Fara í innihald

Þórður Jónassen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þórður Jónassen (Jónasson) (f. 26. febrúar 1800 í Nesi í Aðaldal, d. 25. ágúst 1880) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Þórður var háyfirdómari, þingmaður og settur stiftamtmaður.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Þórðar voru Jónas Jónsson (f. 1773, d. 1861) prestur að Nesi í Aðalreykjadal og önnur kona hans, Þórdís Jónsdóttir. Þórður giftist 1838 Dorotheu Sophiu Rasmusdóttir Lynge (f. 1808, d. 1890). Þau áttu sjö börn, og að auki átti Þórður eitt barn utan hjónabands. Tveir synir Þórðar og Dorotheu, Jónas Jonassen og Theodór Jónassen, urðu alþingismenn.

Menntun og embættisstörf[breyta | breyta frumkóða]

Þórður lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla árið 1820 og embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla árið 1830. Í nokkur ár eftir nám dvaldi Þórður í Danmörku og starfaði á ýmsum stjórnarskrifstofum. Árið 1835 var honum veitt embætti sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu 1834 – 1837. Dómari í landsyfirrétti 1837 – 1877, háyfirdómari frá 1856 þar til hann baðst lausnar árið 1877 sökum aldurs. Settur sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu um skeið 1840 og að nýju 1850 – 1853, gegndi þar og dómarastörfum 1855 – 1856.

Þórður var settur amtmaður í Norður- og austuramtinu 1849 – 1850. Settur landfógeti frá marsmánuði 1852 fram á sumar. Settur stiftamtmaður um stund 1855 meðan Trampe greifi fór utan og er Trampe greifi fór alfarið af landi sumarið 1860 var Þórður settur stiftamtmaður til vors 1865 er Hilmar Finsen kom til landsins.

Þórður var stundakennari við Lærða skólann í Reykjavík árin 1847 – 1852. Ritstjóri Skírnis 1828 – 1835 og Reykjavíkurpóstsins 1847 – 1849.

Þátttaka í stjórnmálum[breyta | breyta frumkóða]

Árin 1847 – 1850 og 1851 – 1856 sat Þórður í bæjarstjórn Reykjavíkur. Hann var konungkjörinn þingmaður árin 1845 – 1859 og 1869 – 1875. Þórður var konungsfulltrúi á Þjóðfundinum 1851. Þá var Þórður konungsfulltrúi á Alþingi 1861—1865 og aðstoðarmaður konungsfulltrúa 1867.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]