Lorentz Angel Krieger

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lorentz Angel Krieger (10. maí 17974. maí 1838) var danskur embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi og amtmaður í Suðuramti.

Krieger var fæddur í Kaupmannahöfn og voru foreldrar hans Johan Cornelius Krieger sjóliðsforingi og kona hans Anne Sophie Rawert. Hann lauk stúdentsprófi úr heimaskóla 1814 og lögfræðiprófi 1819. Sama ár var hann gerður að kammerjúnkara. Hann varð amtmaður í Suðuramti Íslands 17. janúar 1829 og var um leið settur stiftamtmaður í stað Peters Fjeldsted Hoppe en var skipaður í embættið 2. apríl 1831.

Krieger var reynslulítill þegar hann tók við störfum á Íslandi en reyndist hæfur embættismaður og áhugasamur um hag Íslands. Hann er sagður hafa verið dugmikill, réttsýnn og viðmótsþýður og notið almennrar virðingar og vinsælda. Hann lét sig málefni Reykjavíkur miklu skipta og vann að endurbótum á stjórn bæjarmála. Hann kom því til leiðar að allar útmælingar á lóðum þurftu samþykki amtmanns og bannaði byggingar á tveimur stöðum, Lækjartorgi og Austurvelli, sem þar með urðu opin svæði. Hann lét endurreisa Skólavörðuna og gera veg að henni á eigin kostnað og var varðan um tíma kölluð Kriegers-Minde. Einnig kostaði hann veg suður með Læknum og var það upphaf Lækjargötu. Hann vann að því að komið yrði á byggingarnefnd í Reykjavík.

Krieger var í Danmörku frá hausti 1834 til vors 1836 og sat þá meðal annars á þingi Dana fyrir hönd Íslands og sat í nefnd sem rannsakaði verslunarlöggjöf sem varðaði Ísland.

Þann 24. september 1836 var Krieger skipaður stiftamtmaður í Álaborgarstifti. Hann var þó áfram á Íslandi um veturinn og gegndi embættum sínum en fór til Danmerkur um vorið. Skömmu eftir að hann tók við embætti í Álaborg veiktist hann og lést vorið 1838, fertugur að aldri og ókvæntur.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Dansk biografisk Lexikon. 9. bindi“.
  • „Byggingarnefnd Reykjavíkur 100 ára. Lesbók Morgunblaðsins, 28. júlí 1940“.