Ketanji Brown Jackson
Ketanji Brown Jackson | |
---|---|
Dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna | |
Núverandi | |
Tók við embætti 30. júní 2022 | |
Forveri | Stephen Breyer |
Dómari við áfrýjunardómstól Columbia-umdæmis | |
Í embætti 17. júní 2021 – 30. júní 2022 | |
Forveri | Merrick Garland |
Eftirmaður | Florence Y. Pan |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 14. september 1970 Washington, D.C., Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarísk |
Maki | Patrick Jackson (g. 1996) |
Börn | 2 |
Háskóli | Harvard-háskóli |
Starf | Lögfræðingur |
Ketanji Brown Jackson (f. 14. september 1970) er bandarískur lögfræðingur og hæstaréttardómari. Hún var dómari við áfrýjunardómstól í Columbia-umdæmi frá árinu 2021 til ársins 2022. Árið 2022 tilnefndi Joe Biden Bandaríkjaforseti Jackson til Hæstaréttar Bandaríkjanna eftir að hæstaréttardómarinn Stephen Breyer tilkynnti að hann hygðist setjast í helgan stein. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti tilnefningu Jacksons þann 7. apríl. Jackson er fyrsta svarta Bandaríkjakonan til að sitja við Hæstarétt Bandaríkjanna.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Ketanji Brown Jackson fæddist í bandarísku höfuðborginni Washington, D.C. og ólst upp í Miami í Flórída. Foreldrar hennar voru báðir kennarar almenningsskóla og bróðir hennar hefur starfað með lögreglunni í Baltimore.[1] Jackson var í ræðuliði í Palmetto High School og var um skeið formaður nemendafélagsins þar.[2]
Jackson útskrifaðist frá lagadeild Harvard-háskóla og var frá 1999 til 2000 aðstoðarmaður bandaríska hæstaréttardómarans Stephens Breyer.[3] Líkt og Stephen Breyer er Jackson talin frjálslynd í túlkun sinni á stjórnarskrá Bandaríkjanna. Seta hennar við Hæstaréttinn kæmi því ekki til með að raska hugmyndafræðilegri skiptingu innan réttarins, en íhaldssamir dómarar eru þar í meirihluta á móti frjálslyndum.[4]
Jackson var skipuð dómari við alríkisdómstól í fyrsta sinn árið 2013. Hún var skipuð dómari við áfrýjunardómstól Columbia-umdæmis af Joe Biden forseta árið 2021 og var samþykkt af þingmeirihluta Demókrata við öldungadeild Bandaríkjaþings auk þess sem nokkrir Repúblikanar greiddu atkvæði með tilnefningu hennar.[1]
Þann 25. febrúar 2022 tilnefndi Joe Biden Jackson til Hæstaréttar Bandaríkjanna eftir að Stephen Breyer tilkynnti að hann hygðist fara á eftirlaun.[4] Á kosningafundi í Suður-Karólínu fyrir forsetakosningarnar 2020 hafði Biden lofað því að ef hann næði kjöri myndi hann tilnefna svarta konu til Hæstaréttarins.[1] Öldungadeild Bandaríkjaþings hóf yfirheyrslur yfir Jackson í mars 2022.[5] Kosið var um tilnefningu Jacksons þann 7. apríl og var hún samþykkt með 53 atkvæðum gegn 47.[6] Jackson tók sæti við Hæstaréttinn þann 30. júní 2022.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 Þorgerður Anna Gunnarsdóttir (28. febrúar 2022). „Fyrsta svarta konan tilnefnd til hæstaréttar Bandaríkjanna“. Kjarninn. Sótt 25. mars 2022.
- ↑ Sigurjón Björn Torfason (9. apríl 2022). „Dómari sem þekkir mótlæti“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. júní 2022. Sótt 10. apríl 2022.
- ↑ Eiður Þór Árnason (25. febrúar 2022). „Biden hyggist tilnefnda Ketanji Brown Jackson í hæstarétt“. Vísir. Sótt 25. mars 2022.
- ↑ 4,0 4,1 „Tilnefnir fyrstu svörtu konuna til Hæstaréttar“. mbl.is. 25. febrúar 2022. Sótt 25. mars 2022.
- ↑ „Situr fyrir svörum fram á fimmtudag“. mbl.is. 22. mars 2022. Sótt 25. mars 2022.
- ↑ Samúel Karl Ólason (7. apríl 2022). „Tilnefning Ketanji Brown Jackson til hæstaréttar staðfest“. Vísir. Sótt 7. apríl 2022.
- ↑ Bjarki Sigurðsson (30. júní 2022). „Ketanji Jackson fyrsta svarta konan í hæstarétti“. Vísir. Sótt 30. júní 2022.