Suður-Ossetía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Республикӕ Хуссар Ирыстон
სამხრეთი ოსეთი
Республика Южная Осетия
Fáni Suður-Ossetíu Skjaldarmerki Suður-Ossetíu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Þjóðsöngur Suður-Ossetíu
Staðsetning Suður-Ossetíu
Höfuðborg Tsinkval
Opinbert tungumál ossetíska, rússneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Anatoliy Bibilov
Forsætisráðherra Gennady Bekoyev
Sjálfstæði frá Georgíu
 - Yfirlýst 28. nóvember 1991 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)

3.900 km²
~0
Mannfjöldi
 - Samtals (2015)
 - Þéttleiki byggðar
212. sæti
53.532
13,7/km²
Gjaldmiðill rússnesk rúbla
Tímabelti UTC+3
Landsnúmer +995 34

Suður-Ossetía, opinberlega Lýðveldið Suður-Ossetía - Alaníuríki, eða Tskinvali-hérað, er fullvalda ríki í Suður-Kákasusfjöllum. Héraðið var áður sjálfstjórnarhérað innan Sovétlýðveldisins Georgíu og flest ríki heims líta svo á að landið sé enn hluti af Georgíu. Hluti héraðsins hefur verið stjórnað sér sjálft óháð ríkisstjórn Georgíu frá því á 10. áratugnum þegar íbúar þar lýstu yfir sjálfstæði. Átök Georgíu og Ossetíu komu til vegna vaxandi þjóðernishyggju bæði Georgíumanna og Osseta eftir hrun Sovétríkjanna 1989. Íbúar Suður-Ossetíu eru rúmlega 50.000 og er svæðið um 3.900 km² að stærð. Höfuðstaður héraðsins er Tskinval.

Georgía viðurkennir ekki núverandi stjórn Suður-Ossetíu og því er engin georgísk stjórnsýslueining sem samsvarar núverandi landsvæði (þótt Georgía hafi stofnað Bráðabirgðastjórn Suður-Ossetíu í viðleitni sinni til að ná sátt um stöðu svæðisins). Mest af landinu er innan héraðsins Shida Kartli. Í Georgíu og innan alþjóðastofnana er oft vísað til landsins sem Tskinvali-héraðs, þótt það njóti engrar opinberrar stöðu.

Sjálfstjórnarhéraðið Suður-Ossetía, sem var stofnað árið 1922, lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétlýðveldinu Georgíu árið 1991. Ríkisstjórn Georgíu brást við með því að afnema sjálfstjórn Suður-Ossetíu og reyna að ná stjórn á landsvæðinu með hervaldi, sem leiddi til Stríðsins um Suður-Ossetíu 1991-2. Átök blossuðu aftur upp 2004 og 2008. Þau leiddu til Stríðs Rússlands og Georgíu, þar sem aðskilnaðarsinnar í Suður-Ossetíu náðu fullri stjórn á landsvæðinu með fulltingi rússneska hersins. Eftir stríðið 2008 hefur Georgía og flest önnur lönd heims litið á Suður-Ossetíu sem land hernumið af rússneska hernum.

Þann 26. ágúst 2008 viðurkenndi Dímítrí Medvedev forseti Rússlands sjálfstæði Suður-Ossetíu og Abkasíu í kjölfar stríðs Rússlands og Georgíu. Síðan þá hafa Níkaragva, Venesúela, Nárú og Túvalú bæst í hóp ríkja sem viðurkenna sjálfstæði Suður-Ossetíu. Suður-Ossetía er að miklu leyti háð hernaðarlegum og fjárhagslegum stuðningi frá Rússlandi.[1][2]

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Kort af Georgíu sem sýnir Suður-Ossetíu (fjólublá) og Abkasíu (græn).

Suður-Ossetía er er miðjum Kákasusfjöllum á mótum Asíu og Evrópu. Landið er í suðurhlíðum Stór-Kákasusfjalla og við fjallsræturnar í Kartalindal.[3] Landið er mjög fjalllent. Likifjöll eru í miðri Suður-Ossetíu[4] og hásléttan sem er líka um það bil í miðju landinu nefnist Kákasus-Íbería.

Stór-Kákasusfjöll mynda norðurlandamæri Suður-Ossetíu að Rússlandi og helstu vegirnir gegnum fjöllin til Rússlands liggja að Rokigöngunum milli Suður- og Norður-Ossetíu og Darakigjárinnar. Rokigöngin voru eina beina leiðin gegnum Kákasusfjöll sem Rússlandsher gat notað í Suður-Ossetíustríðinu 2008.

Suður-Ossetía er um 3.900 km2 að stærð[5] og fjöllin skilja milli hennar og hinnar fjölmennari Norður-Ossetíu (sem er hluti Rússlands). Suður-Ossetía teygir sig í suður næstum að ánni Mtkvari í Georgíu. Yfir 89% af Suður-Ossetíu er í yfir 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Hæsti tindurinn er Kalatsafjall, 3.938 metrar á hæð.[6]

Eldkeilan Kazbek-fjall, sem er 5.047 metra hátt, er nálægt landamærum Suður-Ossetíu. Milli Kazbek og Shkhara, á um 200 km svæði meðfram Kákasusfjöllum, eru margir jöklar. Af þeim 2.100 jöklum sem nú eru í Kákasusfjöllum eru 30% innan Georgíu.

Litlu-Kákasusfjöll eru fjalllend hálendissvæði í suðurhluta Georgíu sem tengjast Stór-Kákasus meðfram Likifjöllum. Allt svæðið einkennist því af samtengdum fjallgörðum, mest eldfjöllum, og hásléttum sem ná ekki yfir 3.400 metra hæð.

Suður-Ossetía er að mestu innan Kura-dældarinnar, en lítill hluti er í Svartahafsdældinni. Likifjöll og Racha-fjöll skilja milli þessara tveggja vatnasviða. Helstu árnar í Suður-Ossetíu eru Stóra-Liakhvi og Litla-Liakhvi, Ksani, Medzhuda, Tlidon, Saltanis-skurðurinn, Ptsa og margar minni þverár.[6]

Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Aðalatvinnuvegur í Suður-Ossetíu er landbúnaður, þótt aðeins 10% landsins sé ræktarland. Helstu framleiðsluvörur eru kornvörur, ávextir og vín. Þar er líka stunduð nytjaskógrækt og nautgriparækt. Nokkrar iðnverksmiðjur starfa í landinu, aðallega í kringum höfuðborgina, Tskinval. Eftir átökin við Georgíu hefur Suður-Ossetía átt í efnahagsörðugleikum. Verg landsframleiðsla var áætluð 15 milljónir bandaríkjadala, eða aðeins 250 dalir á mann, árið 2002. Erfitt er að finna vinnu og aðföng. Georgía stöðvaði rafmagnsveitu til héraðsins svo stjórn landsins varð að koma upp rafstreng til Norður-Ossetíu í Rússlandi. Langflestir íbúar lifa af sjálfsþurftarbúskap. Eina auðlindin sem landið býr yfir er yfirráð yfir Roki-göngunum milli Georgíu og Rússlands, en þaðan er talið að stjórn Suður-Ossetíu hafi haft þriðjung tekna sinna með tollum á flutninga fyrir stríðið.

Forsetinn Eduard Kokoity hefur viðurkennt að landið sé algjörlega háð aðstoð frá Rússum.[7]

Fátæktarmörk í Suður-Ossetíu voru 3.062 rúblur á mánuði árið 2007, sem var 23,5% undir meðaltalinu í Rússlandi, meðan tekjur landsmanna eru miklu lægri en í Rússlandi.[8]

Árið 2017 áætlaði stjórn Suður-Ossetíu að verg landsframleiðsla væri nærri 0,1 milljarður bandaríkjadala.[9]

Ossetia05.png

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „South Ossetia Looking Much Like a Failed State“. Associated Press. Afrit from the original on 8 July 2010. Sótt 12 July 2010.
  2. Smolar, Piotr (8 October 2013). „Georgia wary of Russian encroachment“. The Guardian. Afrit from the original on 6 March 2017. Sótt 16 December 2016.
  3. „About the Republic of South Ossetia“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5 November 2013. Sótt 31 December 2012.
  4. „Georgia:Geography“. Cac-biodiversity.org. 2003. Afrit af upprunalegu geymt þann 11 May 2011. Sótt 3 July 2011.
  5. „South Ossetia“. Hartford-hwp.com. Afrit from the original on 19 January 2012. Sótt 18 February 2012.
  6. 6,0 6,1 „South Ossetia Maps: Climate“. ALTIUS.com. Afrit from the original on 5 November 2013. Sótt 31 December 2012.
  7. „South Ossetia, center of conflict between Russia and Georgia, struggles a year after war“. Associated Press. Sótt 8. ágúst 2009.[óvirkur tengill]
  8. Delyagin, Mikhail (Mars 2009). „A Testing Ground for Modernization and a Showcase of Success“. Russia in Global Affairs. Afrit from the original on 18. október 2015. Sótt 23. október 2015.
  9. „Валовой внутренний продукт“. Afrit from the original on 13. apríl 2018. Sótt 12. apríl 2018.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.