann var aftur kærður til embættismissis árið 2021 í kjölfar árásar stuðningsmanna hans á Bandaríkjaþing þann 6. janúar það ár.[12]

Romney tilkynnti í september 2023 að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri á öldungadeildina í næstu kosningum, heldur vildi hann að ný kynslóð leiðtoga tæki við.[13]

 1. „Meet Mit Romney“ Geymt 27 ágúst 2012 í Wayback Machine af mittromney.com Skoðað 29. okt 2012
 2. „Mitt Romney Biography“ af biography.com Skoðað 30. okt 2012
 3. „Meet Mit Romney“ Geymt 27 ágúst 2012 í Wayback Machine af mittromney.com Skoðað 29. okt 2012
 4. „Mitt Romney Biography“ af biography.com Skoðað 30. okt 2012
 5. „Meet Mit Romney“ Geymt 27 ágúst 2012 í Wayback Machine af mittromney.com Skoðað 29. okt 2012
 6. „Mitt Romney Biography“ af biography.com Skoðað 30. okt 2012
 7. „Mitt Romney Biography“ af biography.com Skoðað 30. okt 2012
 8. „Mitt Romney News“ Geymt 7 nóvember 2012 í Wayback Machine af msnbc.com Skoðað 31. okt 2012
 9. „Romney admits defeat and congratulates Obama“ af bbc.com Skoðað 7. nóv 2012
 10. Samúel Karl Ólason (5. febrúar 2020). „Trump sýknaður af ákærum um embættisbrot“. Vísir. Sótt 6. desember 2020.
 11. Óttar Kolbeinsson Proppé (8. nóvember 2020). „Bush og Rom­n­ey óska Biden til hamingju og efast um á­sakanir Trumps“. Fréttablaðið. Sótt 6. desember 2020.
 12. Hildur Margrét Jóhannsdóttir (13. febrúar 2021). „Trump sýknaður af ákæru um embættisglöp“. RÚV. Sótt 29. ágúst 2023.
 13. „Romney sækist ekki eftir endurkjöri“. mbl.is. 13. september 2023. Sótt 14. september 2023.