Fara í innihald

Samuel Alito

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samuel Alito
Dómari við hæstarétt Bandaríkjanna
Núverandi
Tók við embætti
31. janúar 2006
Skipaður afGeorge W. Bush
ForveriSandra Day O'Connor
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1. apríl 1950 (1950-04-01) (74 ára)
Trenton, New Jersey, Bandaríkjunum
MakiMartha-Ann Bomgardner (g. 1985)
Börn2
HáskóliPrinceton-háskóli (BA)
Yale-háskóli (JD)
StarfHæstaréttardómari
Undirskrift

Samuel Anthony Alito, Jr. (f. 1. apríl 1950) er dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna. Hann var skipaður af George W. Bush sem eftirmaður Söndru Day O'Connor sem lét af dómsetu sökum aldurs. Alito tók sæti í hæstarétti 31. janúar 2006.

Menntun og starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Alito útskrifaðist árið 1972 með BA gráðu frá Woodrow Wilson School of Public and International Affairs við Princeton-háskóla. Hann útskrifaðist með doktorsgráðu í lögfræði (Juris Doctor) frá lagaskóla Yale-háskóla árið 1975. Árið 1987 var Alito skipaður af Ronald Reagan sem alríkissaksóknari fyrir New Jersey. Alito gegndi því starfi til 1990 þegar hann var skipaður af George H. W. Bush sem dómari við áfrýjunardómstól þriðja alríkisumdæmisins (e: Court of appeals for the Third Federal Circuit). Þriðja alríkisumdæmið nær yfir Delaware, New Jersey og stóran hluta Pennsylvaníu. Alito gegndi því embætti til 2006 þegar hann tók sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna.

Skipun í hæstarétt

[breyta | breyta frumkóða]

Sandra Day O'Connor, sem skipuð var dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna af Ronald Reagan árið 1981, tilkynnti fyrsta júlí 2005 að hún vildi láta af störfum. George W. Bush skipaði þá John G. Roberts sem eftirmann O'Connor. Þann 3. september 2005, áður en skipun Roberts hafði komið til afgreiðslu í Öldungadeild Bandaríkjaþings, lést forseti Hæstaréttar, William Rehnquist. Bush dró þá skipun Roberts sem eftirmanns O'Connor til baka og skipaði hann sem eftirmann Rehnquist og þar með sem forseta Hæstaréttar.

Þann 3. október skipaði Bush Harriet Miers, aðallögfræðing forsetans, og náinn samverkamann frá Texas, sem eftirmann O'Connor. Skipun Miers mætti mikilli andstöðu bæði frá repúblíkönum og demokrötum. Miers hafði enga reynslu sem dómari, og þótti engan veginn standanst hæfniskröfur sem gera yrði til hæstaréttardómara. Þann 27. október, þegar útséð var um að Öldungadeildin myndi samþykkja skipun hennar bað Miers Bush að draga skipun sína til baka. Þann 31. október tilkynnti Bush að hann hygðist skipa Samuel Alito í sæti O'Connor's, og 10 nóvember var skipun hans lögð fyrir Öldungadeild Bandarikjaþings. Lögmannasamband Bandaríkjanna (American Bar Association) lýstu því yfir að Alito væri „mjög hæfur“ í embættið.

Skipun Alito mætti mikilli andstöðu frá demokrötum og ýmsum vinstrisinnuðum og frjálslyndum þrýstihópum, enda þótti hann einstaklega íhaldssamur í túlkun sinni á lögum og stjórnarskrá og mjög langt til hægri í afstöðu til samfélags- og stjórnmála. Skipun Alito var talin færa Hæstarétt full langt til hægri, enda væru skoðanir hans helst í anda Clarence Thomas og Robert Bork. The American Civil Liberties Union (ACLU) lagðist formlega gegn skipan Alito en það er í þriðja skipti í sögu samtakanna sem þau hafa lagst gegn skipun hæstaréttardómara. Síðast lögðust samtökin gegn skipun Robert Bork árið 1987 en öldungadeildin hafnaði skipun hans.

Tilraun demokrata til að stöðva skipun Alito með málþófi í janúar 2006 mistókst. Leiðtogi málþófstilraunarinnar var John Kerry. Þann 31. janúar samþykkti Öldungadeildin skipun Alito með 58 atkvæðum gegn 42.