Fara í innihald

Filippus prins, hertogi af Edinborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Filippus prins,
hertogi af Edinborg
Filippus árið 1992.
Skjaldarmerki Filippusar
Fæddur
Filippus prins af Grikklandi og Danmörku af Lukkuborgarætt

10. júní 1921(1921-06-10)
Dáinn9. apríl 2021 (99 ára)
Í Windsor-kastala
Hvílir í Kappellu heilags Georgs í Windsor kastala
TrúEnska biskupakirkjan
MakiElísabet 2. Bretadrottning
BörnPrinsar og prinsessa:
ForeldrarAndrés prins af Grikklandi og Danmörku og Alice af Battenberg

Filippus prins, hertogi af Edinborg (fæddur sem Filippus prins af Grikklandi og Danmörku[1] 10. júní 1921, látinn 9. apríl 2021[2]), var eiginmaður Elísabetar 2., drottningar Bretlands og breska samveldisins.

Filippus var meðlimur Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg-konungsættarinnar og fæddist inn í grísku og dönsku konungsfjölskyldurnar. Hann var sonarsonur Georgs 1. Grikklandskonungs og sonarsonarsonur Kristjáns 9. Danakonungs. Hann fæddist í Grikklandi en fjölskylda hans var gerð brottræk úr landinu þegar hann var ungbarn. Filippus hlaut menntun í Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi og gekk í breska sjóherinn árið 1939, þá 18 ára að aldri. Í júnímánuði árið 1939 hóf hann bréfasamskipti við frænku sína, hina þrettán ára gömlu Elísabetu prinsessu, sem hann hafði fyrst kynnst árið 1934. Í seinni heimsstyrjöldinni barðist Filippus með breska flotanum á Miðjarðarhafi og Kyrrahafi.

Eftir að stríðinu lauk fékk Filippus leyfi frá Georg 6. konungi til að kvænast Elísabetu. Áður en trúlofun þeirra var formlega kynnt í júlí árið 1947 afsalaði hann sér öllum grískum og dönskum aðalstitlum og gerðist breskur ríkisborgari. Hann tók upp ættarnafnið Mountbatten, sem afi hans og amma í móðurætt höfðu borið. Þau Elísabet gengu í hjónaband þann 20. nóvember 1947. Stuttu fyrir brúðkaupið var hann gerður barón af Greenwich, jarl af Merioneth og hertogi af Edinborg. Filippus hætti virkri herþjónustu þegar Elísabet varð drottning árið 1952 og varð formlega breskur prins árið 1957.

Filippus eignaðist fjögur börn með Elísabetu: Karl, Önnu, Andrés og Játvarð. Hann á átta barnabörn og átta barnabarnabörn. Samkvæmt tilskipun sem gefin var út árið 1960 er afkomendum Filippusar og Elísabetar sem ekki bera konungstitla leyft að nota ættarnafnið Mountbatten-Windsor.

Filippus var kunnur íþróttaunnandi og kom að þróun vagnreiða sem keppnisgreinar í hestaíþróttum. Hann var meðlimur og formaður rúmlega 780 samtaka og var formaður verðlaunanefndar hertogans af Edinborg (Duke of Edinburgh's Award). Filippus var elsti karlmeðlimur bresku konungsfjölskyldunnar í sögu ríkisins og hefur verið maki bresks þjóðhöfðingja lengur en nokkur annar. Filippus lét af skyldum sínum sem prins þann 2. ágúst 2017 og settist í helgan stein. Hann lést í apríl 2021, nær 100 ára gamall.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Canadian Heritage Geymt 17 mars 2012 í Wayback Machine; Daily Telegraph; Sky News Geymt 29 september 2015 í Wayback Machine; Website of the Royal Family, sótt 15. febrúar 2018
  2. „Átti sér­stak­an stað í hjarta Breta“. mbl.is. 9. apríl 2021. Sótt 9. apríl 2021.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.