Elín Hirst
Elín Hirst (ElH) | |
Fæðingardagur: | 4. september 1960 |
---|---|
13. þingmaður Suðvesturkjördæmis | |
Flokkur: | Sjálfstæðisflokkurinn |
Þingsetutímabil | |
2013-2016 | í Suðvest. fyrir Sjálfstfl. ✽ |
✽ = stjórnarsinni | |
Tenglar | |
Æviágrip á vef Alþingis |
Elín Stefánsdóttir Hirst (fædd 4. september 1960) er íslenskur sagnfræðingur, fjölmiðlakona og fyrrum þingmaður. Hún var fréttastjóri bæði á Stöð 2 og Sjónvarpinu og hefur einnig gert nokkrar heimildarmyndir. Hún var kosin á Alþingi í Alþingiskosningum 2013 fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi og sat til ársins 2016.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Elín fæddist í Reykjavík og voru foreldrar hennar Stefán Hirst lögfræðingur og Valdís Vilhjálmsdóttir. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1979, grunnfagsprófi í þjóðhagfræði frá Óslóarháskóla árið 1981, BS-prófi í sjónvarpsfréttamennsku frá University of Florida 1984, og MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2005.[1]
Elín hóf störf við fjölmiðla árið 1984 og varð fréttastjóri á Stöð 2 og Bylgjunni árið 1993.
Þegar hún hætti störfum þar gerði hún heimildarmynd um Þjóðverja sem búsettir voru á Íslandi þegar Bretar hernámu landið 1940 og voru fluttir í fangabúðir á eynni Mön, þar sem þeir dvöldu öll stríðsárin. Einn þeirra var afi Elínar, Karl Hirst, og komst hann ekki aftur til fjölskyldu sinnar á Íslandi fyrr en eftir sjö ára fjarveru.[2] Hún hefur einnig gert heimildarmyndir um önnur efni, svo sem um Íslendinga í Vesturheimi og um spænsku veikina, þar sem hún fór meðal annars til Svalbarða og fylgdist með þegar lík nokkurra manna sem dóu þar úr veikinni 1920 voru grafin úr sífreranum.[3]
Elín var svo fréttastjóri á DV um skeið. Hún hóf störf á Sjónvarpinu 2002 og starfaði þar til 2008, lengst af sem fréttastjóri. Hún hefur lokið meistaraprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands.
Elín á tvo syni með fyrrum eiginmanni sínum, Friðriki Friðrikssyni, fyrrum framkvæmdastjóri Skjás 1.