Artsak-lýðveldið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Artsak-lýðveldið
Արցախի Հանրապետություն
Artsakhi Hanrapetut'yun
Fáni Artsak-lýðveldisins Skjaldarmerki Artsak-lýðveldisins
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Ազատ ու Անկախ Արցախ (armenska)
Azat u Ankakh Artsakh (umritun)
Frjálst og sjálfstætt Artsak
Staðsetning Artsak-lýðveldisins
Höfuðborg Stepanakert
Opinbert tungumál armenska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Robert Kotsjarjan (fyrstur)
Samvel Shahramanjan (síðastur)
Sjálfstæði frá Aserbaísjan
 • Yfirlýst 2. september 1991 
 • Upplausn og innlimun í Aserbaísjan 1. janúar 2024 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

11.458 km²
N/A
Mannfjöldi
 • Samtals (2015)
 • Þéttleiki byggðar
191. sæti
150.932
(2005) 11,8/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 0,713 millj. dala
 • Á mann 4.803 dalir
Gjaldmiðill artsakdram (AMD)
Tímabelti UTC+4
Þjóðarlén .am
Landsnúmer +374 47

Artsakh-lýðveldið eða Nagorno-Karabakh-lýðveldið var tví-landlukt sjálfstætt ríki án alþjóðlegrar viðurkenningar sem sleit sig frá Aserbaísjan árið 1991. Aðeins þrjú ríki án aðildar að Sameinuðu þjóðunum viðurkenndu það formlega: Suður-Ossetía, Abkasía og Transnistría. Í landinu var töluð armenska, sami gjaldmiðill var notaður og í Armeníu og fáni landsins var eins og armenski fáninn nema hvað ör lá meðfram hægri hlið hans. Landsvæði ríkisins voru tæpir 11.500 ferkílómetrar og mannfjöldi var rúmlega 150.000.

Artsakh-lýðveldið náði yfir stærstan hluta sögulega héraðsins Nagorno-Karabakh auk hernámssvæða Armena í Aserbaísjan. Það lá því að landamærum Armeníu í vestri, Aserbaísjan í norðri og austri og Íran í suðri.

Lýðveldið rakti uppruna sinn til armenska héraðsins Artsakh sem var hluti af Konungsríkinu Armeníu fram á 4. öld. Þar stóðu síðan nokkur armensk furstadæmi sem heyrðu undir ýmis ríki og síðast Persaveldi þar til héraðið varð hluti af Rússneska keisaradæminu árið 1813. Eftir Rússnesku byltinguna 1917 varð héraðið hluti af Sambandslýðveldi Transkákasus en árið eftir leystist sambandsríkið upp og Fyrsta armenska lýðveldið, Fyrsta aserbaísjanska lýðveldið og Fyrsta georgíska lýðveldið urðu til. Átök brutust út milli þjóðarbrota og trúarhópa í þessum löndum um leið og bardagar stóðu milli Tyrkjaveldis og rússneskra bolsévika. Bretar tóku yfir stjórn svæðisins í desember 1918. Bretar og Aserar gerðu tilraunir til að innlima héraðið í Aserbaísjan. Þetta leiddi meðal annars til stríðs um Nagorno-Karabakh árið 1920. Skömmu síðar urðu Georgía og Armenía hluti af Sovétríkjunum og héraðið varð Sjálfstjórnarhéraðið Nagorno-Karabakh innan landamæra Sovétlýðveldisins Aserbaísjan. Við upplausn Sovétríkjanna kom aftur upp spurningin um stöðu héraðsins. Armenía lagði þá undir sig stóran hluta Vestur-Aserbaísjan með stuðningi Rússa í stríðinu um Nagorno-Karabakh en bæði Tyrkland og Íran studdu Aserbaísjan og kröfðust þess að Armenar drægju herlið sitt til baka. Báðir aðilar stunduðu þjóðernishreinsanir á þeim svæðum sem þeir náðu að leggja undir sig. Árið 1994 var samið um vopnahlé. Árið 2016 urðu átök að nýju þar sem 30 manns létu lífið. [1]

Í landinu var kjörinn forseti og einnar deildar þing með 33 sætum. Landið er mjög fjalllent og liggur að meðaltali 1.100 metra yfir sjávarmáli. Íbúar voru að mestu leyti Armenar sem tala armensku. Flestir íbúar voru auk þess í armensku kirkjunni. Nokkur söguleg klaustur voru vinsæl meðal ferðamanna, sem allir komu þangað í gegnum Armeníu sem var nánast eina leiðin inn í landið.

Eftir árásir frá Aserbaísjan 19. september 2023 þar sem tugir féllu ákvað stjórn landsins að hefja viðræður við Aserbaísjan um innlimun héraðsins. Þann 27. september undirritaði forseti lýðveldisins, Samvel Shahramanjan, yfirlýsingu um upplausn stjórnar þess fyrir 1. janúar 2024. Þann 15. október dró forseti Aserbaísjan, Ilham Aliyev, fána Aserbaísjan að húni við fyrrum forsetahöllina í Stepanakert.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Utanríkismál[breyta | breyta frumkóða]

Utanríkisráðuneyti Artsakh var í Stepanakert. Þar sem ekkert aðildarríki Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi sjálfstæði Artsakh voru samskipti landsins við erlend ríki ekki samkvæmt formlegum diplómatískum leiðum. Artsakh rak samt sendiskrifstofur, í Armeníu, Ástralíu, Bandaríkjunum, Rússlandi, Þýskalandi og eina fyrir Mið-Austurlönd í Beirút, auk upplýsingaskrifstofu í Frakklandi. Skrifstofurnar áttu að kynna afstöðu stjórnar landsins í ýmsum málum, veita upplýsingar og styðja við friðarferlið.

Í ræðu árið 2015 sagðist forseti Armeníu, Serzh Sargsyan, líta svo á að Nagorno-Karabakh væri óaðskiljanlegur hluti Armeníu.[2]

Artsakh-lýðveldið var hvorki aðili né áheyrnaraðili að Sameinuðu þjóðunum eða neinum af stofnunum þeirra. Það var aðili að Samtökum um lýðræði og rétt þjóða sem í eru ríki með takmarkaða eða enga viðurkenningu alþjóðasamfélagsins.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Artsakh lá í fjalllendi og héraðið Nagorno-Karabakh dregur nafn sitt af því (úr rússnesku yfir „Fjalla-Karabakh“). Landið er 11.500 ferkílómetrar að stærð og á landamæri að Armeníu, Aserbaísjan og Íran. Hæstu fjöll landsins eru Mrav-fjall sem nær 3.340 metra hæð og Kirs-fjall, sem nær 2.725 metra hæð. Stærsta stöðuvatn landsins er Sarsang-lón og helstu ár eru Terter-á og Khachen-á. Landið liggur á hásléttu sem hallar niður í austur og suðaustur. Meðalhæð er 1.100 metrar yfir sjávarmáli. Flest vatnsföll landsins renna niður í Artsakhdal.

Loftslagið er milt og temprað. Meðalhiti er 11°C sem sveiflast milli 22° í júlí og -1° í janúar. Meðalúrkoma nær sum staðar 710 mm og þoka er í 100 daga á ári.

Yfir 2.000 tegundir plantna vaxa í Artsakh og yfir 36% landsins eru þakin skógi. Á steppunum vaxa aðallega þurrlendisplöntur, meðan fjallagróður vex ofan skóglínu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Frosið stríð sem gæti þiðnað Rúv. skoðað 8. apríl, 2016.
  2. Серж Саргсян: Нагорный Карабах – это Армения Geymt 27 september 2015 í Wayback Machine. Vestnik Kavkaza. 26. september 2015.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.