Fara í innihald

Louis Mountbatten

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Mountbatten lávarður)
Louis Mountbatten
Mountbatten lávarður árið 1976.
Landstjóri Indlands
Í embætti
15. ágúst 1947 – 21. júní 1948
ÞjóðhöfðingiGeorg 6.
ForsætisráðherraJawaharlal Nehru
ForveriHann sjálfur (sem varakonungur)
EftirmaðurC. Rajagopalachari
Varakonungur Indlands
Í embætti
21. febrúar 1947 – 15. ágúst 1947
ÞjóðhöfðingiGeorg 6.
ForsætisráðherraClement Attlee
ForveriWavell vísigreifi
EftirmaðurHann sjálfur (sem landstjóri Indlands)
Muhammad Ali Jinnah (sem landstjóri Pakistans)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. júní 1900
Frogmore-húsi, Windsor, Berkshire, Bretlandi
Látinn27. ágúst 1979 (79 ára) Mullaghmore, County Sligo, Írlandi
MakiEdwina Ashley (g. 1922; d. 1960)
Börn2
HáskóliChrist's College, Cambridge

Louis Francis Albert Victor Nicholas Mountbatten, 1. jarlinn Mountbatten af Búrma (25. júní 1900 – 27. ágúst 1979) var breskur flotaforingi, aðalsmaður og stjórnmálamaður. Hann var móðurbróðir Filippusar hertoga af Edinborg og frændi Elísabetar 2. drottningar í annan lið. Mountbatten var síðasti varakonungur og fyrsti landstjóri Indlands, en í því embætti tók hann þátt í að semja um sjálfstæði breska Indlands og skiptingu þess í nútímaríkin Indland og Pakistan undir lok fimmta áratugarins. Mountbatten var myrtur árið 1979 í sprengjuárás írska lýðveldishersins á báti sínum við strandir Írlands í Sligo-sýslu.

Mountbatten lávarður fæddist þann 25. júní árið 1900 og var skírður Louis Francis Albert Victor Nicholas Battenberg. Faðir hans var Loðvík fursti af Battenberg, aðalsmaður ættaður frá Austurríki sem hafði gerst breskur ríkisborgari, en móðir hans var Viktoría af Hessen-Darmstadt, dóttir Loðvíks 4. stórhertoga af Hessen og dótturdóttir Viktoríu Bretadrottningar.[1]

Battenberg fursti hafði verið breskur ríkisborgari frá árinu 1868 og varð fyrsti sælávarður breska flotans árið 1912. Stuttu eftir að fyrri heimsstyrjöldin hófst árið 1914 sagði hann af sér sem stjórnandi flotans vegna hrakfara við upphaf stríðsins og vegna aukinnar andúðar Breta í garð Þjóðverja á stríðsárunum. Tortryggnin gagnvart Þjóðverjum á stríðstímanum leiddi til þess að Battenberg-fjölskyldan breytti nafni sínu í Mountbatten árið 1917. Louis, sem var táningur á styrjaldarárunum og nýliði í flotanum, var miður sín yfir því að hollusta fjölskyldunnar við Bretland væri dregin í efa en varð fyrir vikið enn staðráðnari í að hreinsa nafn ættarinnar.[2]

Árið 1921 kynntist Louis Mountbatten barónsdótturinni Edwinu Ashley og kvæntist henni næsta ár.[3] Svaramaður Mountbattens var návinur hans, Játvarður prins af Wales. Mountbatten hafði haldið ferli sínum í flotanum áfram frá táningsárum sínum. Hann gekk í sérskóla í Portsmouth og Greenwich, nam loftskeytafræði og tók túlkspróf í frönsku og þýsku. Árið 1934 var settur yfir stjórn tundurspillisins HMS Daring og árið 1937 varð hann yngsti yfirforinginn (e. commander) í breska flotanum.[2]

Seinni heimsstyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar tók Mountbatten við stjórn flotadeildar og fékk til eigin umráða nýjan tundurspilli, HMS Kelly. Í desember 1939 rakst Kelly á tundurdufl en áhöfninni tókst að stýra skipinu til hafnar þrátt fyrir að það hafi þá verið fullt af vatni. Næsta ár fórst Kelly í sjóorrustu gegn þýsku herskipi við Krít. Mountbatten var meðal fárra áhafnarmeðlima sem komust lífs af.[2]

Mountbatten var í kjölfarið hækkaður í tign og settur við stjórn flugmóðurskipsins HMS Illustrious. Stuttu síðar gerði Winston Churchill hann að varaflotaforingja og loftmarskálki og fól honum stjórn deildarinnar Combined Operations innan breska stríðsmálaráðuneytisins. Deildin stýrði skyndiárásum á hernámssvæði Þjóðverja á meginlandi Evrópu. Mountbatten átti þá hugmynd að smíða innrásarhöfn í Bretlandi og flytja hana í bútum að ströndum Frakklands og að leggja olíuleiðslu undir Ermasund.[2]

Árið 1943 varð Mountbatten hæstráðandi herafla bandamanna í Suðaustur-Asíu. Mountbatten fór með yfirstjórn breskra, indverskra og afrískra hermanna sem höfðu það hlutverk að hrekja Japani úr frumskógum Búrma. Þrátt fyrir að vera neðarlega í forgangsröðun bandamanna í dreifingu hergagna unnu bandamenn sigur á Japönum í Suðaustur-Asíu og þann 12. september árið 1945 tók Mountbatten við skilyrðislausri uppgjöf Japana í Singapúr.[2]

Mountbatten og sjálfstæði Indlands

[breyta | breyta frumkóða]
Mountbatten-hjónin ásamt Mahatma Gandhi árið 1947.

Að stríðinu loknu skipaði Clement Attlee forsætisráðherra Mountbatten í embætti varakonungs Indlands. Indland var að stíga síðustu skrefin í átt til sjálfstæðis og því var viðbúið að hlutverk Mountbattens yrði að semja við indversku sjálfstæðisleiðtogana og ganga frá aðskilnaði Bretlands og Indlands. Mountbatten fór fram á það við Attlee að sem varakonungur fengi hann óskorað vald og athafnafrelsi í samningaviðræðunum, sem var fordæmalaust fyrir varakonunga Indlands.[4]

Mountbatten tók við embætti varakonungs í febrúar 1947 og lagði áherslu á hraða í aðskilnaðarferli Bretlands og Indlands. Hann fékk því framgegnt að fallist var á að samband Bretlands og Indlands myndi formlega líða undir lok þann 1. júlí 1948 og gaf sér því 16 mánaða tímaramma til að ganga frá valdatilfærslu frá Bretum til indverskra leiðtoga. Við upphaf þessa tímaramma hafði enn ekki verið ákveðið hvort hið sjálfstæða Indland yrði áfram eitt ríki eða hvort því yrði skipt í tvennt milli hindúa og múslima.[5] Mountbatten var sjálfur hlynntur því að Indland yrði áfram eitt ríki en að endingu var hann nauðbeygður til að samþykkja kröfur Muhammads Ali Jinnah um að stofnað yrði sérstakt ríki fyrir indverska múslima, Pakistan.[4] Jinnah var sannfærður um að Mountbatten drægi taum hindúa þar sem Mountbatten var vinveittur Jawaharlal Nehru, leiðtoga Indverska þjóðarráðsins, og alkunna var að eiginkona Mountbattens, Edwina, átti í ástarsambandi við Nehru.[5]

Í júní 1948, eftir að ákveðið hafði verið að Indlandi skyldi skipt í tvö ríki, tilkynnti Mountbatten að sjálfstæði landanna skyldi flýtt um hálfan mánuð og yrði nú 14. ágúst. Ekki hafði enn verið útkljáð um hvar landamæri nýju ríkjanna tveggja skyldu staðsett þegar sjálfstæðisdagurinn rann í garð. Þegar Indlandi var skipt bjuggu fjölmargir hindúar og múslimar hver innan um annan og margir fluttust búferlum til þess að forðast að verða innlyksa í ríki „hins“ trúarhópsins. Fólksflótti og kynþáttaofbeldi í skiptingunni leiddi til þess að hundruðir þúsunda létust á næstu mánuðum. Mountbatten hefur í seinni tíð sætt harðri gagnrýni fyrir að flýta sjálfstæðisferlinu og gefa ekki nægan tíma til að ganga frá landamæraskiptingunni á skipulegan hátt.[5]

Winston Churchill, sem var návinur Mountbattens, var honum öskureiður fyrir að standa að skiptingu Indlands og aðskilnaði Bretlands frá krúnudjásni heimsveldis síns. Sagt er að þeir hafi ekki talast við næstu fimm árin.[1]

Síðari störf

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Mountbatten sneri heim frá Indlandi afþakkaði hann boð Attlee um að gerast varnarmálaráðherra en var þess í stað gerður yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins á Miðjarðarhafi.[1] Árið 1949 hlaut Mountbatten aðalsnafnbótina jarl af Búrma. Stuttu eftir að Winston Churchill lét af völdum sem forsætisráðherra í annað sinn árið 1955 fékk hann Elísabetu drottningu til að skipa Mountbatten í embætti fyrsta sælávarðar breska flotans, sem er æðsta staðan í flotanum og sama embætti og faðir Mountbattens hafði áður gegnt.[2] Árið 1959 varð Mountbatten svo yfirmaður breska varnarmálaráðsins, sem er ein valdamesta staðan innan alls breska hersins. Í þeirri stöðu lét Mountbatten koma á nýjum vopnakerfum og kom því áleiðis að allar deildir breska hersins lytu sameiginlegri yfirstjórn.[6]

Mountbatten lét af störfum árið 1965 og var kvaddur við hátíðlega athöfn er hann yfirgaf varnarmálaráðuneytið í Whitehall.[6]

Morðið á Mountbatten

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 27. ágúst árið 1979 sigldi Mountbatten á skemmtisnekkju út frá smábátahöfn í Mullaghmore í Sligo-sýslu á Írlandi þegar fjarstýrð sprengja sprakk um borð og varð honum að bana. Auk Mountbattens lést 14 ára dóttursonur hans og 15 ára háseti á bátnum. Lafði Brabourne, tengdamóðir elstu dóttur Mountbattens, lést úr sárum sínum morguninn eftir árásina.[7] Aðrir ættingjar og vinir Mountbattens sem voru um borð særðust alvarlega. Sprengjuárásin var framin af meðlimum írska lýðveldishersins, sem sögðu verknaðinn vera lið í að „slíta heimsvaldasinnað hjartað“ úr Bretlandi uns leyst yrði úr deilunum á Norður-Írlandi.[8] Írski lýðveldissinninn Thomas McMahon var handtekinn og dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Mountbatten en var látinn laus árið 1998 eftir að föstudagssáttmálinn var undirritaður milli sambandssinna og lýðveldissinna á Norður-Írlandi.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „Mountbatten“. Morgunblaðið. 28. ágúst 1979.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 „Glæsilegur æviferill“. Fálkinn. 28. október 1955.
  3. Dudley Barker (30. desember 1954). „Herforinginn og eiginmaðurinn Louis Mountbatten“. Alþýðublaðið.
  4. 4,0 4,1 „Indland og Mountbatten“. Morgunblaðið. 15. febrúar 1976.
  5. 5,0 5,1 5,2 Dagur Þorleifsson (9. ágúst 1994). „Dýrkeyptur flýtir“. Tíminn.
  6. 6,0 6,1 „Mountbatten lávarður kveður eftir 52 ára þjónustu“. Morgunblaðið. 18. júlí 1965.
  7. „Mikil gremja og reiði vegna hryðjuverka IRA“. Morgunblaðið. 29. ágúst 1979.
  8. „Mikill harmur vegna dauða Mountbattens jarls“. Vísir. 28. ágúst 1979.
  9. „Morðingi Mountbattens lávarðar látinn laus“. mbl.is. 8. ágúst 1998. Sótt 18. desember 2020.