Livorno

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hverfi í Livorno.

Livorno er hafnarborg á vesturströnd Ítalíu og er í Toskanahéraði. Hún er höfuðstaður Livorno-sýslu og árið 2013 voru íbúar hennar um 160.512 .

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Borgarvirki Livorno á 17. öld.

Livorno var skilgreind sem „fyrirmyndarbær“ á ítalska endurreisnartímanum. Sögu borgarinnar má skynja í gegnum uppbyggingu hverfa hennar, síki sem um þau liggja, borgarmúra og bugðótt stræti, sem marka borgarhluta Livorno, frá turnum Medici-hafnarinnar og borgarvirkjum að miðbænum. Borgin var hönnuð af arkitekinum Bernardo Buontalenti í lok 16. aldar. Í lok 17. aldar hafði borgin þanist út og kallaði það á miklar breytingar. Nálægt varnarvirkjum gömlu borgarmúranna voru byggð ný borgarvirki ásamt borgarmúrum og síkjum. Eftir að árframburður fyllti höfnina í Pisa svo að sú borg hafði ekki lengur aðgang að sjó varð Livorno aðalhafnarborg Toskanahéraðs.

Í lok ársins 1580 lýsti Ferdínand 1. de' Medici, stórhertogi af Toskana, Livorno fríhöfn (Porto Franco). Livorno-lögin, Leggi Livornine, voru lög sem giltu frá 1590 til 1603. Þessi lög efldu verslunarviðskipti, trúfrelsi og veittu hæli ýmsum sem ekki áttu annars staðar griðastað. Vegna þessa laga varð Livorno alþjóðaborg og ein af mikilvægustu hafnarborgum á öllu Miðjarðarhafssvæðinu. Margir útlendingar fluttu til Livorno; Frakkar, Hollendingar, Englendingar, Grikkir og Gyðingar, flestir komnir til að stunda þar viðskipti. Miklu síðar eða á 18. öld fluttu múslimskir Spánverjar sem neyddir höfðu verið til að taka kristni (Moriscos) til Livorno. Þann 19. mars 1606 sæmdi Ferdínand 1. Livorno formlega borgarnafnbót.

Í Napóleonsstyrjöldunum voru viðskipti við Breta bönnuð og hafði það bann mjög slæm áhrif á efnahag borgarinnar. Þegar Livorno varð hluti af hinu nýja konungsríki Ítalíu árið 1868 missti hún stöðu sína sem fríhafnarborg og mikilvægi hennar minnkaði. Livorno varð fyrir miklum skaða í seinni heimsstyrjöldinni, þar á meðal voru miklar skemmdir á mörgum söglegum minjum, svo sem dómkirkjunni og samkunduhúsi gyðinga og er borgin þess vegna frekar nútímaleg miðað við aðrar borgir á Ítalíu. Þar sem dregið hefur úr mikilvægi borgarinnar sem hafnarborgar hefur efnahagur farið versnandi og er Livorno ein fátækasta borg Norður-Ítalíu í dag.

Athyglisverðir staðir[breyta | breyta frumkóða]

Piazza Grande á 19. öld: til vinstri, Palazzo del Governatore, til hægri Dogana.

Mikið af upprunalegu borgarskipulagi og byggingarlist heldur sér í svokölluðu Feneyjahverfi í Livorno, svo sem brýr, þröngar götur, hús aðalsmanna og þétt net síkja, sem eitt sinn tengdu vöruskemmur við höfnina. Á blómatíma Livorno á 18. og 19. öld var hún lifandi borg með nýklassískum byggingum, almenningsgörðum, mörkuðum, merkum söfnum og menningarstofnunum og einbýlishúsum með útsýni að hafi.

Í Mascagnano-safninu er að finna skjöl og handrit að óperum hins mikla tónskálds Pietro Mascagni. Á hverju ári eru nokkrar af óperum hans fluttar á tónlistarhátíð sem skipulögð er af leikhúsi borgarinnar. Einnig er göngustígur við sjóinn nefndur eftir Pietro Mascagni.

Í hæðunum við Livorno er helgidómurinn Montenero, sem tileinkaður er Maríu mey, sem er verndardýrlingur Toskanahéraðs. Þessi staður er einn af föstum áfangastöðum pílagríma. Aðliggjandi safn geymir listaverk sem eru aðallega tengd kraftaverkum á sjó.

Einn áhugaverðasti minnisvarði í Livorno, Monumento dei Quattro Mori (minnisvarði fjögurra Mára), er tileinkaður stórhertoganum Ferdínand 1. de´Medici og sigur hans á sjóræningjum frá Barbaríinu. Á torginu Piazza della Repubblica er að finna tvær styttur af merkum ítölskum stjórnmálamönnum. Torgið er einnig brú en undir því liggur stórt síki.

Annað merkilegur minnisvarði er borgarvirkið Fortezza Nuova sem byggt er úr rauðum múrsteinum á tímum Medici-ættarinnar. Borgarvirkið var byggt til verjast sjóræningjum. Þrjú virkisútskot þess eru nefnd „Capitana“, „Ampolletta“ og „Canaviglia“. Upprunalega virkið var byggt fyrir endurreisnartímann. Í lok 16. aldar var annað virki reist. Í Livorno er foringjaskóli ítalska sjóhersins og þar eru einnig smærri háskólar.

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

Séra Ólafur Egilsson, sem rænt var í Vestmannaeyjum í Tyrkjaráninu en sendur til Danmerkur að afla lausnargjalds fyrir herteknu Íslendingana, kom til Livorno, sem hann kallar Legor, 11. október 1627 og var það fyrsti viðkomustaður hans frá því að hann yfirgaf Barbaríið. Hann dvaldist þar í nokkra daga og lýsir ýmsu í Reisubók sinni, meðal annars virkinu við höfnina og síkjunum, glæsilegum klæðaburði íbúanna og fleiru.

Hann sá líka Monumento dei Quattro Mori, aðeins ári eftir að lokið var við að reisa minnismerkið, og segir um það: „Þessu framar sá eg þar það meistaraverk, sem eg sá hvergi slíkt, hvað að voru iiij (4) mannsmyndir steyptar af eiri, sem að svo sátu við einn stólpa af hvítum marmarasteini. Þær myndir voru í fjötrum af eiri. Stólpinn var ferskeyttur, og sat sinn við hvern flöt, og sáu því nær út sem lifandi menn, eftirmynd eins Tyrkja og þriggja hans sona, hverir eð kristninni höfðu stóran skaða gert, þeir er voru að vexti sem risar, en sá hertogi sem þann stað byggði, vann þá í stríði, og lét svo steypa þeirra myndir til minningar, og hans mynd stendur upp yfir þeim með stóru sverði í hendi.“

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Livorno“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 25. febrúar 2012.
  • „„Séra Ólafur á sigurgöngu." Morgunblaðið, 20. september 2008“.