Fara í innihald

Hans Christoph Diederich Victor von Levetzow

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hans Christopher Diderich Victor von Levetzow (9. september 175428. október 1829) var þýsk-danskur aðalsmaður og embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1785-1789 og síðar í Noregi og Danmörku.

Hann var sonur Joachim Diederichs von Levetzow, greifa af Madsow, Butzin og Schwiesel í Mecklenburg og konu hans Caroline Louise Wilhelmine Treusch von Butlar. Hann var á Íslandi 1779 – 1780 í fylgd með Þórði Þóroddssyni heyrara til að kynna sér málefni Íslands. Árið 1781 hóf hann störf í Rentukammerinu, þeirri deild sem sinnti málum Íslands, Grænlands og Finnmerkur, og var árið eftir gerður að kammerherra. Haustið 1783 var hann sendur af stað til Íslands ásamt Magnúsi Stephensen til að kanna ástandið þar í kjölfar Skaftárelda en þeir lentu í miklum hrakningum, skipið sem þeir voru á nálgaðist Ísland þrívegis en hraktist alltaf aftur til Noregs og að lokum varð úr að Magnús hafði vetursetu þar en Levetzow hélt til Kaupmannahafnar. Þeir komust þó til Íslands 16. apríl vorið eftir við illan leik og fóru þá austur í Skaftafellssýslu og skoðuðu verksummerki á gosstöðvunum. Þeir sigldu svo utan með fálkaskipinu um haustið.

Levetzow varð stiftamtmaður á Íslandi 1785 og var vissulega kunnugri málefnum Íslands en margir fyrirrennarar hans og eftirmenn en þó mun skipan hans hafa mælst misjafnlega fyrir og hann lenti í deilum við ýmsa íslenska embættismenn, þar á maðal Magnús Stephensen, sem þó bar honum heldur vel söguna og sagði hann hjartagóðan, örlyndan og fljótfæran en þó sáttfúsan. Hann þótti yfirlætisfullur og drambsamur, einráður og deilugjarn. Svæsnustu deilurnar voru á milli hans og Hannesar Finnssonar biskups.

Levetzow tók við embætti á einhverjum mestu hörmungarárum íslensku þjóðarinnar og átti því við ramman reip að draga. Hann var að mörgu leyti framfara- og umbótasinnaður en mætti oft mótstöðu íslenskra valdsmanna. Eitt af því sem hann gerði var að efla mjög póstþjónustu og koma því til leiðar að ráðnir voru fjórir fastir landpóstar og sinntu þörfum kaupmanna auk embættismanna. Eftir að hann lét af embætti hrakaði póstþjónustunni fljótlega aftur og sinnti hún þá svo til eingöngu þörfum embættismanna og póstarnir hættu að koma við á verslunarstöðum.

Levetzow fékk sig fluttan árið 1789 til Kristjánssandsstiftis í Noregi. Hann varð amtmaður í Husum og Bredsted í Danmörku árið 1800. Árið 1817 fékk hann leyndarráðsnafnbót og varð stórriddari af Dannebrog 1826.

Fyrri kona hans (gift 23. apríl 1785) var Marta Tillisch, f. 1758, drukknaði ásamt tveimur sonum þeirra í Litlabelti 1801. Seinni kona hans (1802) var Juliane Marie von Krogh (1773 – 1848).

  • „Dansk biografisk Lexicon, 10. bindi“.
  • „Dómkirkjuprestur kærir sendimenn stiptamtmanns fyrir helgidagabrot. Lesbók Morgunblaðsins, 5. mars 1950“.
  • „Aukapóstganga á afmæli póstsins 13. maí. Morgunblaðið, 11. maí 1991“.