Múhameð Alí af Egyptalandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Ætt Múhameðs Alí Wāli Egyptalands
Ætt Múhameðs Alí
Múhameð Alí af Egyptalandi
Múhameð Alí Pasja
محمد علي باشا
Ríkisár 17. maí 1805 – 2. mars 1848
SkírnarnafnMúhameð Alí Pasja al-Mas'ud ibn Agha
Fæddur4. mars 1769
 Kavala, Makedóníu, Tyrkjaveldi (nú Grikklandi)
Dáinn2. ágúst 1849 (80 ára)
 Alexandríu, Egyptalandi
GröfMoska Múhameðs Alí, Kaíró, Egyptalandi
Konungsfjölskyldan
Faðir Ibrahim Agha
Móðir Zeinab
Börn10

Múhameð Alí (4. mars 1769 – 2. ágúst 1849) var albanskur herforingi í þjónustu Tyrkjaveldis sem réð yfir Egyptalandi sem landstjóri með titlinum Wāli frá 1805 til 1848. Múhameð Alí er gjarnan talinn stofnandi Egyptalands sem nútímaríkis vegna hinna fjölmörgu umbóta á efnahagi, menningu og her landsins sem hann framkvæmdi á stjórnartíð sinni. Afkomendur hans ríktu yfir Egyptalandi til ársins 1953, þegar lýðveldi var stofnað í Egyptalandi.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Æska og uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Múhameð Alí fæddist í borginni Kavala, sem er í dag í Grikklandi en var þá á yfirráðasvæði Tyrkjaveldis, til foreldra af albönskum ættum. Samkvæmt mörgum evrópskum blaðamönnum sem hittu Múhameð Alí talaði hann albönsku best allra tungumála og tyrknesku litlu verr.

Múhameð Alí var sonur tóbakskaupmanns að nafni Ibrahim Agha og konu hans, Zainab.[1][2] Hann var einnig systursonur Hússeins Agha, bæjarstjóra Kavala, og fór í fóstur til hans eftir að faðir hans lést. Hann starfaði á unga aldri sem skattheimtumaður í borginni fyrir frænda sinn með titlinum Bölükbaşı. Múhameð Alí þótti inna þetta starf með prýði og var því hækkaður í tign og gerður að aðstoðarforingja í sjálfboðaherdeild sem var send árið 1801 ásamt stærri her Tyrkja til Egyptalands til að aflétta hernámi Frakka eftir Egyptalandsherför Napóleons.

Árið 1760 kvæntist Múhameð Alí frænku sinni, Emine Nosratli, dóttur hins ríka Alí Agha. Hann kom til Abúkir í Egyptalandi ásamt hersveitum Tyrkja vorið 1801.[3]

Frami í Egyptalandi (1801-1811)[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Frakkar hörfuðu frá Egyptalandi var landið skilið eftir án sterkrar forystu. Veldi mamlúka í landinu stóð mjög höllum fæti eftir innrás Frakka og stjórn Tyrkjaveldis vonaðist til þess að notfæra sér veikleika þeirra til að endurheimta stjórn yfir Egyptalandi. Á þessum rósturtíma lék Múhameð Alí tveimur skjöldum og barðist bæði með heimamönnum og Tyrkjum til þess að auka við persónulegan hróður sinn. Árið 1805 kröfðust egypskir trúarleiðtogar þess við Tyrki að Múhameð Alí yrði gerður að landstjóra (wāli) yfir Egyptalandi og Tyrkir féllust á tillöguna í von um að honum gæti tekist að friðþægja stríðshrjáð landið.

Selím 3. Tyrkjasoldán sá sér ekki fært að koma í veg fyrir valdatöku Múhameðs Alí og lagði því blessun sína við útnefningu hans. Í stríðinu milli Tyrkja og mamlúka um Egyptaland frá 1801 til 1805 hafði Múhameð Alí gætt þess að viðhalda trausti og stuðningi alþýðunnar og hann naut því meiri alþýðuhylli en flestir.[4] Múhameð Alí hafði stillt sjálfum sér upp sem verndara lítilmangans og þannig tekist að vinna bug á andstæðingum sínum í Egyptalandi þar til hann tók formlega við völdum.[5]

Þrátt fyrir að hafa verið sigraðir á vígvellinum ógnuðu mamlúkarnir, sem höfðu stjórnað Egyptalandi í rúm 600 ár, enn valdi Múhameðs Alí. Árið 1811 bauð hann því leiðtogum þeirra í veislu í Kaíró til heiðurs syni sínum, Túsún Pasja, sem hafði verið valinn til að stýra hernaðarleiðangri til Arabíu. Þegar leiðtogar mamlúkanna komu til Kaíró þann 1. mars lét Múhameð Alí hermenn sína hins vegar umkringja þá og drepa og var þaðan af traustur í sessi sem einvaldur Egyptalands.[6]

Múhameð Alí vildi reisa stórveldi í Egyptalandi, sem hann áleit eðlilegan arftaka hins aldurhnigna Tyrkjaveldis. Hann lýsti hugmyndum sínum um Egyptaland á eftirfarandi máta:

„Ég geri mér vel grein fyrir því að ósmanska veldið nálgast tortímingu með hverjum deginum sem líður. […] Á rústum þess ætla ég að reisa mikið konungdæmi […] sem mun ná fram á bakka Efrat og Tígris.“[7]

Nútímavæðing Egyptalands[breyta | breyta frumkóða]

Sem landstjóri kynnti Múhameð Alí til sögunnar margvíslegar umbætur í Egyptalandi: Hann innleiddi herkvaðningu til þess að reka fastan her sem hann nýtti til þess að ná stjórn á landamærum Egyptalands. Hann hóf einnig stórtæka uppbyggingu mikilvægra innviða, meðal annars byggingu vega og síkja. Til þess að vinna byggingarverkefnin kvaddi hann um 300.000 manns í nauðungarvinnu og margir verkamennirnir létust vegna slæmra vinnuaðstæðna. Múhameð Alí sá fyrir sér byggingu járnbrautar frá Kaíró til Súes og gerð siglingaskurðs til að tengja Miðjarðarhafið við Rauðahafið. Hann náði aldrei að framkvæma þessi verkefni, en bæði urðu þau að veruleika á stjórnartíðum eftirmanna hans. Á valdatíð Múhameðs Alí varð Egyptaland leiðandi ríki á heimsvísu í framleiðslu bómullar. Múhameð Alí hrinti einnig af stokkunum ýmsum samfélagsumbótum og lét stofna nútímalega skóla og háskóla.

Sjálfstæðisbaráttan við Tyrkjasoldán[breyta | breyta frumkóða]

Að nafninu til var Múhameð Alí ætíð lénsmaður Tyrkjasoldáns, en í reynd réðu Tyrkir litlu sem engu í Egyptalandi á valdatíð hans. Múhameð Alí barði niður uppreisn wahhabista í Arabíu í nafni Tyrkjasoldáns á árunum 1811 til 1818 og kom Tyrkjum til aðstoðar í gríska sjálfstæðisstríðinu frá 1824 til 1828. Í stríðinu var flota Múhameðs Alí eytt í orrustunni við Navarínó. Stuttu eftir stríðið fékk Múhameð Alí því framgegnt að synir hans yrðu lýstir erfingjar að landstjóraembættinu.

Múhameð Alí hóf einnig sjálfstæða útþenslu í suðurátt til þess að ná stjórn á auðlindum á borð við gull og fílabein. Á stjórnartíð hans lögðu Egyptar undir sig Núbíu og efri ósa Nílarfljóts. Árið 1821 stofnaði hann nýja borg, Kartúm, við mót Hvítu Nílar og Bláu Nílar. Þar varð höfuðborg egypsku hjálendunnar Súdan.

Árið 1831 kom til deilna milli Múhameðs Alí og soldánsins og stríð braust út á milli Egypta og Tyrkja. Undir stjórn sonar hans, Ibrahims Pasja, lögðu egypskir herir undir sig Palestínu og Sýrland og komust í nokkurra daga göngufæri við sjálfa höfuðborgina Konstantínópel. Þann 21. desember árið 1832 sigraði 15.000 egypskur her 53.000 manna tyrkneskan her í orrustunni við Konya. Með milligöngu Breta og Frakka var síðan samið um frið og Múhameð Alí hlaut stjórn yfir bæði Sýrlandi og Palestínu.

Árið 1839 hóf Makmúð 2. Tyrkjasoldán annað stríð gegn Egyptum en bað ósigur í orrustu við Nezib gegn Ibrahim Pasja þann 24. júní sama ár. Makmúð lést stuttu síðar og egypskir herir sóttu brátt fram hættulega nálægt Konstantínópel. Evrópuveldin ákváðu hins vegar að skerast í leikinn til að koma í veg fyrir að Egyptar tækju yfir Tyrkland. Árið 1841 samdi Múhameð Alí um frið og lét af stjórn yfir Palestínu og Sýrlandi í sáttmála sem undirritaður var í London. Múhameð Alí afneitaði einnig tilkalli sínu til Hejaz og Krítar, en fékk í staðinn alþjóðlega viðurkenningu á því að stjórn Egyptalands skyldi ganga í erfðum til afkomenda hans, sem var fordæmalaust í sögu landstjóra Tyrkjaveldis.[8]

Lokaár og dauði (1848-1849)[breyta | breyta frumkóða]

Múhameð Alí var komið frá völdum í júlí árið 1848 vegna elliglapa hans. Hann sagði af sér þann 1. september og lést í ágúst næsta ár. Ibrahim tók við völdum af honum í stuttan tíma en lést síðan sjálfur og eftirlét stjórnina sonarsyni Múhameðs Alí, Abbas. Abbas átti á stjórnartíð sinni eftir að neyðast til að eftirláta breska heimsveldinu veruleg áhrif í Egyptalandi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Mehrdad Kia (2017). The Ottoman Empire: A Historical Encyclopedia [2 volumes]. ABC-CLIO. bls. 87.
  2. Robert Elsie (2012). A Biographical Dictionary of Albanian History. I.B.Tauris. bls. 303.
  3. Cleveland, William L, A History of the Modern Middle East, (Boulder: Westview Press, 2009), 65–66
  4. P.J. Vatikiotis, The History of Egypt, (Baltimore, MD: Johns Hopkins University Press, 1985), 51.
  5. Tom Little, Egypt, (New York: Frederick A. Praeger, 1958), 57.
  6. H. Wood Jarvis, Pharaoh to Farouk, (London: John Murray, 1956), 124.
  7. Georges Douin, ed. Une Mission militaire francaise aupres de Mohamed Aly, correspondance des Generaux Belliard et Boyer (Kaíró: Société Royale de Geographie d'Egypte, 1923)
  8. Morroe Berger, Military Elite and Social Change: Egypt Since Napoleon, (Princeton, New Jersey: Center for International Studies, 1960), 11.


Fyrirrennari:
Hursjid Pasja
Wāli Egyptalands
(17. maí 18052. mars 1848)
Eftirmaður:
Ibrahim Pasja