Gullna hirðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Batú Kan á hásæti í handriti frá um 1300

Gullna hirðin (tatarska: Алтын Урда Altın Urda; tyrkneska: Altın Orda eða Altın Ordu, mongólska: Зүчийн улс, Züchii-in Uls; rússneska: Золотая Орда, Solotaja Orda) var mongólskt og síðar tyrkískt undirkanat innan Mongólaveldisins. Það varð til við landvinninga Batú Kans, sonar Djotsji sonar Gengiss Kan í vestri þar sem hann lagði undir sig lönd Volgubúlgara, tyrkneskra þjóðflokka: kúmana og kiptsjaka, og að lokum fyrrum furstadæmi Garðaríkis, um miðja 13. öld. Stórfurstadæmið Moskva og Búlgarska keisaradæmið héldu sjálfstæði sínu en greiddu Gullnu hirðinni skatt. Batú Kan reisti höfuðborg sína, Sarai Batú, við Volgu þar sem höfuðborg kasara, Atil, hafði áður staðið.

Um miðja 14. öld tók Gullnu hirðinni að hnigna. Svarti dauði og stríð milli erfingja kansins veiktu ríkið og Stórhertogadæmið Litháen og Konungsríkið Pólland gengu á lagið, lögðu undir sig lönd mongóla og hættu að greiða þeim skatt. Eftir 1420 tók hirðin að brotna upp í nokkur kanöt, þar á meðal Krímkanatið og Kasakkanatið. Árið 1476 hætti Ívan 3. af Moskvu að greiða Gullnu hirðinni skatt og staðan mikla við Úgrafljót sýndi að yfirráðum tatara og mongóla yfir Rússlandi var í raun lokið. Síðasti kan Gullnu hirðarinnar lést í fangelsi í Kaunas í Litháen einhvern tíma eftir 1504. Krímkanatið hélt áfram til þar til Katrín mikla lagði það undir sig 1783, og Kasakkanatið ríkti yfir Kasakstan til 1847, en síðustu kanarnir voru leppar Rússa.

Wiki letter w.svg  Þessi grein er stubbur sem ekki hefur verið settur í undirflokk. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina, eða með því að flokka hana betur.